21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2323)

134. mál, sjúkrahúsrúm fyrir geðveika menn

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil taka undir það með hv. þm. S.-Þ., að það er vel þess vert, að það sé athugað, hvort ríkið ætti ekki að kaupa jörð þá, sem hann minntist á. Húsakostur er góður á jörðinni, og ætti því stj. ekki að láta hana fara úr höndum sér án þess að athuga, hvort þetta sé ekki einmitt góður staður fyrir slíkt hæli og hér um ræðir. Jörðin verður ódýr, sennilega ekki dýrari en sem svarar húsunum sjálfum. og líklega ekki það. Þar að auki hagar svo til, að þarna er mjög hægt um vik að rafvirkja með vatnsafli.

Ég skal ekkert dæma um það, hvort á öðrum stað geti hagað betur til en þarna, en mér finnst full ástæða til að athuga málið, án þess að ég ætli að fara að mæla sérstaklega með því, að þessi jörð verði keypt.

En ég get ekki skilið, að það sé nokkur munur á því í raun og veru, hvort nú á að fara að vísa þessari þáltill. til stj. eða samþykkja till. sjálfa fyrst formlega. Vitanlega er miklu eðlilegra að afgreiða þál. Stj. á aðeins að athuga fyrir næst þing möguleikana á því að bæta úr þessum skorti, og hún ætti að gera það, þó að málinn væri vísað til hennar þingsályktunarleiðina. Og mér er ómögulegt að skilja, hvað hv. þm. meinar með því, að ganga framhjá því að samþ. þessa þál., og ég vona, að þessi fávitatill. hv. 1. þm. N.-M. smiti ekki deildina.