21.12.1937
Sameinað þing: 18. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í D-deild Alþingistíðinda. (2302)

141. mál, gæzlu- og björgunarskip fyrir Vestfjörðum

*Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég get verið fáorður um þessa till. Í grg. er skýrt frá, að slysavarnadeildin á Vestfjörðum hafi safnað 50 þús. kr. til björgunarskips, en gera má ráð fyrir, að skip, sem gæti verið bæði björgunarskip og varðskip, mundi kosta um 100 þús. kr. Og ef slysavarnasveit Vestfjarða hefði samstarf við ríkisstj. um kaup á slíku skipi, þá mundi ríkið ekki þurfa að leggja fram nema 50 þús. kr. Það fé yrði að sjálfsögðu tekið af andvirði Óðins, enda er í gildi þál. um, að því fé verði varið á þann hátt. Á Vestfjörðum líta menn svo á, að of dýrt sé að hafa sérstakan björgunarbát og sérstakan varðbát, því að þótt hægt væri að safna nægilega miklu fé til þess að byggja björgunarbát, þá er fyrirsjáanlegt, að ekki væri hægt að safna þar hinum árlega rekstrarkostnaði; hinn tvöfaldi rekstur þessara báta mundi því lenda á ríkinu og verða óbærilegur.

Með þessari till. er ekkert fastákveðið, heldur er stj. aðeins falið að semja við slysavarnadeildina um þetta mál, og er ekkert sjálfræði tekið af þeim með þessari till. Bak við okkur flm. standa menn, sem eru forgöngumenn slysavarnahreyfingarinnar á Vestfjörðum, og aðrir, sem áhuga hafa á slysavarnamálum þar.

Ég vil svo óska, að till. verði afgr. sem ályktun til stj.