14.12.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (2278)

138. mál, jarðhitarannsókn

*Flm. (Emil Jónsson):

Hv. l. þm. Skagf. spurði, hverskonar rannsóknir það væru, sem fyrir okkur vektu. Ég get svarað því, að það er ekki þesskonar rannsókn, sem hann minntist á, að mæla einungis afrennsli hveravatnsins, heldur að athuga, hvort ekki er hægt með borunum að auka heita vatnið. Víða eru miklir möguleikar til að fá orkumagnið aukið með borunum. Þessar tilraunir hafa fátækir hreppar ekki efni á að framkvæma, og viljum við því láta ríkið taka þátt í kostnaðinum. Það er auðvitað fróðlegt að mæla vatnsmagnið og hitastig gufunnar á ýmsum stöðum, en hitt er þó þýðingarmeira, að fá vitneskju um. hvort ekki er hægt að auka hitamagnið með borunum. Víða hefir verið hægt að margfalda hitamagnið á þennan hátt. Þetta kostar auðvitað nokkuð, en þó ekki mjög mikið, samanborið við gagn það, sem af því fæst. Og enda þótt hv. fjvn. telji öll tormerki á að afla fjár til þessara hluta. get ég bent á ýmsa útgjaldaliði fjárl., sem ekki eru gagnlegri en fjárframlög til þessara tilrauna. Vil ég mælast til þess við n., að hún rannsaki nánar, hvort ekki megi finna einhverjar leiðir til þess að afla fjár til að standa straum af þessum kostnaði.