22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2337)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Jónas Jónsson:

Ég vildi segja fáein orð út af till. á þskj. 438 og leggja henni nokkurn stuðning, ef þess þyrfti með.

Það er að minni hyggju merkilegt nýmæli, sem hér kemur frá tveimur fulltrúum verkamannaflokksins hér í Reykjavík, þess efnis að undirbúa nýrækt í sveit fyrir þeirra fólk. Ég segi þetta ekki af því, að þetta sé ekki bundið miklum erfiðleikum, — öll ræktun er það, með þeim kröfum, sem menn gera nú á tímum.

Sú vegarlagning, sem við hv. fyrri flm. till. (JBald) beittum okkur fyrir um Krýsuvík til Suðurlandsláglendisins, er undirstaða þess, að nú verði hægt að gera þetta laganýmæli, eins og það vakir fyrir hv. flm. Ég hygg, að þegar þessi vegur er fullgerður, svo að hægt er að fara hvern dag vetrarins milli Hafnarfjarðar og Ölfuss, þá muni fjöldi manns úr bæjunum — ekki sízt togarasjómenn — búa þar austur frá og bæta hag sinn og lifnaðarhætti með landbúnaði í hjáverkum, heldur en að búa hér á mölinni.

Ef við athugum framtíð togaraútvegsins hér í Reykjavík og Hafnarfirði, þá kemur maður að þessu atriði, hvernig hægt er að minnka framleiðslukostnaðinn. Ef það lítur út fyrir, að ómögulegt verði að gera út togara nema með stórkostlegum tekjuhalla, verður að reyna að finna hentugri leiðir en nú til að bjarga afkomu manna. Sjómaðurinn er ekki vel settur, þótt hann fái borgaðar allt að því 100 kr. á viku til að framfleyta fjölskyldu með hér í Reykjavík. Það er sizt of mikið til að uppfylla brýnar þarfir, eins og nú hagar til.

Það sýnist ætla að verða brennandi spursmál í næstu framtíð, hvernig hægt sé bæði að bæta kjörin og auka atvinnuna við sjávarútveg hér í Reykjavík og Hafnarfirði. Þá verður reynt að reikna með hverjum möguleika, sem er fyrir því, að konan og börnin geti unnið fyrir nokkrum hluta þess, sem heimilið þarfnast.

Annað, sem ég hygg mjög sennilegt, að bæjarstjórnir verði að taka til athugunar, er sá mikli fjöldi fólks, sem er á bænum vegna atvinnuskorts og fær ekki neitt að gera við framleiðslu hér í framtíðinni. Ég veit, að greindum mönnum hefir dottið í hug, að bæjarfélögin þyrftu einhverntíma að gera nýlendu fyrir fólk, sem þyngir byrðar borgaranna í bænum og elur sín börn upp undir okkar erfiðu kringumstæðum — fyrir sig og landið. Ég vildi aðeins benda á, hve geysimikil þörf er á að þreifa sig áfram eftir þessum leiðum. Ég veit, að þótt þessi till. verði samþ., er kannske ekki neitt mikið fengið, en það er þó spor í áttina.

Ég man, að hv. 9. landsk. hefir oft minnzt á ræktunarlandið í Ölfusinu. Og mér hefir líka fundizt það einhver mesta vanrækslusynd ríkisins, að það skuli ekki vera fyrir löngu búið að kaupa þetta og skera fram og taka til ræktunar. En þetta bíður nú framkvæmdanna. — Ég vissi, að austur í Holtum liggja stærstu ræktunarlönd, sem til eru nokkursstaðar á Íslandi, og þar sem þúsundir manna geta lifað af jarðrækt. Ég sé alls ekki ástæðu til að hræðast, að það fólk yrði of margt.

Þessi landsvæði bíða eftir mönnum, — sumpart mönnum, sem setjast þar alveg að, og að nokkru leyti fólki, sem hefir annan fótinn í stóru kaupstöðunum við Faxaflóa. — Þegar Ölfus og Krýsuvík eru tengd við Hafnarfjörð með vegi, sem er farinn alla daga ársins, svo að sjómenn geta brugðið sér austur án áhættu hvern landlegudag, og þegar jarðhitinn í Ölfusinu hefir verið nytjaður á allan mögulegan hátt til ræktunar, iðnaðar og heimilisþarfa í hinu þéttbýla landnámi, þá er mikill draumur vissulega farinn að rætast.

Þess vegna vil ég þakka hv. flm. fyrir till., vona, að henni farnist hér vel, og ennþá betur, þegar hún kemur út í lífið.