03.12.1937
Neðri deild: 41. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (2383)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

Sigurður Kristjánsson:

Ég er samþykkur því, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, að það eru vandræði að hefta menn í að fá atvinnu, en ég held, að hann hafi ekki athugað, að ástandið er þannig, að það verður að miðla vinnunni, og ég veit ekki betur en að ríkið hafi sett l. um vinnumiðlun, og það er vitanlega af því, að ástandið þykir vera þannig, að nauðsyn sé, að atvinnan skiptist sem réttlátast niður, en ef atvinnuleysið er ekkert, þá er ekki heldur þörf á að takmarka þetta.

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, að það getur verið þörf á að hafa reglur um þetta, t. d. í bæjarfélögunum, og sé ég ekkert á móti því, að þetta sé útfært betur en hér er gert, meðan þörf er fyrir þetta. Ég vil bæta því við, að ég hefði hiklaust komið með viðauka við þessa till., um að ekki mætti láta sama mann hafa tvær fastar stöður hjá ríkinu, et ég hefði séð mér fært að róta við þessu máli. Ég sé líka vandkvæði á að banna sama manninum að gegna fleiri en einni stöðu. En þegar atvinnuleysi er mikið, þá er nauðsynlegt, að ríkið hlaði ekki störfum á suma menn, meðan aðrir vel hæfir menn ganga atvinnulausir.

Um það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði, skal ég ekki hafa mörg orð, en vil þó taka það fram út af þeirri hlutdrægni, sem hann sagði, að ríkti hjá Reykjavíkurbæ í úthlutun atvinnu, að ég er því máli ekki vel kunnugur, og býst þó við, að hann sé því ennþá ókunnugri, en sjálfstæðismenn, sem umgangast mig meira en menn úr öðrum flokkum, kvarta undan því, að sjálfstæðismenn eigi mjög örðugt uppdráttar með að fá atvinnu hjá Reykjavíkurbæ, yfirleitt séu verkstjórarnir, sem bærinn hefir, andstæðingar sjálfstæðismanna og reyni af eðlilegum eða óeðlilegum ástæðum að ýta sjálfstæðismönnum frá atvinnu. Hér koma fram gagnstæðir vitnisburðir. Hv. 1. þm. Rang. hefir sína frá ókunnugum mönnum, en ég frá kunnugum mönnum, og má vera, að báðir séu ófullnægjandi.

Ég get ekki séð, að ástæða sé til að vísa þessu máli frá af því, að það gangi of skammt. Þó að till. verði samþ., þá er engu spillt, þó að síðar kunni að verða gerðar fyllri ráðstafanir í þessu sambandi, eins og þær, sem hv. þm. N.-Ísf. var að tala um.

Annars skilst mér, að dagskrártill. komi ekkert málinu við. Hún er um allt annað en þáltill. Hv. 5. þm. Reykv. taldi það hart, ef hjón og nákomin skyldmenni gætu ekki fengið vinnu vegna venzla eða skyldleika, og tók dæmi af fólki, sem byggi víð fiskreit og þyrfti allt vinnunnar við. Þarna er allt öðru máli að gegna en um fastar, vel launaðar stöður hjá ríkinu. Ég fæ því ekki séð, að hægt sé að hafa á móti till. á þeim grundvelli.