04.12.1937
Neðri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (2386)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

Bjarni Bjarnason:

Þrátt fyrir það, þó að mér finnist þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., vera svo takmörkuð og ná svo skammt, að ekki sé hennar vegna ástæða til að lengja umr. um þetta mál, sem hún fjaliar um, þá er þó nokkur ástæða til umr. um málið með tilliti til þeirrar dagskrártill., sem fram er komin. Og einmitt með tilliti til þess, að þessu máli væri vísað til stj. til nánari athugunar, fannst mér vel þess vert að segja hér nokkur orð um það.

Eins og hv. þdm. vita, er þáltill. bundin við atvinnu skyldmenna og venzlamanna hjá ríkinu og stofnunum þess. Og að vísu má nú skýra þessa þáltill. þannig, að hún nái nokkuð langt. Samkv. þeirri hugsun, sem venjulega er lögð í orðið „ríkisstofnun“ nú, hygg ég, að þáltill. miðist við nokkuð takmarkaða hugsun. Og ekki virtist mér frumræða hv. fim. þáltill. víkka mikið það svið, sem felast ætti í orðinu „ríkisstofnun“. Ræða hans var bundin við mjög takmarkað svið í þessu efni og að mér fannst allmikið blandin gremju yfir því, að hjá vissum ríkisstofnunum væri misnotað atvinnufyrirkomulagið eða atvinnumöguleikar fólksins, þótt hann að vísu gæti um það, að þetta næði einnig til ýmissa annara fyrirtækja landsins. Mig langar nú til að fá það hreint út hjá hv. flm., hvað þetta er víðtækt hugsað frá hans sjónarmiði og hvað langt hann vill ganga í því, að um þetta mál verði hugsað og siðan eitthvað framkvæmt í því í þjóðfélaginu.

Hér í þáltill. er notað þetta orðalag: „hjá ríkinu og stofnunum þess“. Já, það getur nú orðið dálítið langt mál að sundurliða eða skýra nánar, hvað er ríkisstofnun. Ég geri ráð fyrir, að fljóti á litið mundu flestir telja, að allt það, sem ríkið ræður yfir í þessu landi í sambandi við atvinnu, sé ríkisstofnun, eða mér finnst það. En þá er málið óneitanlega komið inn á svo mjög víðtækan grundvöll, að það yrði erfitt að takmarka það, nema eftir nákvæma athugun utan þingfunda, og tel ég þess vegna heppilegast að undirbúa það betur fyrir næsta Alþ. Þess vegna er ekkert í raun og veru hér að gera í þessu máli nú annað en að samþ. rökst. dagskrártill.

Ég vil nú frá sjónarmiði hv. flm. spyrja hann, hvort þáltill. eigi að ná til embættismannastéttar landsins. Eru ekki t. d. kirkjan, skólarnir og læknishéruðin skipulagðar ríkisstofnanir og embættismennirnir, sem gegna við þetta störfum, starfsmenn ríkisins? Ef svo er, þá er mjög ógætilega til orða tekið í þáltill. og einnig í grg. hennar, því að samkv. henni mætti í rann og veru ekki, ef t. d. prestur ætti syni eða dætur –sérstaklega kemur það til greina um synina — sem ekki aðeins, þó að þau væru lærð til prests, mættu ekki fá prestsembætti, heldur mættu þau hvergi vinna undir handleiðslu ríkisins neitt þeirra. Þetta nær auðvitað engri átt. Því að hér í þáltill. stendur (með leyfi hæstv. forseta) : „l) að sjá svo um, að í fastar stöður og önnur störf hjá ríkinu eða stofnunum þeim, sem það ræður yfir, sé jafnan skipað þannig, að ekki séu fleiri en einn fyrirvinnandi sama heimilis í þjónustu ríkisins á sama tíma . . .“ Það má lengi deila um, hvað er fyrirvinna sama heimilis. Er það faðirinn aðeins, eða fjölskyldan yfirleitt? Ef faðirinn hefir lítil laun, sem ekki nægja fyrir fjölskylduna alla til að lifa af, en eitthvert barnanna bætir það upp, þá hefir verið litið svo á, að þeir báðir eða þau bæði væru fyrirvinna sama heimilis. En samkv. þáltill. mættu þessir aðiljar ekki báðir afla fjölskyldunni lífsviðurværis á vegum ríkisins, eins og þáltill. er orðuð.

