03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2382)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

Vilmundur Jónsson:

Ég hefi þá afstöðu til þessarar till., að ég geri ráð fyrir, að ég geti greitt atkv. með síðari hluta hennar, þar sem ætlazt er til, að skyldmenni í þjónustu ríkisins séu ekki starfsmenn sömu stofnunar. Ég tel mikla þörf á þessu, því að hér er mikið syndgað í ýmsum stofnunum, bæði hjá ríkinu og Reykjavíkurbæ, og ef til vill víðar. Mér er þetta fullkomið alvörumál og hefi sýnt það með því, að í fyrirtæki í bænum, sem ég á nokkurn þátt í að stjórna og veitir þó nokkuð mörgum mönnum atvinnu, hefir þessi regla að minni tilstuðlan verið upp tekin, ekki í því skyni að takmarka atvinnumöguleika fólks úr sömu fjölskyldu, heldur er litið svo á, að það geti valdið hættulegri siðspillingu í slíkum fyrirtækjum, ef mörg skyldmenni eru þar saman og eitt undir annað gefið.

En að ég kvaddi hér hljóðs, var ekki til þess að taka þetta fram, heldur vildi ég lýsa ánægju minni yfir þeim áhuga, sem ég hefi orðið var við, að á því er hér í hv. d. að athugað verði um ýmislegt, sem til siðspillingar horfir í sambandi við ráðningu manna í stöður hjá því opinhera. Ég hefi nokkuð um þetta hugsað, og það vill svo vel til, að ég á í fórum mínum nærri því fullsamið ýtarlegt frv. í 10 löngum gr. um þetta efni. Er það miklu víðtækara en þáltill. sú, er hér liggur fyrir, og þar á meðal tekið fullt tillit til þess, sem felst í síðari hluta hennar. Frv. er um, hvernig haga skuli ráðningu opinberra starfsmanna, með sérstöku tilliti til unga fólksins, sem er valið í opinberar stöður, og nær miklu lengra en till. Ég ætlast þannig til, að þar komi til greina aliar skrifstofur ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga, svo og hverjar aðrar skrifstofur, sem eru reknar á vegum bæjar- og sveitarfélaga, einnig hverskonar stofnanir bæjar- og sveitarfélaga, póstur, sími útvarp, skólar, sjúkrahús, tryggingarstofnanir, þar með talin sjúkrasamlög, rannsóknar- og eftirlitsstofnanir, fyrirtæki, sem stofnuð eru af ríkinu, bankar og útibú þeirra, sparisjóðir, og þau fyrirtæki, sem starfa fyrir opinbert starfsfé, þar á meðal Búnaðarfélagið og Fiskifélagið. Tilgangurinn með þessu frv. er ekki sá, að takmarka möguleika manna til atvinnu, heldur sá, að reyna að koma því til vegar, að sérstaklega unga fólkinu, sem leitar eftir atvinnu hjá meira og minna opinberum fyrirtækjum, sé sýnd sú sanngirni, að tryggt verði svo sem orðið getur, að þeir, sem hæfastir eru, komi fyrst til greina, og að reynt verði þar með að synda fyrir það, að unga fólkið siðspillist í sambandi við þessar mannaráðningar, bæði það, sem atvinnuna fær óverðugt, og líka hitt, sem hennar fer á mis og fyllist sárri gremju, sem hlýtur að vakna hjá fólki, sem finnur sig vel hæft, en verður að lúta í lægra haldi í samkeppni við sér lakara fólk, aðeins fyrir það, að það hafði þau persónulegu eða pólitísku sambönd, sem svo miklu ráða nú um mannaráðningar, og raunar öllu.

Mér þykir mjög ánægjulegt að vita, að svo mikill áhugi er í hinni hv. d. á þessu máli, og sérstaklega, að það skuli vera hjá svo stórum flokki sem Sjálfstfl. er. Og ég vil geta þess nú fyrirfram, að þegar ég e. t. v. þegar á næsta þingi sýni þetta frv. mitt, þá mun ég ganga eftir liðveizlu hjá þessum stóra flokki, sem svo mikið á undir sér.

Ég er sem sé sammála síðari hluta till. og mun sýna það við atkvgr. Hitt er vandræðamál og neyðarúrræði, að ætla sér að skammta atvinnuna á þann hátt, að miðað sé við, að tveir menn úr sömu fjölskyldu geti ekki fengið vinnu hjá ríkinu, ef þeir eru vel hæfir og atvinnan fyrir hendi.