22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (2340)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Flm. (Jón Baldvinsson):

Ég vil leiðrétta það, sem hv. þm. Vestm. hafði eftir mér um þau fyrirtæki, sem ríkið ætti að reka. Ég orðaði það alls ekki þannig. Ég sagði aðeins, að það væru þesskonar fyrirtæki. sem erfið eru í einstaklingsrekstri og þurfa mikið fé. Þess vegna tel ég, að smáiðnaður, sjávarútvegur á vélbátum, landbúnaður og annar slíkur atvinnurekstur eigi að vera í höndum einstaklinga. Frekar ætla ég ekki að svara hv. þm., því að við vorum sammála um aðalatriðið, og þá skulum við ekki fara að karpa um hitt. (JJ: Heyr!).

Hv. þm. S.-Þ. hefir bent á þá möguleika, sem Krýsuvíkurvegurinn opnar í þessu máli, og réttilega tekið fram, að með því móti væru möguleikar fyrir sjómenn úr Reykjavík og Hafnarfirði til að eiga bú og heimili þarna austur frá. Þó að sjómenn eigi heimili sitt þar nú, er aldrei þorandi að vetrarlagi að treysta færð og veðrum á Hellisheiði, þar sem það getur breytzt á örfáum klukkutímum, svo að öll farartæki liggja föst í snjó. Með Krýsuvíkurveginum koma einnig fleiri lönd til greina en nú.

Ég verð að játa, að mér fannst undarlegur tónninn í ræðu hæstv. landbrh. Það var eins og honum fyndist bæirnir ómögulega mega e:gnast ræktunarlönd og ný starfssvið fyrir fólkið, sem þeir eru í vandræðum með. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvað hann gæti sagt við því, ef t. d. Reykjavíkurbær keypti landið í Ölfusinu. (PZ: Það eru ýmsir, sem eiga forkaupsrétt á undan Reykjavik, t. d. viðkomandi hreppur). Ég veit vel um forkaupsréttinn, sem þar gengur á undan, en ég set þetta upp sem vel hugsanlegt dæmi. Því skyldi ekki bærinn geta keypt þarna land eins og einstakir menn, og komizt framhjá forkaupsrétti, eða að honum verði hafnað? Ég get ekki skilið, að hæstv. forsrh. og fl. hans mundi beita sér fyrir því, að slíkt land yrði tekið af bænum, eða hann hindraður í að nota það. Mér þykir það ótrúlegt og of smátt, ef ótti væri um það, að bændur fyrir austan fjall teldu þessu stefnt gegn sér um samkeppni á markaði. Sennilega yrðu þetta lítil lönd, og meiri hluti framleiðslunnar gengi til heimilanna sjálfra. En þó að menn gerðu betur á þessum löndum, þá finnst mér þeir ættu að fá fulla þátttöku eins og aðrir bændur; þeir eru fullkomlega sambærilegir. Ég get ekki skilið, að slík ástæða spillti jafnmiklu máli og það er, og hún má það ekki að minnsta kosti. Það má ekki spilla því, að hægt sé að koma ýmsu því fólki upp í sveit, sem langar þar að vera, og ala upp börn sín í hollu umhverfi, spilla því með ótta um það, að þetta fólk kunni að selja pund af osti eða smjöri, nokkur egg eða kartöflur.

Út af þessum ummælum hæstv. forsrh. og undirtektum undir málið í heild sé ég ekki, að sé til neins að vísa einfaldlega til hans. Þess vegna tel ég mikla nauðsyn að samþ. till. sem áskorun Ed., til þess að hann gæti ekki gengið algerlega framhjá henni. Hv. 1. þm. Reykv. hefir nú fengið upplýsingar um það, hvað fyrir flm. vakir, og hans afstaða til málsins er nú önnur en hún var í dag. Þykir mér vænt um að eiga stuðning hans til þessa máls. En hann lét þó í ljós nokkra vantrú um þetta, og benti þar á „Síberíu“, að það þyrfti ekki nema litið, jafnvel ekki nema eitt orð, til þess að enginn vildi búa þar. Það getur nú vel verið, að það fáist nógir til að taka þessi „Síberíu“-lönd, þó að þau heiti nú svona köldu nafni. En ég álít staðinn satt að segja heldur óheppilega valinn. Það er mjög ólíkt um að litast niðri í Flóa, móts við graslendið, sem bíður eftir ræktun í Ölfusinn.