Þá skal athugað, hvað er rekstur ríkisins, eins og nú hagar til. Get ég þá bent á verzlanir, póst og síma og þjóðvegavinnu, til þess að minnast á eitthvað. Þetta mun verða einna mest áberandi. Og er nokkurt vit í því að flytja mál á Alþ., sem byggt er á því, að ef fyrirvinna, t. d. heimilisfaðir, vinnur á vegum einhverra þessara stofnana, þá megi enginn af hans skylduliði eða venzlamönnum koma til greina yfirleitt um að fá vinnu við nokkra þá stofnun, sem ríkið rekur? Ef t. d. bóndi hefir atvinnu af vegavinnu í þjóðvegum — og framlög ríkisins til þeirra er einn hæsti útgjaldaliður á fjárl. til atvinnumála — þá mættu, eftir þáltill. engir hans venzlamenn vinna í skrifstofum ríkisins. Það má kannske segja, að þjóðvegirnir séu ekki ríkisstofnun. En erfitt verður þá að draga línurnar á milli þess, sem ríkið rekur, og hins, sem kallað er ríkisstofnun.

Tökum t. d. í þessu sambandi einhvern forstjóra ríkisverzlunar hér í Rvík. Eftir þessari þáltill. mætti enginn af hans venzlamönnum vera vinnandi í neinni annari ríkisverzlun. Það væri ekki litil hætta í því fólgin fyrir heimilisföður að taka að sér slíkt starf, ef þar með væri ákveðið, að hans venzlamenn yrðu dæmdir frá því að mega vinna í neinni ríkisstofnun. Þetta ákvæði þáltill. nær því ekki nokkurri átt.

En ef samþ. ætti ákvæði þáltill., hvers vegna skyldu þau þá ekki vera látin ná til einkafyrirtækja? Ef svona ákvæði væru til um ríkisrekstur, þá skal ég sýna fram á, að ekkert vit væri í því tilfelli að hafa þau ekki um einkarekstur einnig, eða eitthvað hliðstætt þessu. Þó að líta megi svo á, að forstjórar einkafyrirtækja hafi meiri persónulegan rétt til þess að ráða sínum ráðum um fyrirkomulag rekstrarins heldur en forstjórar, sem vinna undir ríkisstj., þá vil ég benda á, að þó að einn forstjóri einkafyrirtækis sé talinn eiga sitt fyrirtæki, eru fáir svo stæðir, að þeir þurfi ekki á lánsfé að halda til þess að halda því uppi. En hvaða fé er þetta lánsfé? Það er sparifé fjöldans í landinu. Og sparifé þjóðarinnar er að langmestu leyti smáupphæðir, sem margir einstaklingar eiga hverja um sig, en ekki nema að mjög litlu leyti stórar fjárupphæðir í eigu einstakra manna. Og milliliðir þessara sparifjáreigenda og hinna ýmsu fyrirtækja, sem lánin fá, eru oft bankarnir, og hér þjóðbankinn, sem ríkið stendur í ábyrgð fyrir. Og hvers vegna ættu þeir fáu að geta fengið þetta fé lánað og notað það til framleiðslu eins og þeim sýnist, ef þáltill. þessa ætti að samþ.? Nú höfum við mörg dæmi um, að fyrirtæki, sem eru rekin af einstökum mönnum, eru stofnuð og rekin beinlinis vegna venzlafólks eiganda fyrirtækisins, sem oft hefir fengið sparifé almennings að láni. Út á þetta hefir ekkert verið sett frá skipulagslegu sjónarmiði. En það hlýtur að vakna spurningin, hvort rétt sé að skapa einstökum manni möguleika til þess að ráða yfir svo eða svo miklu af sparifé landsmanna, að hann geti undirbyggt stórt fyrirtæki, sem hans nánustu og venzlamenn hans eiga forgangsrétt að sér til lífsframfæris. Ég ætla að halda mér við háttv hv. flm. og nefna engin nöfn til staðfestingar þessum orðum mínum, af því að ég tel, að það sé ekki sérstaklega vel viðeiganeti að nefna einstaka menn eða fyrirtæki í þessu sambandi, með því að til þess þyrfti maður að hafa fyrir framan sig nafnalista og ættartölur til þess að rökstyðja mál sitt. En ég veit, að allir kannast við, að það, sem ég segi í þessu sambandi, er rétt.

