21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2327)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Flm. (Jón Baldvinsson):

Við höfum flutt hér þáltill. á þskj. 438, hv. 3. landsk. og ég, og fer hún fram á það, að skora á ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta Alþ. löggjöf um eignarnámsheimild á landsvæðum, sem séu hentug til ræktunar fyrir kaupstaðina sunnanlands eða við Faxaflóa. Það er stutt grg. með þessari till., en ég skoða þetta mjög stórt mál.

Það var á þinginu 1927 eða 1928, sem ég flutti frv. um, að ríkið legði í nýbýli í Ölfusi og í Ásahreppi, á óræktuðum landsvæðum, sem væru við þjóðveginn. Ég áleit, að þar væru hentug svæði, sem hægt væri að reisa nýbýli á, með það hvorttveggja fyrir augum, að fá fólk aftur til að flyt ja til sveitanna frá kaupstöðum og kauptúnum, og eins hitt, að fólk úr sveitinni ætti þar kost á jarðnæði og gæti reist heimili í sveitinni, ef það hefði áhuga fyrir að búa þar áfram. En mjög hefir á það skort, að unga fólkið í sveitinni hafi haft aðgang að hentugu jarðnæði, og fyrir þær sakir hefir mesti fjöldi farið úr sveitinni til kaupstaða og kauptúna.

Þessu máli var ekki sinnt, og man ég eftir því sérstaklega, að Framsfl. lagðist á móti þessu frv., að það gengi fram. Frv. fór fram á föluverð útgjöld úr ríkissjóði, en það var á þeim tíma, þegar ríkissjóður hafði nokkur peningaráð og landið hafði töluvert lánstraust, og ætla ég að fé hefði verið betur varið þá til þess að rækta stórar landspildur, sem enn liggja ónotaðar, heldur en í margt, sem síðan hefir verið lagt í. Ég skal taka það fram, að tilgangur nýbýlalaganna virðist vera nær eingöngu sá, að reisa nýbýli og byggja upp jarðir fyrir fólk í sveitinni, en munu ekki að neinn verulegu leyti vera ætluð kaupstaðarbúum og ef til vill alls ekki.

Þá er eftir að athuga hina hlið málsins, hvernig eigi að leiða fólk aftur til sveitanna. Ég sé ekki, að það verði á annan hátt en þann, að kaupstaðirnir eigníst stórar landspildur, vel ræktanlegar og á hentugum stöðum, og þó ekki svo nærri bæjunum, að þær hverfi inn undir þá. Ég hefi í huga og við flm. með þessari þáltill. svæði, sem liggur óræktað í Ölfusi fyrir vestan Kögunarhól, sem er mjög stórt og liggur bæði fyrir neðan og ofan þjóðveginn. Það er a. m. k. mín hugsun, að kæmist eitthvað slíkt í framkvæmd, þá yrðu þarna nýbýli og menn gætu þar sameiginlega notið ýmsra þeirra þæginda, sem menn annars verða að fara á mis við í sveitinni, t. d. að þangað kæmi rafmagn, og það gæti vel hugsazt, þar sem þetta land liggur svo nálægt hitasvæði, að með borunum, sem nú eru farnar að tíðkast, mætti finna heitt vatn ekki langt frá. Þetta er að vísu óráðin gáta, en þetta gæti verið mikils virði. Það er enn eitt, að fólk;, sem byggi þarna, gæti haft ýmislegt sameiginlegt, eins og t. d. jarðvinnsluáhöld, sem eru of dýr fyrir einstaklinga.

Ég hefi ekki sent þetta mál til athugunar til bæjarstjórna Rvíkur og Hafnarfjarðar, og það er af því, að mér fannst það í sjálfu sér ekki á því stigi, að þess væri full þörf Ríkisstj. myndi að sjálfsögðu, ef hún undirbyggi þetta mál, lyfa þeim að leggja orð í belg, og ef til vill láta í ljós vilja sinn. Eg álit, að jafnvel þó kaupstaðirnir segðust ekki óska þess, þá væri samt rétt að tryggja þeim land á þessum svæðum.

Við flm. höfum enn í huga. að lönd í Hnappadalssýslu eru mjög hentug fyrir nýbýli, og það eru ef til vill þar á sumum stöðum enn meiri ræktunarmöguleikar heldur en á þeim stöðum. sem ég hefi nefnt í Ölfusi og í Holtum. Ég tala nú ekki um, ef það yrði samkomulag um till., sem nú er uppi um friðun Faxaflóa. Þá mundi þarna verða mjög lifvænlegt fyrir þá, sem gætu stundað sjó á smábátum til aðdrátta fyrir heimilin. Ég held þó, að þessi lönd liggi svo langt frá kaupstöðunum, að það væri ekki rétt að leggja í ræktun þar strax heldur væri auðveldara að eiga við ræktun í Ölfusi. Kaupstaðirnir gætu látið eitthvað af því atvinnubótafé, sem líklegt er, að veitt verði á meðan slíkt atvinnuleysi er eins og það, sem nú er, ganga til þeirrar ræktunar.

Ég skal játa, að ég hefi aldrei haft neina trú á því að rakta upp Flóann og reisa þar nýbýli, og ég held, að ræktunin í „Síberíu“, sem svo er kölluð, sé gersamlega misheppnuð af ástæðum, sem ég hirði ekki um að rekja hér. En aðallega liggur það þó í því, að í vætusumrum standa þar vart upp úr nema hraunkollarnir og ef til vill bæirnir. svo að þar eru t. d. engin svæði fyrir matjurtagarða, því þeir geta þá legið undir vatni. Það er ekki fyrr en kemur niður undir Eyrarbakka og Stokkseyri sem koma góð svæði og hentug til jarðeplaræktar.

Ég held, að þessu máli þurfi að hrað:t, og ég skoða það, eins og við flm. segjum í grg. frv., sem einn lið í þeirri starfsemi, sem nú þarf að hefja til þess að tryggja afkomu fólks, þegar það er sýnt, að það er ekki hægt við þau atvinnutæki, sem eru í kaupstöðunum og við sjóinn, svo það verður að hverfa aftur til jarðarinnar, eins og þar stendur.

Mér þætti trúlegt, að óreyndu máli, að kaupstaðirnir tækju þessu máli með opnum örmum og óskuðu eftir því að fá stuðning löggjafarinnar til þess að eignast þessi landsvæði. Ég vil taka það fram, að ég tel, að slík landsvæði, sem liggja þarna óræktuð og til lítilla nota, ætti ekki að þurfa að kaupa háu verði. Aftur á móti er það auðséð, að ef slík svæði væru keypt, þá þarf alllangan tíma til þess að koma þeim í ræktun, og það þarf að gera það svo vel í upphafi, að þau komi þeim að fullu haldi, sem síðar eiga að taka sér þar bólfestu.

Ég vil mæla með því, að þessi till. verði samþ., og vil beina því til hæstv. landbrb., sem þetta mál á sennilega að heyra undir. eða ef til vill bæði landbrh. og atvmrh., og þá til ríkisstj. í heild, að hún vindi að því bráðan bug að undirbúa slíku löggjöf, og mér þætti það líklegt, að hún þurfi ekki að vera svo flókin eða erfið, að ekki væri hægt að leggja frv. um þetta fyrir næsta þing, þó skammt sé þangað til það verður háð.

Ég vil sem sé mæla með því, að d. fyrst og fremst afgreiði till. og samþ. hana, og síðan að ríkisstj. taki hana til greina á þann hátt, sem í till. segir, og undirbúi svo vel sem kostur er á frv. til l. um þetta fyrir næsta þing.