21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2319)

134. mál, sjúkrahúsrúm fyrir geðveika menn

*Magnús Jónsson:

Vegna þeirrar till., sem kom fram um það að vísa þessu máli til stj., sem ekki getur þýtt annað en eyðing málsins, þar sem þál. er ekkert annað en till. til stj., vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort stj. sé það nokkuð til ama, að það sé beint til hennar jafnmeinlausri till. og þessi þáltill. er, í jafnstórkostlegu máli. Þessi till. gengur sem sagt aðeins út á það, að stj. athugi fyrir næsta þing möguleikana á því að bæta úr þeim tilfinnanlega skorti, sem er hér á húsrúmi fyrir geðveika menn og fávita. Ég get ekki hugsað mér einfaldari till. í jafnstórkostlegu máli. Og ég skil ekki, hvernig hv. 1. þm. N.-M. lætur sér detta í hug. að það þurfi að eyða tíma í að ræða þetta mál.

Hv. þm. S.-Þ. minntist á einn möguleika, sem gæti komið til greina, án þess að ég ætli að fjá mig með eða móti þeirri lausn málsins. En það er sýnt, að það getur aldrei orðið málinu nema heldur til hins betra, að það sé tekið til athugunar. Og það er ekki svo að skilja, að það felist nein krafa í þessari þáltill. um það, að stj. hafi undirbúið till. fyrir næsta þing heldur aðeins, að hún vilji fara að athuga þetta stórkostlega mál.

Ég skal svo ekki tala frekar um það, hvílíkt afskaplegt vandamál það er fyrir þjóðina, að hafa ekki nægilegt húsrúm fyrir þessa sjúklinga. En ég vildi beina til hæstv. ráðh. þessari litlu spurningu, hvort það megi ekki óska þess, að stj. athugi þetta einfalda mál.