19.10.1937
Neðri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2396)

6. mál, Þjóðabandalagið

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti! Ástæðan til þess, að ég ber þessa þáltill. fram, er sérstaklega sú, að ég álit. að tími sé til kominn bæði fyrir þing og þjóð að athuga okkar afstöðu, Íslendinga, í utanríkismálum. Það er orðin það mikil breyting á umheiminum í pólitískum efnum síðan 1918, að við fengum fullveldið, að full nauðsyn er, að við athugum, hvort allt, sem víð byggðum á þá, standist virkilega ennþá. Ástandið í heiminum er svo gerbreytt frá þeim tíma, og ég veit ekki til þess, að nokkurn tíma hafi verið tekið til rækilegrar meðhöndlunar, hvorki af þingi eða þjóð, hvaða öryggi Ísland hafi fyrir sínu sjálfstæði eins og tímarnir eru orðnir.

Við lýstum yfir því, þegar við fengum fullveldið 1918, að Ísland ætlaði að vera algerlega hlutlaust og eiliflega hlutlaust í ófriði. Og við byggðum í raun og veru á þeim hugmyndum, sem þá voru uppi, að það gæti verið öruggt fyrir eitt land að lýsa slíku yfir, þannig að slík yfirlýsing yrði virt. Við byggðum á þeim hugmyndum, sem Wilson og aðrir héldu fram á þeim tíma, að það væri hægt að skapa virkilegan alþjóðarétt til þess að koma á varanlegum friði framvegis. Og tryggingin átti að liggja í einhverjum ákveðnum siðferðislegum reglum um tillit til sjálfstæðis og réttar þjóðanna í alþjóðamálum. Við byggðum á hugmyndum, sem spruttu upp af þreytu manna eftir heimsstyrjöldina, og af því, hversu mönnum ógnaði allar þær hörmungar, sem hún hafði leitt yfir mannkynið.

Nú er viðhorfið að heita má algerlega umbreytt. Við stöndum á þeim tímamótum, þar sem ný heimsstyrjöld er að hefjast, þar sem stríð eru að verða algeng í öllum álfum heims, og þar sem þessi nýja heimsstyrjöld virðist muni verða miklu ægilegri en heimsstyrjöldin var 1914–18. Við stöndum nú með okkar hlutleysi og vopnleysi og treystum að einhverju leyti á það, að í þessari afstöðu, að eitt smáríki er hlutlaust og vopnlaust, sé eitthvað, sem geti bjargað okkur, — sem geti forðað okkur frá því, að aðrar þjóðir hremmi okkur eins og nú er komið málum. Hugmyndir okkar um hlutleysi byggðust nú á slíkri yfirlýsingu. Og við nánari athugun verðum við að viðurkenna, að það var í raun og veru fyrst og fremst lögfræðilegt hugtak, réttarfarslegt hugtak, sem við settum fram. Við lýstum yfir, að við myndum ekki segja öðrum þjóðum stríð á hendur né taka þátt í styrjöldum. Þegar við gefum þessa yfirlýsingu, þá er gengið út frá, að það sé til eitthvað, sem heitir alþjóðaréttur, réttur, sem sé einhvers virði.

