21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2322)

134. mál, sjúkrahúsrúm fyrir geðveika menn

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Mér finnst þetta vera líkt og að togast á um keisarans skegg. Ég botna ekkert í því, að hv. 1. þm. N.-M. skuli ekki skilja jafneinfalt mál og þetta. Hann spurði, hvað þörfin væri mikil fyrir aukið húsnæði. Hv. þm. getur lesið það í grg. þáltill., hversu þörfin er mikil, og þó megum við gera ráð fyrir því að hún sé miklu meiri en þar kemur fram. Ætlast ég til, að það verði athugað nánar, eins og þáltill. ber með sér. Við sjáum, að húsin, sem eru byggð yfir tiltekinn hóp sjúklinga, eru nú þanin yfir miklu fleiri menn en upphaflega var ætlazt til.

Ennfremur segir í grg. þáltill., að daglega berist fyrirspurnir um sjúkrahúsvist á Kleppi fyrir geðveika menn hvaðanæfa af landinu, sem verði að neita, af því að húsrúmið vantar. Ég hugsa, að það þurfi ekki að leita lengi að þessu, og hv. þm. getur ekki afsakað sig með því, þótt hann langi til að koma þessari till. fyrir kattarnef með því að vísa henni til stj. Það er eitt af ráðunum, þegar á að eyða einhverju máli og koma því fyrir á kurteislegan hátt, að vísa því til stj. Á ég þar ekki sérstaklega við hæstv. ríkisstj., heldur er þetta siður í venjulegum félagsskap manna.

Ég vil þakka þeim, sem hafa tekið vel í þessa till. Annars er hér um að ræða óhjákvæmilega nauðsyn, sem hvert þjóðfélag er skyldugt til að bæta úr, hvernig sem að því er farið. Og hér er ekki farið harðar í sakirnar en það, að það er skorað á stj. að athuga möguleikana fyrir því að bæta úr þessum vandræðum. Ég vona, hvernig sem með þessa till. fer, og byggi ég þá von mína á orðum hæstv. ráðh. áðan, þó að þau væru fá, að stj. muni ekki skorast undan því að athuga málið. Ég er fús til að segja hv. 1. þm. N.-M. greinilega frá því, hve slæmt ástandið er á þessu sviði, en ég vildi frekar kjósa einhvern annan vettvang til þess en þessa hv. d., þar sem ég veit, að hún hefir nógum störfum að gegna. Og ég myndi geta sannfært hv. þm. um það, að þörfin er knýjandi og að óhjákvæmilegt er, að úr þessu verði bætt. Hefi ég haft góðar ástæður til að kynna mér þetta við starf mitt að framfærslumálum hér í Reykjavík.

Ég ætla svo ekki að misnota aths.leyfi hæstv. forseta og læt útrætt um málið.