30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2376)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

Sigurður Kristjánsson:

Það var algerlega að ástæðulausu hjá hv. 1. þm. Rang. að fara að hefja hér árás á hv. flm. og viðhafa gífuryrði í garð einstakra flokka. Ég held þess vegna, að hv. þm. verði sjálfum sér um að kenna, ef honum finnst hann að einhverju leyti fá illa rifinn bjór.

Út af mærðarflóði hv. þm. um tökubarnið, sem hann vildi láta mig vera ásamt hv. 4. þm. Reykv., vil ég segja það, að et nokkurt raunalegt tökubarn er innan þessara veggja, þá er það hv. 1. þm. Rang., sem verið hefir í dvöl hjá öllum landsmálaflokkum landsins. Það tökubarn hefir sennilega verið tekið í ávinningsskyni í upphafi af hverjum flokki, en ekki síður látið af hendi aftur í ávinningsskyni.

Hv. þm. minntist á útsvarsseðla sjálfstæðismanna. Það er vitað, að allir flokkar hér á landi nota fé við kosningar, en það er jafnvíst, að sá flokkur, sem hlotið hefir það nafn að vera kallaður „auðvaldsflokkur“, hefir notað miklu minna fé en aðrir flokkar, miðað við það, að hann hefir langflesta frambjóðendur og kjósendur. Og vitað er það, að fjáröflun þessa flokks er eingöngu frjáls samskot áhugasamra flokksmanna. Það þýðir því ekki fyrir hv. þm. að koma með neinar sögusagnir hvað þetta snertir. Það er vitað um flokk hans, að hann hefir verið nokkuð harðdrægur um ýmsa hluti, og þá ekki siður í fjáröflun en öðru. Einn þátturinn í fjáröflun flokksins var sá, að menn, sem tóku stöðu hjá ríkinu, urðu að gjalda ákveðinn skatt í flokkssjóð til þess að fá stöðuna og halda henni. Og þó að það sé á engan máta vel til fallið, að einstakir menn þrýsti mönnum til að greiða fé í ákveðna flokkssjóði, þá er hitt hálfu verra, að menn í opinberum stöðum séu til knúðir að vinna að gengi stefnu, sem þeir eru andstæðir og telja, að stefni sér og landi þeirra til ógæfu.

Um fjáröflun flokksins að öðru leyti er óþarfi að orðlengja, og ég mundi aldrei hafa brotið upp á þessu, þó að Sjálfstfl. standi hér betur að vigi en aðrir flokkar landsins, hefði ekki frumhlaupi hv. 1. þm. Rang. verið um að kenna. E. t. v. hefir hv. þm. gert þetta umboðslaust. En flokkur hans verður þó sennil. að bera ábyrgð á honum.

Landsreikningurinn 1935 er nýkominn í mínar hendur. Vildi ég benda hv. þm. á það, að á bls. 115 stendur t. d., að áfengisverzlunin hafi greitt Nýja dagblaðinu 1800 kr. fyrir auglýsingar á árinu 1935, en 120 kr. til Morgunblaðsins. Nú vil ég bera það undir hv. þm., hvort honum dettur í hug, að auglýsingarnar hafi verið settar í flokksblað hans af því, að forstjórinn hafi trúað því, að þær kæmust með því móti til fleiri manna heldur en ef þær hefðu birzt í Mbl. Ég hugsa, að það blandist engum manni hugur um, að þetta var gert til að styrkja blaðið. Og þar sem þarna var tekið fé ríkisins til að styrkja flokksblað. þá stappar það nærri því að vera óráðvendni. Og ég get bætt því við, að það er heppilegast fyrir þennan hv. þm. að vera ekki að þessu sprikli, því það getur orðið til þess, að hann og hans flokkur fái talsvert eftirminnilega ráðningu.

Þegar þessi hv. þm. var að tala um það, hvað Sjálfstfl. hafi gert fyrir mig, þá sannar það ekki annað en það að flokknum þykir ég einhvers virði og vill láta mig njóta þess. En þegar farið er að ala önn fyrir mönnum með annara fé, lætur nærri, að til þess sé stofnað, að maður þrifist ekki vel.