En hvernig er þetta nú? Við sjáum allt í kringum okkur, að verið er að berjast í hlutlausum löndum. Ríki, sem ennþá eru í „friði“ við önnur ríki, senda sína heri inn í þessi ríki og berjast þar. Það hefir verið barizt á tveimur undanförnum árum í þremur ríkjum í veröldinni, án þess að viðkomandi árásarríki hafi sagt ríkinu, sem ráðizt var á, nokkurt stríð á hendur. Þannig er allt það form, allur sá réttur, öll lög, sem að einhverju leyti hafa gert mun á stríði og friði, þau eru nú að heita má horfin. Aðstaðan, sem menn búa við nú, er þá sú, að engin þjóð virðist vera örugg fyrir því. að án þess að henni sé sagt stríð á hendur og án þess að nein tilkynning komi áður, þá geti hún átt von á flugvélaflota frá einhverju erlendu ríki, er ráðist á landið, eyðileggi borgir, skjóti niður saklausa þegna. Þetta er ástand, sem ekki var gengið út frá 1918, þegar hlutleysisyfirlýsing Íslands var gefin. Þetta núverandi ástand í veröldinni er gersamlega annað en það, sem allt okkar sjálfstæði og allt okkar hlutleysi og öll afstaða okkar Íslendinga gagnvart öðrum löndum hefir byggzt á. Það er ekki einu sinni svo lengur, að það þurfi — eins og áður samkvæmt alþjóðarétti — einhverja heri til þess að berjast sin á milli. Slíkt er algerlega brott numið í þessum styrjöldum, sem geisa nú, heldur er sérstaklega óskað eftir því af hálfu árásarríkjanna að ráðast á vopnlausa íbúa, — á borgir, sem ekki geta varið sig, og á þegna þjóðfélagsins, sem ekki að neinu leyti hafa hernaðarlega þýðingu fyrir árásarríkið, eins og við höfum sérstaklega áþreifanlega orðið varir við á Spáni og í hinu kínverska veldi. Þess vegna er það alveg gefið, að það er ekki lengur alger trygging að vera vopnlaus. Við gengum út frá því 1918, Íslendingar, að það væri eitthvað það til, sem héti hjá stórveldunum að sýna eitthvert drenglyndi í hernaði. Og um leið og við gengum út frá einhverjum alþjóðlegum félagslegum rétti, þá gengum við út frá alþjóðlegu siðferði. Við álitum, að það væri orðið og yrði langt fyrir neðan virðingu stórþjóðanna sem menningarþjóða að ráðast sérstaklega á vopnlausa íbúa til þess að brjóta siðferðisþrek einnar þjóðar á bak aftur, eins og Japanir nú hafa lýst yfir, að þeir geri í Kína.

Þessar forsendur eru ekki lengur til. Það er þess vegna ekki efi á, að fyrir okkur Íslendinga er kominn tími til þess að atbuga okkar afstöðu í umheiminum og að endurskoða þær ákvarðanir, sem við höfum áður tekið í þessu sambandi, og sjá, að hverju leyti við getum tryggt sjálfstæði okkar lands með öðru móti en þessu trausti á einhvern alþjóðarétt eða eitthvert almennt drenglyndi hjá stórþjóðunum, sem við sjáum eftir framferði ákveðinna ríkja að dæma, að ekki eru til hjá þeim að minnsta kosti. Það er enginn vafi á því, að yfir hverri einustu smáþjóð vofir — og enda stórum þjóðum líka — að þeirra friður og þeirra sjálfstæði verði skert Það er ekki lengra en tvær vikur síðan einn af helztu þjóðhöfðingjum, Roosevelt Bandaríkjaforseti, tók fram, að ekki eitt einasta ríki gæti verið óhult eins og nú er komið málum. Getum við Íslendingar gert okkur þá í hugarlund, að við höfum sérstaka afstöðu, þannig að við gætum sloppið við það, sem hver þjóð nú verður fyrir á fætur annari, fyrst Abessinia í Afríku og síðan Spánn í Evrópu og nú Kínaveldi í Asíu? Geta menn virkilega hugsað, að við verðum svo afskekktir. að menn nenni ekki að seilast til okkar? Og það á þeim tíma, sem verið er að leggja loftleið, þar sem Ísland kemur til með að hafa sérstaklega mikla þýðingu? Getum við búizt við, að auðæfi okkar lands séu svo lítil, að engin stórveldi ágirnist og ásælist þau? Við, sem verðum svo að segja daglega varir við, hvernig verið er að sækjast eftir þeim afurðum, sem framleiddar eru hér og sérstaka þýðingu hafa í hernaði, eins og öll okkar feitiframleiðsla hefir, síldarolía og annað slíkt. Við, sem sjáum, að svo að segja árlega eru gerðir út leiðangrar, sérstaklega frá Þýskalandi, til þess að mæla landið og rannsaka, hvaða gildi margvislegir hlutir hafa; til þess að mæla upp firðina kringum okkur. Og herskip hafa öðruhverju komið í heimsókn til þess að athuga á allan hátt, hvaða þýðingu Ísland geti haft í hernaði.

