15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2311)

134. mál, sjúkrahúsrúm fyrir geðveika menn

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það er óþarfi að hafa langa ræðu um þessa þáltill. Grg. hennar gerir málinu nokkurn veginn full skil, — þau skil, að mjög nauðsynlegt er að ráða bót á þessu ástandi, sem nú á sér stað. Það er skýrt tekið fram í grg., hve mikil þrengsli eru í geðveikrahælunum og hvert húsrúm geðveikum sjúklingum er ætlað. Ennfremur er skýrt frá þeim umbótum, sem gerðar hafa verið til þess að ráða bót á húsnæðisleysinu á Kleppi, sem sé með því að bæta nokkrum rúmum við sig á Laugarnesspítalanum. Teknar voru tvær allstórar stofur þar, og hafa verið settir þar 10 geðveikir menn, síðan bætt tveimur við í þessar stofur, þannig að nú er þar fullskipað. Það eru svokallaðir „króniskir“ sjúklingar, sem þar eru, sem ekki er gert ráð fyrir bata hjá, en liggja ósjálfbjarga og vita tæplega um sig eða umhverfi sitt. Hafa þeir verið teknir þarna sökum þess, að tiltækilegra þykir að hafa þá en aðra sjúklinga, sem mikið heyrist til. Eins og menn vita, er Laugarnesspítalinn timburhús, og því er þar mjög hljóðbært. Er því illmögulegt að hafa þar annarskonar sjúklinga en þessa.

Ef maður vildi fara út í að lýsa því, hvernig ástatt verður í hvert sinn, sem það kemur fyrir — og það er býsna oft —, að maður verður skyndilega brjálaður á heimili, eins og þau gerast upp og ofan, þá yrði þar ömurlegur kafli í þingtíðindunum, og ég ætla að losa hv. þdm. við að hlusta á það. En hins ætlazt ég til, að þeir fullkomlega skilji og setji sig inn í, að það eru þau vandræði, sem af slíkum tilfellum hljótast, að öllum ber skylda til að gera sitt til að bæta úr því. Þáltill. þessi er borin fram í því skyni að hreyfa málinu og skora á ríkisstj., hinn rétta aðilja í þessu máli, að athuga möguleika fyrir auknu húsrúmi fyrir þessa vesalings menn, og ekki síður vegna hinna mjög svo bágstöddu aðstandenda slíkra manna. Ég vonast til þess, að hv. deild sjái ekki ástæðu til að bregða fæti fyrir þessa till., heldur treysti ég því fastlega, að þdm. séu mér öldungis sammála um það, að hér sé um að ræða það ástand, sem ekki verður við unað og eitthvað verði að taka til bragðs til að bæta úr. Því að fyrir utan ógurleg óþægindi, sem orð fá ekki lýst, þegar skyndilegt brjálæði ber að garði, þá leggst í hverju tilfelli á svo geysilegur kostnaður, að ómögulegt er fyrir einstaklinga að rísa undir og illmögulegt fyrir bæjar- og sveitarfélög. Hér þarf því skjótrar bjargar við og að málið sé tekið fyrir af alvöru, jafnvel meiri alvöru en hingað til hefir verið gert.