22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2338)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég er sammála hv. flm. um, að það er nauðsynlegt að taka þessi landsvæði til ræktunar. Og að því leyti á ég samleið með hv. þm. S.-Þ. En ég tel algerlega rangt að taka ákveðin landsvæði handa ákveðnum kaupstöðum og að þetta verði tekið undan þeirri stjórn, sem á að ráða fyrir þessu landnámi og bíður aðeins eftir fjárveitingum frá Alþingi til þess að kaupa löndin og hefja starfið. Vitanlega eiga allar slíkar framkvæmdir að koma undir nýbýlastjórnina, og hún á ekki að vera bundin við það að láta menn úr ákveðnum kaupstöðum fá nýbýlin, heldur taka tillit til allrar aðstöðu í hverju tilfelli. Ég vil t. d. benda á, að þeim mundi þykja það hart, sem stunda útveg frá Þorlákshöfn, ef tekin væru öll afgangslönd í Ölfusi handa mönnum hér í Reykjavík, en þeim þar austur frá ekkert skilið eftir.

Það, að samþ. þál. um, að ríkisstj. sé skylt að koma með undirbúna löggjöf á næsta þingi um eignarnám í þessum tilgangi, sem hv. flm. ætlast til, það missir eiginlega marks. Það er að vísu sjálfsagt að hefja þarna framkvæmdir undir eins og fé er fyrir hendi, en um það þarf ekki nýja löggjöf.

Ég efast um. þó að þessi till. verði samþ., að hv. þdm. mundu fúsir til að samþ. slíka eignarnámsheimild. Og a. m. k. mundu þeir ekki halda lengra áfram á þeirri braut. Svo mikið er víst.