Það er þess vegna engum efa bundið, að við Íslendingar getum ekki gert okkur von um, að okkar land hafi einhverja sérstöðu. Við vissum, hvaða þýðingu Ísland hafði í síðasta stríði, — hvernig Þýzkaland og England kepptust um áhrif hér. Og við vitum, að í næsta stríði, þegar fjarlægðirnar verða miklu minni raunverulega heldur en þær voru þá, þá kemur Ísland til með að hafa mun meiri þýðingu. Við sjáum, hvernig þrjú ríki í veröldinni hafa sérstaklega skorið sig út úr um að taka upp alveg nýjar aðferðir í alþjóðapólitík um að eyðileggja allan þann grundvöll, sem sérstaklega smáþjóðirnar hafa treyst á fram að þessu. Við höfum séð, hvernig Ítalía fór að með því að ráðast á Abessiníu, án þess að segja nokkurt stríð á hendur, og notaði sér, að þetta ríki var svo að segja vopnlaust í sinni frelsisbaráttu móti þessu stórveldi. Við höfum horft á þær aðfarir, og ég veit, að öll íslenzka þjóðin að heita má hafði í því stríði innilega samúð með þeirri varnarlitlu smáþjóð, sem reyndi að verjast hinu fasistíska stórveldi. Við höfum séð, hvernig það, að Ítalíu tókst að sigra í þessu stríði, hefir orðið til þess að eggja ágirndina hjá öðrum ríkjum, sem henni standa nærri í pólitík, og til að auka ásælni Ítalíu sjálfrar. Við höfum séð afleiðinguna af því, hvernig ítalska fasismanum hélzt uppi 1935 viðvíkjandi Abessiníu en það er, að Ítalía og Þýzkaland hafa ráðizt á Spán með aðstoð landráðamanna þar í landi, svo að í meira en heilt ár hefir verið háð þar harðvitug innanlandsstyrjöld, sem ekki er ennþá séð fyrir endann á. Við vitum, að ekkert af þeim ríkjum, sem hafa tekið þátt í styrjöldinni á Spáni, hefir sagt Spáni stríð á hendur. En sjálfur Mussolini viðurkenndi þó í gær, að 40 þúsund Ítalir berjist nú á spanskri grund.

Við sjáum ennfremur, að það, sem Þýzkalandi og Ítalíu hefir haldizt uppi á Spáni, hefir leitt til þess, að Japan hefir ráðizt inn í Kína án þess að segja Kína stríð á hendur né taka yfirleitt nokkurt tillit til mannúðar eða alþjóðaréttar í því sambandi. Við sjáum, hvernig pólitík þessara þriggja fasistaríkja miðar að því að eyðileggja þann grundvöll, sem öll menning Evrópu byggist á, og þar með að því að grafa grunninn undan þeim hugmyndum og tryggingu, sem við höfum viðkomandi rétti og sjálstæði þjóðanna, og ekki sízt smáþjóðanna.

Við Íslendingar höfum horft með skelfingu á þessar aðfarir. Og það er ekki nema eðlilegt, að við, sem erum máttarminnsta þjóðin í veröldinni, varnarminnsta þjóðin af öllum, sem til eru, horfum með skelfingu á það, að þjóðir, sem vilja fá að lifa í friði, — þjóðir, sem ekkert er tilkynnt, áður en á þær er ráðizt, þær verða að horfa á jafnt vopnlausa sem vopnaða íbúa tortímast og sjá rétt þjóðarinnar einskis virtan af þessum fasistaríkjum. Við Íslendingar höfum haft ást á sjálfstæði okkar þjóðar og höfum ennþá. Og okkur hefir líka alltaf verið þannig farið, að við höfum viljað virða rétt annara þjóða til sjálfstæðis. Þetta hefir einmitt verið það glæsilegasta við alla þá menn, sem barizt hafa fyrir því sjálfstæði, sem við nú höfum, að þeir hafa alltaf sýnt alþjóðlegt hugarfar og haft samúð með hverri þjóð, sem hefir orðið fyrir þjóðernislegri frelsisskerðingu. Þessi hugsunarháttur gekk eins og rauður þráður gegnum rit forvígismanna íslenzks sjálfstæðis á 19. og 20. öld. Með Írum og Pólverjum, Ungverjum og öðrum slíkum þjóðum, sem háðu harða baráttu um frelsi sitt við voldugar þjóðir, höfum við alltaf haft samúð. Og þó að við Íslendingar höfum sjálfir fengið okkar sjálfstæði, þá vona ég, að þetta hugarfar sé ekki horfið. Það er það áreiðanlega ekki hjá íslenzku þjóðinni; og ég vona, að það sé ekki heldur í þessum sölum. Ég veit þess vegna, að ég tala í nafni íslenzku þjóðarinnar, þegar ég lýsi yfir því frá þessum stað, að við Íslendingar höfum fyllstu samúð með Abessiníumönnum, Kínverjum og Spánverjum, sem ráðizt er á til þess að granda sjálfstæði þeirra og troða rétt þeirra undir fótum. Sé nokkur slíkur andstæðingur þjóðfrelsis og lýðræðis hér inni, að hann sé slíkum verkum samþykkur, getur hann gert athugasemd á eftir. En ég vona, að hér sé enginn slíkur vargur í véum.

