20.10.1937
Neðri deild: 6. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (2403)

6. mál, Þjóðabandalagið

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti! Í sambandi við þær umr., sem fram fóru um þetta mál í gær, kom í síðustu ræðu hæstv. atvmrh. fram atriði, sem mér þykir vera alvarlegt. Í sambandi við þetta mál lýsti hæstv. ráðh. því yfir, að hann væri minna hlynntur því nú að ganga í Þjóðabandalagið heldur en hann hefði verið 1930, og minntist hann í því sambandi á, hvernig mínar skoðanir hefðu breytzt síðan 1930. Mér finnst þetta nánast varhugaverð yfirlýsing af hálfu hæstv. ráðh., því að árið 1930 og þar um kring var Þjóðabandalagið, eins og ég tók fram í ræðu minni í gær, einmitt bandalag, sem sýndi sig í því að kúga þær þjóðir, sem orðið höfðu undir í heimsstyrjöldinni og voru þá minni máttar. 1930 og alla tíma fram til þessa tók Þjóðabandalagið þá afstöðu gagnvart lýðræði Þýzkalands að gera því lítið sem erfiðast með því að beita það harðvítugum ráðstöfunum í gegnum Versalasamninginn. Þetta hjálpaði að lokum hinni fasistísku hreyfingu til að ná yfirhöndinni í Þýzkalandi. Það er þessi pólitík Þjóðabandalagsins, sem hæstv. ráðh. vildi heldur hallast að heldur en sú pólitík, sem það nú rekur. Það var sú pólitík, sem hóf þýzku fasistana til valda. En þegar hættan fyrir smáþjóðirnar er svo geysileg sem raun er á nú, 1937, og þegar Þjóðabandalagið sýnir einhvern lit á að vernda lýðræði og sjálfstæði þjóðanna, þá segir hæstv. atvmrh., að það sé minni ástæða fyrir Ísland að ganga. í Þjóðabandalagið heldur en áður var. Ég býst við, að hæstv. ráðh. sé eini sósíalistíski ráðh. í Evrópu, sem er á þessari skoðun.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að Þjóðabandalagið hefði veitt meira öryggi 1930 heldur en nú. Hann færði þau rök fyrir þessu, að þá hefði verið í því ríki eins og t. d. Þýzkaland. Þetta er rangt. Það, sem fyrst og fremst hefir þýðingu í þessu sambandi, er spurningin um viljann til þess að gera eitthvað. Það er viljinn, sem fyrst og fremst hefir þurft til þess, að eitthvað yrði gert. En það var viljinn, sem algerlega vantaði hjá Þjóðabandalaginu 1930. Og af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar greint, var Þjóðabandalagið þá fyrst og fremst bandalag afturhaldsríkjanna móti undirokuðu þjóðunum. Ég get nefnt dæmi þessu til sönnunar. Það var atvik, sem gerðist árið 1931, þegar hæstv. ráðh. segist hafa verið hrifnari af Þjóðabandalaginu en hann er nú; þetta atvik var innrás Japana í Manchuriu, fyrsta og mesta árás á þjóð, sem átt hefir sér stað síðan heimsstyrjöldinni lauk. Hæstv. ráðh. talaði um, að það hefði verið lítið gert í sambandi við Abessiníuófriðinn. En hvað gerði Þjóðabandalagið 1931, þegar Japanir réðust inn í Manchuríu? Það eina, sem gert var, var það, að send var nefnd til Manchuríu, og hún gaf út skýrslu eftir nokkur ár. Þetta var öryggið 1931, sem hæstv. ráðh. telur, að hafi verið eftirsóknarverðara heldur en nú. Ég álit, að þetta hafi ekki við rök að styðjast. En ég er hræddur um, að það sé annað, sem þarna kemur til greina og valdi því, hvað hæstv. ráðh. og fleiri taka dauft í till. mína, en það er tilhneigingin til að dæma eftir valdi þeirra stórvelda, sem að Þjóðabandalaginu standa. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að Þýzkaland hefir farið úr Þjóðabandalaginu síðan, en ég tei það ekki vera neitt veikara, þó að það hafi horfið úr bandalaginu með sína pólitík. Ég skal benda á eina stofnun, þar sem Þýzkaland og Ítalía taka þátt í störfum og hefir líka það takmark að vernda friðinn. Þessi stofnun er hlutleysisnefndin. Ég get ekki hugsað mér, hvernig nokkur maður getur fundið ömurlegri árangur heldur en framkvæmdir þessarar nefndar. Það er eitt, sem hefir komið fram í ræðum þeirra hv. þm., sem talað hafa, og einnig kom fram í Morgunblaðinu í morgun, en það er, hvað menn gera lítið úr þeirri hættu, sem okkur Íslendingum stafar af fasismanum. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. varaðist að minnast á fasisma í sinni ræðu og að hann reyndi að fara í kringum þessa hættu. Mér þykir leitt, að þessi ótti við veruleikann skuli koma fram hjá sjálfum utanríkismálaráðh. á jafnábyrgðarmiklum stað og sjálfu Alþingi. Þetta andvaraleysi er alveg samskonar og það andvaraleysi, sem átti sér stað hjá þýzku alþýðuflokksstjórninni áður en nazistar náðu völdunum. En þetta er stórhættulegt okkar sjálfstæði. Og ég er á þeirri skoðun, að þannig megi það ekki halda áfram. Þetta spursmál er ekki neitt formsatriði. Það er spursmál um það, hvort Ísland á að taka afstöðu með fasistaríkjunum, sem hafa skorið sig út úr m:nningunni, eða með Þjóðabandalaginu og þeim lýðræðisöflum, sem þar eru að verki.

