21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (2328)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Magnús Jónsson:

Ég var að doka við til þess að vita, hvað hæstv. ráðh. segði um þessa till. Það er aldrei nema falleg hugsun í sjálfu sér, að taka stórar landspildur, sem eru vel til ræktunar fallnar, og reyna að koma þeim í ræktun og fá fólk til að búa þar. Það getur vel verið, og það er ekki ósennilegt, að þessi hugsun eigi framtíð fyrir sér, þannig að valin væru úr hentugustu landsvæðin víðsvegar um landið og þar komið upp sveitabúskap með nokkuð nýjum hætti og reyna að stunda landbúnað og búa í sveit við svipuð kjör og fólk býr nú við í kaupstöðum, en hafi jafnframt hollustuna af því að vera í sveit. Þetta ætti sem sé að verða til þess að varna því, að sveitirnar eyðist smátt og smátt að fólki. Þetta er ákaflega falleg hugsun, og hún á sjálfsagt framtíð fyrir sér.

En ég verð að segja, að ég varð dálítið undrandi, þegar ég las þessa þáltill., því fyrirsögn hennar er um eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum banda kaupstöðum við Faxaflóa, og sjálf till. er líka um það. En þegar maður les grg., þá finnst mér, að hún sé um allt annað efni. Eftir fyrirsögninni og till. sjálfri gæti maður haldið, að meiningin væri sú, að rækta veruleg lönd alveg við kaupstaðina eða í kringum þá, til þess að menn, sem búa í kaupstöðum, gætu haft grasnyt með sinni atvinnu, sem þeir myndu stunda áfram í kaupstöðunum, líkt eins og reynt hefir verið að gera, og þá sérstaklega í Reykjavik, þar sem ræktaðir hafa verið rúmlega 600 hektarar kringum bæinn, til þess að menn gætu haft grasnyt við hliðina á ýmiskonar atvinnu, sem þeir stunda í bænum. En það, sem hér um ræðir, er nokkurskonar tilraun til þess að byggja upp sveitirnar aftur og fá menn til þess að hverfa úr kaupstöðunum upp í sveitirnar. Ég sé því ekki, hvað þetta kemur í sjálfu sér við kaupstöðunum við Faxaflóa. Menn gætu á svona landflæmi flutzt hvaðan sem þeir vildu og úr hvaða kaupstað, sem þeir vildu. Þó ræktuð væru landsvæði í Hnappadalssýslu eða í Holtum, þá kemur það ekki kaupstöðunum við Faxaflóa neitt sérstaklega við, nema þá algerlega óbeinlínis.

Ég held, að hv. flm. verði að játa, að það eru aðrar og miklu dýpri rætur, sem þessi mikla breyt. í okkar þjóðfélagi á sér, að menn flytja úr sveitinni í kaupstaði og kauptún. Það er ekki fyrst og fremst skortur á því að hafa einhverja bletti til þess að setja sig niður á. Það hefir verið unnið töluvert að því, ekki sízt með nýbýlalöggjöfinni, að gera mönnum mögulegt að reisa ný býli í sveitunum og þó þessi þáltill. væri samþ. og 1. kæmu um þetta efni, þá myndu þau ekki valda straumhvörfum. Það er aðeins enn ein aðferð til nýbýlamyndunar, að mynda þannig hverfi á þessum sérstöku stöðum.

Það, sem m. a. hefir valdið því, að menn flytja úr sveitunum í kaupstaðina, er það, hvað reynt er með allskonar samtökum manna á milli og með löggjöf að draga úr þeirri hættu, sem áður hélt mönnum frá því að yfirgefa sveitirnar og flytja á mölina. Það er það, sem ef til vill veldur meiru en nokkuð annað. Áður hlífðust menn í lengstu lög við að yfirgefa býli sin í sveitinni og afkomu þá, sem menn höfðu þar, nema þeir gætu tryggt sér atvinnu við sjóinn. Nú er búið að nema þetta að meira eða minna leyti í burtu. Menn flytja sig óhikað í kaupstaði og kauptún og bíða þar þangað til þeir fá einhverja atvinnu eða krefjast þess að fá eitthvað að gera, og ef ekkert er til handa þeim að gera, þá verður að búa eitthvað til handa þeim. og þá verður bæjarsjóður og ríkissjóður að láta hundruð þúsunda til þess að skaffa þessum mönnum eitthvað að gera. Þetta er það, sem hefir valdið meira en nokkuð annað þeirri stórkostlegu breyt., sem orðið hefir í okkar þjóðfélagi í þessum efnum. Löggjöfin hefir gengið allt of mikið í þá átt að hlaða undir þá, sem þiggja vinnu sína hjá öðrum, en að gera hinum erfitt fyrir, sem vil,ja afla sér framfæris sjálfir. — En þetta er náttúrlega miklu stærra mál en svo, að við getum gert útrætt um það þennan síðasta dag þingsins. svo að ég skal vera stuttorður.

Ég set mig ekki algerlega móti þessari þáltill. Þetta er einn anginn af þeirri margvislegu löggjöf, sem verður að koma og er góð, ef skynsamlega er að farið. Mér finnst einkennilegt ósamræmið milli fyrirsagnar og tillögu, og greinargerðin eins og enn annars efnis. Mig langar til að fá það skýrt, hvers vegna andlit till. snýr í aðra átt en líkaminn.