Oft er talað um það í sambandi við okkar öryggi í alþjóðastríði, að við höfum eina vernd, og það er brezki flotinn. Og að vísu má til sanns vegar færa, að brezki flotinn er með nokkrum rétti talinn að hafa átt sinn stóra þátt í að vernda sjálfstæði Íslendinga. Ég veit ekki, hvort menn kæra sig um að hafa ekki aðra vernd en slíka, sem eitt stórveldi sýnir gagnvart öðru til þess að tryggja sér þau áhrif. sem það er búið að ná, svo mikið sem talað er um þjóðlegan metnað manna nú á tímum. Ég held líka, að þessi vernd sé ekki svo örugg, að hægt sé að treysta henni. Við höfum séð. að Bretar hafa látið undir höfuð leggjast að gæta sinna stórveldishagsmuna í málum, þar sem þeir eiga a. m. k. eins mikilla hagsmuna að gæta eins og í sambandi við okkur Íslendinga. Við höfum séð, hversu mikilla hagsmuna þeir áttu að gæta í Abessiníu, við sjáum, hvað þeir eiga í hættu á Spáni, ef Gíbraltar verður eyðilagt fyrir þeim sem vigi, og við vitum, hversu mikil auðæfi þeir eiga í Kína, og vitum, hvað þeir hafa gert í þessum málum öllum. Og getum við þá hugsað, að þeir muni fremur taka í taumana hér?

Það er ekki um það að ræða, að Íslendingar geti fengið yfirlýsingu frá allflestum stórveldum um það, að þau undir öllum kringumstæðum virði þeirra sjálfstæði og lofi að granda því ekki. Ég býst við, að á slíkum róstutímum sé erfitt að fá samkomulag um slíkt. Það eina, sem gefur möguleika til að skapa einhvern grundvöll og einhvern rétt, það er að vera í sambandi við Þjóðabandalagið. Ég skal þó taka fram. að það er langt frá því, að ég líti svo á, að sjálfstæði Íslendinga væri fullkomlega tryggt með þátttöku þeirra í Þjóðabandalaginu. Ég býst við, að allir hv. þm. séu sammála um, að það sé mjög gölluð stofnun. En ég vil þó benda á, að þessi stofnun hefir í rauninni breytzt stórkostlega. Á síðustu árum hafa orðið breytingar á ástandinu í heiminum.

Ég hefi verið mjög ákveðinn andstæðingur þessarar stofnunar, og árið 1930, þegar um það var rætt, hvort Ísland ætti að sækja um upptöku í Þjóðabandalagið, þá tók ég skarpa afstöðu á móti því, og ég álit, að það hafi verið rétt. Því að hvað var Þjóðabandalagið þá? Það var bandalag sigurvegara styrjaldarinnar til að halda niðri þeim þjóðum, sem biðu lægra hlut, og vernda þá óréttlátu friðarsamninga. Það var kúgunarbandalag nokkurra sterkustu auðvaldsríkjanna á móti ríkjunum, sem urðu undir, eins og Þýzkaland, og á móti Sovét-Rússlandi. Það, sem siðan hefir gerzt, er það, að fasisminn hefir tekið völd í Þýzkalandi og í Japan, og bæði þessi ríki eru komin úr Þjóðabandalaginu, og Ítalía með annan fótinn út úr því og algerlega úr því um starf og stefnu. Það eru þessi ríki, sem nú eru að undirbúa nýja styrjöld og standa í stríði við aðrar þjóðir án þess að hafa sagt þeim stríð á hendur. Þau neita að viðurkenna þann rétt, sem Þjóðabandalagið er að reyna að skapa, né þann grundvöll, sem það vill byggja á.

Þjóðabandalagið hefir því allt aðra afstöðu nú en 1930. Þá var það bandalag auðvaldsríkja á móti kúguðum þjóðum og verklýðsríkjunum. En nú, þegar fasistaríkin og einveldin traðka rétti og sjálfstæði annara þjóða, þá er Þjóðabandalagið hinsvegar sem samband, sem reynir að halda uppi þeim leiðum, sem hægt er, í alþjóðarétti í heiminum. En þessi þrjú fasistaríki, sem eru utan við Þjóðabandalagið, viðurkenna ekki þennan menningar- og siðferðisrétt, sem heimurinn hefir reynt að byggja á sínar aðgerðir í alþjóðapólitík á síðustu áratugum, og hafa þessi ríki þar með tekið sig svo að segja út úr tölu menningarríkjanna.

