19.10.1937
Neðri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2400)

6. mál, Þjóðabandalagið

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Það fór eins og ég bjóst við, að hæstv. ráðh. mundi svara þessu máli með því að vitna í mína fyrri afstöðu. Í því sambandi er vert að athuga, hverskonar afstaða gagnvart umheiminum liggur þarna til grundvallar. Afstaða hæstv. ráðh. virðist vera sú. að hafi maður í eitt skipti tekið ákveðna afstöðu til einhvers fyrirbæris, þá sé sjálfsagt að halda þeirri afstöðu óbreyttri, þó að sjálft fyrirbærið gerbreytist. — Hæstv. ráðh. er einn af verkalýðsforingjum þessa lands. Þætti honum það vænlegt til sigurs fyrir verkalýðshreyfinguna. að hún breytti aldrei um bardagaaðferð við breyttar aðstæður? Nei, menn eiga að hafa hugrekki til að kasta gömlu og úreltu bardagaaðferðunum fyrir borð, þegar gerbreyttar aðstæður kalla á ný viðhorf.

Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, hverskonar stofnun Þjóðabandalagið hefði verið um 1930. Hæstv. ráðh. gerði enga tilraun til að hrekja það, að lýsing mín á Þjóðabandalaginu í Réttargreininni væri sannleikanum samkvæm. Og hann kvaðst ekki geta séð, að þær breytingar hefðu á orðið, sem réttlættu breytta afstöðu frá minni hálfu. Ég hélt ekki, að þær breytingar, sem fram hafa farið í veröldinni síðan 1930, hefðu farið framhjá hæstv. ráðh.

Árið 19311 var Þýzkaland vopnlaust eða vopnlítið land, kúgað af versalasamningunum — og lýðræðisríki. Nú situr þar að völdum harðvitugasti og grimmasti hluti auðvaldsstéttarinnar, nú ríkir þar einræði, nú er Þýzkaland eitt bezt vopnaða Evrópuríkið og hefir leikið sér að því síðustu fjögur árin að rjúfa hvern alþjóðasamninginn eftir annan, hafa að engu skuldbindingar sínar við önnur ríki. Það er því ekkert smáræði, sem gerzt hefir í Þýzkalandi þessu síðustu ár.

Það hefir ennfremur gerzt nú á síðustu árunum, að úr Þjóðabandalaginu hafa farið þau ríki, sem nú þegar eru komin á kaf í blóðugar styrjaldir og búast nú óðum við nýrri heimsstyrjöld, — þau ríki, sem með hernaðarbrölti sínu og harðstjórn hafa sett sig út úr menningarlegu sambandi þjóðanna, svo sem Þýzkaland, Japan og Ítalía. Það síðusttalda er að vísu ennþá meðlimur Þjóðabandalagsins, en hagar sér eins og það væri þegar gengið úr því.

Árið 1930 var Þjóðabandalagið samband auðvaldsríka, með Bretland í broddi fylkingar, og notað sem verkfæri til þess að halda þeim þjóðum niðri, er undir höfðu orðið í heimsstyrjöldinni, og til þess að sameina krafta auðvaldsríkjanna þegn sovétríkjunum. Að sjálfsögðu hlaut þá afstað, verkalýðshreyfingarinnar í heiminum að vera sú, að berjast á móti hinum ríkjandi öflum í Þjóðabandalaginu. Síðan hefir viðhorfið gerbreytzt. Baráttan stóð þá fyrst og fremst milli verkalýðs og auðvalds, sósíalisma og kapítalisma. Nú stendur baráttan í heiminum fyrst og fremst milli fasismans og lýðræðisins, milli fasistaríkjanna annarsvegar og borgaralegra og sósíalistískra lýðræðisríkja hinsvegar. Nú er svo komið, að Bandaríki Norður-Ameríku virðast tilleiðanleg til náins samstarfs við Þjóðabandalagið, og síðast en ekki sízt eru sovétríkin nú orðin meðlimur þess. Þjóðabandalagið er að verða samband þeirra afla í heiminum, sem vilja frið og framfarir.

Það er þessi breyting, sem veldur breyttri afstöðu okkar kommúnistanna. Þjóðabandalagið hefir gerbreytzt, og við breytum okkar afstöðu til þess í samræmi við þá breytingu. Þetta er ekkert óeðlilegt eða óvenjulegt. Ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. tekur allt aðra afstöðu sem sósíalisti til þess Þýzkalands, sem var fyrir 1933, en þess, sem nú er. Ég efast ekki um, að hæstv. ráðh. tekur allt aðra afstöðu sem verkalýðsforingi til þess Rússlands, sem var fyrir 1918, en til sambands hinna sósíalistísku sovétríkja. Þannig er það alstaðar. Hlutirnir breytast, aðstæðurnar breytast, og ef við ætlum ekki að dragast aftur úr þróuninni, verðum við að breyta okkar afstöðu jafnframt.

Ég þakka hæstv. ráðh. þær upplýsingar, sem hann gaf. Hvað hlutleysinu viðvikur, þá man ég ekki betur en að í skýrslu dr. Björns Þórðarsonar hafi verið gert ráð fyrir því, að hlutleysið de jure yrði að víkja, ef Ísland gengi í Þjóðabandalagið. Og ég tel víst, að enn sé þörf á að athuga ýmislegt í sambandi við þetta mál. Íslenzka stjórnin þarf að athuga það gaumgæfilega, hverjar líkur eru til, að hægt sé að njóta þeirra réttinda í raun og veru, sem Ísland öðlast formlega við inngöngu í bandalagið. Það hefir borið of mikið á því hjá hæstv. ríkisstjórn, að hún virðist ekki sjá lengra en til Norðurlanda og Bretlands, þegar um er að ræða íslenzka utanríkispólitík. Þessi sjónhringur er allt of þröngur. Það á ekki að miða alla utanríkispólitík Íslands við það, hvað stjórnum Bretlands og Norðurlanda þykir praktískt. Það má ekki gleyma því, að fleiri ríki hafa „interessu“ af því, að sjálfstæði Íslands haldist, svo sem Bandaríkin, Frakkland og sovétríkin, ekki sízt í sambandi við þær flugleiðir milli heimsálfanna, sem nú eru ráðgerðar einmitt um Ísland, og hefðu mikla þýðingu, bæði í friði og á styrjaldartímum.

Ég geri það ekki að kappsmáli, hvort sú aðferð verður höfð að samþ. till. eða vísa henni til stjórnarinnar. En sú afgreiðsla má ekki þýða það, að allt verði enn látið reka á reiðanum. Það verður strax að athuga allar þær utanríkispólitísku forsendur, sem eru fyrir inngöngu Íslands í Þjóðabandalagið, og hraða málinu sem mest. Við eigum ekki að láta sjálfstæði Íslands veita á því, hvort brezku stjórninni þyki það praktískt að láta enska flotann gæla okkar, heldur tryggja sem bezt samböndin við þær þjóðir í heiminum, sem vilja vinna að friði og alþjóðarétti, er einnig nái til smáþjóðanna.