Ég held að mjólkurembætti hv. þm. sé ekki þannig til komið, að hann hafi þótt líklegri til að hafa betur vit á þeim hlutum en aðrir. Ég hefi að sönnu heyrt, að þessi maður hafi verið sendur á kostnað bænda á sérfræðingafund erlendis, til þess, að því er mér skildist, að leggja fram einhvern vísindalegan skerf í mjólkurmálum á þeim fundi. En það hefir áreiðanlega ekki verið að vilja bænda, að hann fór för þessa. Er víst nokkuð almennt efazt um það, að það sé bændum til hagsbóta að hafa þennan mann í þjónustu sinni. Það var einu sinni borin fram sú krafa, að bændurnir réðu sjálfir mann í þetta starf. en stj. vildi ekki hætta á það, og ekki þessi þm. sjálfur, að bændurnir veldu hann til þess. En út af þessu vil ég slá því föstu, að það var mjög óheppilegt fyrir þennan hv. þm. að innleiða þetta tökubarnsmál hér. Og hitt var enn óþægilegra flokki hans, er hann fór að minna á fjáröflun flokkanna.

Út af atvinnukúguninni, sérstaklega að því er togarana snertir, þá mun ég ekki taka það aftur, að þessi hv. þm. hefir á því litla þekkingu, og miklu minni en þeir menn, sem hann deilir á. sjálfstæðismenn, sem yfirleitt hafa verið mikið viðriðnir togaraútgerð.

Eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, hefi ég haft ástæðu og aðstöðu til að kynna mér nokkuð þessa hluti. Það er alveg rétt, sem einhver sagði hér, að rítgerðin hafi stundum ráðið nokkra af mönnunum á togarana. En þetta átti sér þó aðallega stað áður, þegar atvinnuleysið var lítið eða ekkert. Þá var það mjög oft, aðskipstjórarnir, þegar þá vantaði menn, báðu útgerðina að ráða menn, er þá vantaði. En í seinni tíð, þegar lítil eftirsókn hefir verið eftir vinnukrafti, hafa skipstjórarnir yfirleitt einir ráðið skipshafnirnar. Og eðlilega dettur þeim ekki í hug að fara í því efni eftir pólitískum skoðunum, heldur dugnaði mannanna og kunnáttu, þar sem þeir eiga svo mikið undir því, hversu tekst með aflabrögð. Þetta getur því ekki farið eftir öðru en því, hvað menn eru gildir sjómenn. Hitt er annað mál, að sakir kunningsskapar kemur það stundum fyrir, að skipstjórar ráði menn á skip sin. Og út á það er ekki mikið að setja.

Nú mun það vera svo í seinni tíð, að það er sótt ákaflega fast á útgerðirnar að sjá mönnum fyrir plássi á skipum þeirra. Það er fjöldi manna, sem gengur atvinnulaus í landinu, og ég hugsa, að allar togaraútgerðir hafi sömu söguna að segja um það, að það er fullt af mönnum, sem biðja þá um atvinnu. En ég veit ekki til, að nokkur útgerð í landinu áskilji sér við skipstjóra sína að ráða meira en 4 skipverjum á hvern togara sinn, en það er vitað, að á saltfisksveiðum eru á hverjum togara frá 28 og upp í 36 menn, að yfirmönnunum meðtöldum.

Þó að það kunni að hafa komið fyrir, að einum og einum manni hafi fyrir sakir vináttu, venzla eða pólitíkur verið veittur atbeini, þá fer því fjarri, að það sé nokkur aðalregla, og slíkar undantekningar réttlæta á engan hátt gífuryrði hv. 1. þm. Rang.: að það fengi ekki einn einasti maður skiprúm á togurum sjálfstæðismanna nema hann léti sína pólitísku skoðun fyrir. Ég vil benda hv. þm. á, að það er bezt fyrir hann í þessu sem öðru að fara gætilega. Það hefir komið fyrir, að til togaraútgerðarfélaga hafa komið menn, sem vegna skoðana sinna á landsmálum hafa verið hraktir úr stöðum sinum af hans flokksmönnum. Og þá vil ég segja, að það væri ærið hart, ef ekki væri hægt að leggja slíkum mönnum lið.

Ég skal svo ekki tefja þessa umr. lengur. Og ég myndi sennilega ekki hafa tekið til máls um þessa till. ef ég hefði ekki þurft að svara óverðskulduðum árásum.