21.12.1937
Sameinað þing: 18. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2294)

130. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag á atvinnurekstri

Thor Thors:

Ræða hv. þm. Barð. gefur að vísu ekki tilefni til mjög alvarlegra umr. um þetta mál. En hann var óvenjulega órökvís í þessari ræðu sinni, því að hann byrjaði á að fagna yfir, að við hefðum flutt þessa till., sem væri í samræmi við stefnu Framsfl., en fór svo að tala á móti þessu stefnumáli flokksins, svo að slík ræða verður ekki tekin mjög alvarlega.

En ég vil segja hv. þm., út af því, sem hann sagði um togaraútgerðina og tap á henni, að þessi till. er ekki sérstaklega miðuð við togaraútgerð, heldur á að rannsaka, hvar og hvernig sé hægt að koma við þessu fyrirkomulagi í atvinnurekstri landsmanna í heild. Og þótt svo hafi verið síðustu árin, og liti því miður þannig út nú, að tap verði á togaraútgerðinni, þá er vonandi, að einhverntíma komi það árferði, að sú útgerð, sem rekin verður hér á landi, skili rekstrarágóða, og þá mundi vitanlega þetta fyrirkomulag geta náð til þess, ef svo færi, að Alþingi sýndi þessu máli þann skilning, að vilja stuðla að því, að því yrði komið á.