18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2347)

69. mál, hafrannsóknir

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti! Sjútvn. Nd. hefir flutt þessa þáltill. eftir tilmælum hæstv. ríkisstj.

Sá maður, sem að tilhlutun hæstv. ríkisstj. hefir tekið þátt í hafrannsóknum á undanförnum árum, telur nauðsyn á, að Ísland gerist þátttakandi í alþjóða-hafrannsóknunum. slík þátttaka er talin nauðsynleg, bæði vegna þeirra almennu rannsókna, sem mun þurfa að halda áfram kringum landið, bæði um fiskgöngur og annað, sem viðkemur fiskveiðum. Og eins er þessi þátttaka talin nauðsynleg vegna till. um almenna friðun Faxaflóa.

Kostnaðurinn við það, að Ísland sé meðlimur í alþjóðahafrannsóknaráði, er áætlaður um 12000 kr. á ári. En á móti þeim kostnaði mundi landið fá þau hlunnindi, sem því fylgja að vera meðlimur þessa félagsskapar, sem sé, að íslenzkir vísindamenn, sem að hafrannsóknum ynnu, ættu frjálsan aðgang að tímaritum rannsóknanna. Í öðru lagi fengi Ísland með því móti aðstöðu til að hafa sömu áhrif á stefnu alþjóða-hafrannsókna eins og t. d. England, Frakkland og Þýzkaland, hvort um sig. Það gæti haft mikla þýðingu fyrir okkur Íslendinga að hafa formlega samvinnu við nágrannaþjóðirnar um aðkallandi rannsóknir á þessu sviði, ekki sízt þegar þess er gætt, að viðfangsefnin eru hér mörg, sem bíða úrlausnar, og smæð okkar og ástæður gera það æskilegt að njóta aðstoðar og samvinnu stærri þjóða. Eitt af þeim málum hjá okkur, sem þannig bíður úrlausnar og nauðsyn er að koma á framfæri, er friðun Faxaflóa.

Eflaust mundi Ísland verða þátttakandi í þeim sérfræðingafundum, sem haldnir verða að tilhlutun þessa félagsskapar. En kostnaðurinn við þá þátttöku Íslands í þeim fundum yrði greiddur af fé alþjóðahafrannsóknanna.

Þátttaka Íslands í þessum alþjóðafélagsskap mundi ekki hafa mikinn kostnað í för með sér, en verður hinsvegar að teljast nauðsynleg fyrir svo mikla fiskveiðaþjóð sem okkur.