Ég álít því ekki spursmál, að við eigum alvarlega að athuga, hvort Ísland eigi ekki að ganga í Þjóðabandalagið og fá þar með þann rétt, sem því fylgir að njóta þeirra kosta, sem því eru samfara. Hlutleysisyfirlýsing okkar getur ekki verndað okkur. Þó að við hefðum getað treyst því 1930, þá sjáum við nú, fyrir þá reynslu, sem við höfum upplifað síðan, að það er tálvon ein.

Hvað gætum við unnið við að ganga í Þjóðabandalagið? Í fyrsta lagi það, að við mundum fá ákveðinn rétt. Við mundum fá rétt til að gera ákveðnar kröfur til þeirra ríkja, sem í bandalaginu eru. Ég skal fyrstur manna viðurkenna, að hann er ekki nema á pappírnum, en hann er þó til á pappírnum, og það gefur þó dálitla von um, að hægt sé að vinna betur að að framkvæma slíkan rétt. Ég veit, að bent verður á, hversu lélega Þjóðabandalagið stóð sig í Abessiníustríðinu. En ef við athugum, hvernig farið hefði, ef Þjóðabandalagið hefði ekki verið, sjáum við, að þá hefði Abessinía verið enn verr farin, því að þá væri ekkert líklegra en að Ítalir hefðu nú fengið lagalega viðurkenningu fyrir yfirráðum sínum í Abessiníu. Þeir vöktu á sér eftirtekt og gátu skapað samúð með sér, og þær refsiaðgerðir, sem framkvæmdar voru, þótt ófullkomnar væru, þær hefðu þó getað leitt til þess, að Ítalía hefði farið halloka, ef Abessinía hefði haft betri herstjórn og haft betra lag á að berjast eins og heppilegast var með tilliti til landsins. Og þó að þau slælegu átök Þjóðabandalagsins í þessu máli séu svartasti bletturinn á því, þá hefðu þau samt getað hjálpað, ef heppilegar kringumstæður og aðferðir hefðu verið að öðru leyti. Þess vegna gætu aðgerðir Þjóðabandalagsins orðið okkur að notum, ef réttur okkar væri skertur. Það mundi vakna alþjóðaeftirtekt á okkur, og við mundum fá fjölda manna, sem berjast fyrir rétti smáþjóðanna, til að taka undir kröfur okkar. Og þetta, að Þjóðabandalagið er orðinn alþjóðavettvangur, hefir sérstaklega mikla þýðingu, því að það sameinar þau öfl, sem vilja vernda rétt smáþjóðanna. Og ber okkur Íslendingum sem varnarlausri þjóð ekki sérstök skylda til þess að styðja þó að þeim vísi, sem er til alþjóðlegs réttarfars, þar sem Þjóðabandalagið er, við sem allra þjóða mest erum upp á það komnir, að slíkar alþjóðareglur séu til og sé fylgt? Er rétt að standa utan þess sambands, sem reynir þó að gera eitthvað til þess, að alþjóðaréttur sé virtur? Ég álít, að okkur beri að styðja þessa viðleitni, sem aðrar þjóðir vinn. að og við að sjálfsögðu óskum eftir að njóta góðs af.

Ég álít því, að fullkomlega sé tími til þess kominn, að við tökum þetta mál fyrir á Alþingi og felum stj. að rannsaka það og athuga, hvaða lögfræðilegar og fjárhagslegar skuldbindingar við verðum að taka á okkur, ef við göngum í Þjóðabandalagið. Ég veit, að á þessu eru ýmsir agnúar, sem þarf að yfirvinna, en ég vona, að með því að byrja að athuga þetta og hefja hér í d. umr. um þetta mál, þá vakni líka hjá þjóðinni nokkur meðvitund um það, hversu hættuleg er nú sú afstaða, sem okkar sjálfstæði hefir í heiminum, og hversu nauðsynlegt er að reyna að tryggja það betur.

Ég vil svo eins og getur að skilja eindregið mælast til þess, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þáltill., hvort sem rétt þykir að vísa henni til n. eða ekki.