Það, sem í raun og veru þyrfti að liggja bak við þær ráðstafanir, sem gerðar væru til þess að fyrirbyggja misrétti í því efni, sem þáltill. er miðað að, hafa bæði ég og fleiri oft hugsað um. Það er sannarlega ekki gamanatriði, heldur sársauka- og alvöruatriði. Nefnilega hvernig hægt er að undirbúa málið þannig, að unnt sé að haga þannig til í atvinnulífi þjóðarinnar, að fyrir gangi fyrirvinna hvers heimilis um þá atvinnu, sem til er í landinu, þannig að ekki sé veitt hliðstæð vinna, sem gefur heimilum lífsframfæri, tveimur mönnum á sama heimili fyrr en tryggt er, að svo miklu leyti sem frekast er unnt, að ekkert heimili sé atvinnulaust vegna þess að atvinna fáist ekki handa því af þeim ástæðum, að tveimur starfsmönnum eða fleirum af fyrirvinnu annars heimilis hefir verið leyft að hrifsa hana til sín. Þetta þyrfti sérstaklega undirbúnings við.

En í sambandi við þetta er enn eitt atriði að athuga, þ. e., hvort á að svipta með aðgerðum þess opinbera konurnar vinnu utan sinna heimila. venjulega er það maðurinn, sem til þess verður kjörinn að vinna inn peninga fyrir heimilisþörfum. Og þá þyrfti að tryggja það, að konurnar, hvort sem þær eru giftar eða ógiftar, væru yfirleitt látnar sitja á hakanum, þangað til tryggt væri, að sem fæstir heimilisfeður væru atvinnulausir. Þetta er stórkostlegt rannsóknarefni. En það er líka sársauka- og alvörumál, og ekki rétt að gera opinberar ráðstafanir í þessum efnum, nema um atvinnuleysi sé að ræða. því það er hart að neita vel menntuðum og vel starfhæfum konum að afla fjár til sinna heimilisþarfa. Þó tel ég miklu harðara að bægja báðum hjónunum frá atvinnu í öðru tilfellinu, en veita báðum atvinnu í hinn tilfellinu, ef gengið er út frá því, að í báðum tilfellunum sé um jafnvinnuhæft starfsfólk að ræða. Þetta er það, sem hart er fyrir þá atvinnulausu og er hin mikla alvara þessa máls. Þetta viðhorf ætti að taka til greina við rannsókn svona máls.

Þá er enn eitt atriði, sem mér finnst sérstaklega, að verklýðsfélög ættu að athuga. Það er, ef vinna er til sem svarar fyrir einn mann frá hverju heimili. sem til atvinnunnar gæti náð og þyrfti hennar með, þá ættu verklýðsfélögin að hafa þá skipun á málinu, að heimilisfaðir ætti að ganga fyrir. En oft er það svo, að konurnar vinna úti, en bændur þeirra sitja heima, t. d. þegar um er að ræða fiskþvott. Karlmenn mundu þar ekki óduglegri en konur, ef þeir hefðu tamið sér þá vinnu. En þetta skiptir ekki miklu máli viðkomandi því máli, sem hér er um að ræða. Fyrsta áherzluatriðið er, að a. m. k. einn maður af hverju heimili hafi atvinnu. Um það aðalatriði eiga að taka höndum saman ríkisstofnanir og einkafyrirtæki, með samvinnu við allt það skipulag, sem til er í landinu, sem stofnað er til til hagsbóta verkalýðnum, en það eru verkalýðssamtökin í landinu.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Vil ég ekki teygja umr. En hér hefi ég drepið á nægilega mörg atriði, sem skýra málið algerlega og gefa því alveg sérstakan blæ, að svo miklu leyti sem ég heyrði umr. þær, sem fram hafa farið um það.