22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2342)

142. mál, eignarnámsheimild á óræktuðum landsvæðum

*Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mér finnst þessi till. byggjast á nokkrum misskilningi og vera algerlega óþörf. Ef það liggur fyrir, að t. d. nokkrir menn í þorpi suður með sjó vilja það, sem í till. stendur, fá land og stofna nýbýli, þá er opin leið eftir l. um nýbýli að mynda félag og heimta land eignarnámi og reisa nýbýli. Þeir geta nú þegar myndað samvinnubyggðafélag og heimtað land þar, sem þeir helzt óska. Þess vegna finnst mér þessi till. að nokkru leyti byggð á misskilningi.

Tvennt er annað, sem fram kom í þessum umr., sem ég vildi leiðrétta. Annað er það, að hv. 9. landsk. bar það saman, þegar hæstv. forsrh. talaði um, að menn mundu verða óánægðir, ef land yrði tekið eignarnámi, og hitt, ef Reykjavíkurbær keypti einhversstaðar land. En áður en Reykjavíkurbær getur keypt land, þarf ábúandi þess að afsala sér forkaupsréttinum, og svo kemur allur hreppurinn. En í trássi við alla hreppsbúa er hægt að taka landið eignarnámi. Þetta er svo gerólíkt, að ekki er hægt að bera það saman.

Þá var hv. 1. þm. Reykv. að tala um það, að þó að samþ. séu einhver l. um skipulag á ræktuðu landi, sem búið er að leggja í kostnað fyrir, þá kæmu önnur l. og bökuðu mönnum tjón. Og vitnaði hann í það, að landið kringum Reykjavík væri mönnum lítils virði vegna mjólkurl. Ég ætla nú ekki að fara út í mjólkurl., en benda honum á það. að til þess að samvinnubyggðir geti myndazt, hverjir sem að þeim standa, þarf fyrst og fremst skipulag. Og ég geri aldrei ráð fyrir, að samvinnubyggðir verði myndaðar þar, sem hætta er á, að bæjarfélagið taki aftur landið af mönnum, sem þeir eru búnir að kosta miklu til að rækta og byggja á. En í þeirri hættu eru allir, sem eru kringum Reykjavík. Og þannig hefir farið með ræktaða landið kringum Reykjavík. Það myndi eitthvað líða þangað til sú hætta vofði yfir samvinnubyggðunum fyrir austan. Þessi hætta er alltaf til staðar kringum bæina, því lengur sem árin liða og bæirnir stækka. Og ef við lítum upp úr gröf okkar eftir nokkur hundruð ár, þá verður allt þetta ræktaða land hér í kring komið undir byggingar. En ég er ekki neitt hræddur um, að neitt slíkt eigi fyrir nýbýlunum að liggja.

Að lokum endurtek ég það, að ég tel till. þessa óþarfa fyrir þær ástæður, sem ég hefi greint, að fullnæg löggjöf er þegar fyrir hendi til að stofna nýbýli í landinu.