04.12.1937
Neðri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (2387)

115. mál, ríkisatvinna skyldmenna

*Flm. (Jóhann G. Möller) :

Aðeins fá orð út af ræðu hv. 2. þm. Árn.

Það, sem átt er við með ríkisstofnunum í þáltill., nær til allra stofnana, sem ríkið ræður yfir eða hefir aðstöðu til að ráða yfir vinnuúthlutun hjá. Þess vegna, þar sem stendur í þáltill. „að sjá svo um“, er átt við beint og óbeint vald ríkisins til þess að ráða vinnuúthlutun.

Ég vildi benda á það, sem hv. 2. þm. Árn. hefði vitað, ef hann hefði heyrt þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál, að ég er samþykkur því, að meginhugsun þáltill. þyrfti að ná sem víðast í þjóðfélaginn í framkvæmdinni, sérstaklega þegar atvinnuleysi og eftirspurn eftir vinnu er jafnalmennt og nú er og vandræði um að fá vinnu.

Hv. 2. þm. Árn. gat þess, að þetta mál væri alvöru- og sársaukamál, af því að farið væri fram á, að hjón mættu ekki bæði vera í vinnu fyrir hið opinbera á sama tíma sem fyrirvinna eins heimilis, meðan hvorugt hjóna annars heimilis hefði vinnu. að svona þurfi að ákveða, erum við hv. 2. þm. Árn. nákvæmlega samþykkir. Þetta er nákvæmlega það, sem ég fer fram á í þáltill., að girt verði fyrir það, að meðan eftirspurn eftir atvinnu er svo mikil sem raun ber vitni, þá sé hjónum og börnum, sem eru svo ung, að föður eða móður ber skylda til að sjá fyrir þeim, ekki öllum veitt vinna af hálfu hins opinbera, meðan önnur fjölskylda gengur atvinnulaus. Hér er aðeins farið fram á vinnumiðlun. Ég hélt, að hv. þm., og þar á meðal hv. 2. þm. Árn., væru vinnumiðlun hlynntir. A. m. k. hefir mér skilizt það af umr., sem um það mál hafa farið fram hér á hæstv. Alþ. undanfarin ár. Við erum því sammála í höfuðatriðum þessa máls, ég og hv. 2. þm. Árn.

Hv. 2. þm. Árn. heldur því fram, að þáltill. snerti ekki sem skyldi kjarna málsins. En það er alls ekki rétt athugað hjá honum, eins og ég hefi þegar bent á.

Ég er því samþykkur, að rannsókn eigi að fara fram á þessum hlutum í þjóðfélaginu. En ég hygg, að sú rannsókn mundi leiða til þess, að jafnsjálfsagðar reglur og þarna er farið fram á yrðu settar að þeirri rannsókn lokinni. Enda er það í samræmi við reynslu annara þjóða í þessu efni.

Út af ræðu hv. 5. þm. Reykv. vil ég segja, að það er ekki rétt, að þessi þáltill. bægi giftum konum frá vinnu. En hitt er farið fram á, að giftar konur, sem eru fyrirvinna heimila sinna ásamt mönnum sínum, séu ekki látnar ganga fyrir um vinnu, nema alveg sérstaklega standi á, þegar heimilisfeður annara fjölskyldna og konur þeirra ganga atvinnulaus. Alls ekkert er það í þáltill. sem gert er til þess að bægja konum frá vinnu. Það getur eingöngu litið svo út í fljótu bragði, meðan atvinnuleysi er svo mikið sem það nú er, en er alls ekki tilgangur eða andi þáltill. að bægja konum sérstaklega frá vinnu fyrir hið opinbera. Hvergi er með orðalagi till. að því stefnt.