Það er eins og hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Reykv. hafi aldrei heyrt fyrr þessa yfirlýsingu frá okkur jafnaðarmönnum um það, að við teldum það allra æskilegast, að atvinnuvegirnir gætu framfleytt þjóðinni, — að það þyrfti ekki að leggja fé frá bæjum til þess að styrkja menn, eða að fá ríkið til þess að halda uppi atvinnubótavinnu. Þetta er það, sem allir vitanlega óska. En meðan atvinnuleysið er eins gífurlegt eins og það er nú, og atvinnuvegirnir ganga svo, að fólkið getur ekki haft sitt lífsuppeldi af þeim, þá er þetta óhjákvæmileg nauðsyn. Og ég segi, að það sé ill nauðsyn, og ég stend við það, en óhjákvæmileg eins og stendur. Ég man ekki betur en að helzti postuli sjálfstæðismanna hafi sagt, að hann teldi nauðsynlegt að hafa atvinnubætur meðan þannig stendur.

Ég verð að segja, að það er dálítið öðru máli að gegna með ræktun landsins í kaupstöðunum kringum Faxaflóa eða á svæðum austanfjalls (eða jafnvel vestan), hvað fyrst og fremst landið ætti að vera ódýrara í sveit, og ræktun miklu ódýrari heldur en þegar er verið að þekja holtin, rifa upp grjót í mörg ár og síðan brjóta landið og rækta. Það er virðingarvert, hve mikið er ræktað í kringum kaupstaðina; en það er ákaflega dýr ræktun. Og ég tel, að koma ætti þessari ræktun í það horf í framtíðinni að menn reyndu sem allra mest að rækta grænmeti og jarðarávexti á slíku landi, sem auðseljanlegir eru í bæjunum, sem að liggja, heldur en að fara í kapphlaup um framleiðslu á vörum, sem eru framleiddar á ákaflega ódýru landi og oft hentugra til ræktunar. Þó hafa þeir, sem rækta hér á bæjarlandinu, sæmilega aðstöðu, en það er ekki tími til að fara neitt út í það hér.

Mér þykir sem þetta mál hafi nokkuð upplýstst við þessar umr., og ýmsir góðir menn í deildinni hafa snúizt til fylgis við það, svo að ég vænti, að það nái að ganga fram, og þá taki hæstv. landbúnaðarráðh. það til þeirrar meðferðar, sem vakir fyrir d. með samþykkt þess. Vona ég, að við sjáum þá fruman í löggjöf um þetta efni, sem ég teldi eðlilegt, að hann bæri þá undir hlutaðeigandi kaupstaði. Og mér finnst hreint ekkert móðgandi fyrir hann eða landbúnaðinn. þó að þetta væri utan við þá nýbýlalöggjöf, sem hefir verið sett. Helzta hlutverk þeirrar löggjafar er að búa skilyrði til að taka við því fólki, sem annars flytti úr kaupstöðunum. En þetta er hugsað til að flytja það fólk, sem er búið að vera lengi í kaupstöðum, aftur til sveitanna. Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að það er erfitt að hræra fólkið, þegar það er komið á mölina, eins og hann orðaði það. En ég þekki þó fjölda manna, sem gjarnan vildu nota slíkt tækifæri, ef þeir ættu völ á hentugu og ekki allt of dýru jarðnæði. Það er náttúrlega ekki nokkur leið að taka við jarðnæði og byggingum, sem nema tugum þúsunda, og standa undir því með þeim litla búskap, sem hægt er að hafa á þessum löndum. Það verður að finna einhverjar hentugri aðferðir. Og þær eru til. Í Ölfusinu er bægt að setja kerfið í samband við orkuveituna frá Soginu með ljós, og ef til vill til að ylja híbýlin líka. Og ekki þurfa byggingarnar að vera þessi háu, steinsteyptu hús, sem illu heilli hafa verið víða reist í sveit og ekki komið mönnum að því gagni, sem til var ætlazt, en eru að sliga margan manninn með skuldum, þrátt fyrir það, þótt styrkur sé mikill og lágir vextir af lánum. Þessar byggingar hafa víða mistekizt, en ekki svo mikið við því að segja, af því að þetta eru tilraunir, en tilraunir, sem menn þurfa að draga lærdóm af og færa til betri vegar það, sem miður hefir tekizt.