En valdhafarnir hér heima hafa tekið þá afstöðu að vilja ekkert í þessu máli gera, aðeins bíða átekta. Morgunblaðið, það blað, sem oft hefir tekið afstöðu með hinu fasistiska Þýzkalandi, er ákaflega ánægt með þessa afstöðu stjórnarinnar.

Ég álít þess vegna. að hér sé hætta á ferðinni, sem við eigum ekki að loka augunum fyrir, og því sé ekki rétt að vera að karpa um einhverja smámuni eða það, sem áður hefir gerzt í þessu máli.

Ég bjóst satt að segja við því, þegar ég bar till. fram, að það mundi koma í ljós í þessum umr., hver afstaða Sjálfstfl. væri í raun og veru í þessu máli. En því miður hefir farið svo, að hæstv. atvmrh. hefir svo að segja gengið fram fyrir skjöldu þeirra manna, sem eru andstæðir inngöngu Íslands í Þjóðabandalagið, og tekið af þeim ómakið að ræða þetta mál. Það hefði óneitanlega verið mjög „interessant“ að heyra afstöðu þm. Sjálfstfl. í þessu máli.

Hvað viðvíkur þeim ótta við að láta í ljós. hvaða afstöðu víð eigum að taka í þessu máli og hvaða hætta vofir yfir Íslandi í þessu sambandi, þá álít ég, að við þurfum að útrýma honum. Við verðum að þora að taka okkar afstöðu, hvaða þræði, sem kann að verða kippt í á bak við. Ég veit, að í óttanum við að þora að horfast í augu við hættuna, sem yfir vofir, felst hætta fyrir okkar sjálfstæði og lýðræði, og ég álit það varasamt að bíða og bíða. Það var sú aðferð, sem sú stjórn, sem hæstv. atvmrh. minntist á í gær, lýðræðisstj. í Þýzkalandi, notaði mjög mikið. Það var sagt í hvert skipti, sem fasistarnir færðu sig upp á skaftið í Þýzkalandi forðum daga, að bezt væri að bíða og bíða. Það var sagt, þegar ráðh. þýzka alþýðuflokksins var sparkað úr ráðherrastóli, að bezt væri að gera ekki neitt, en biða átekta. Ég held því, að maður ætti að vera búinn að læra svo mikið af þessari aðferð — að bíða átekta —, að maður ætti ekki að nota hana mikið lengur. Við sjáum bezt nú, hve ört þróunin gengur í veröldinni, af því, sem er að gerast í Tékkoslóvakíu, þar sem að öllum líkindum er verið að undirbúa samskonar og framið var af Frankó á Spáni gagnvart lýðræðinu þar. — Ég álít þess vegna, að það væri rétt, að Nd. léti í ljós álit sitt um þetta mál og legði orð í belg um það að reka á eftir ríkisstj. í sambandi við þær rannsóknir, sem hún hefir látið fram fara, og samþykkti þessa þáltill., því eftir yfirlýsingu hæstv. atvmrh., álít ég það heppilegra heldur en að vísa henni til stj. Ég álít, að hér sé um það mikið framtíðarmál fyrir Ísland að ræða, að það ætti ekki að flaustra því af eða drepa það á neinn hátt. Það getur orðið örlagaríkt fyrir okkur á þeim tímum, sem nú eru, ef við lokum augunum fyrir þeirri hættu, sem yfir okkur er, og biðum og bíðum þangað til allt er orðið um seinan. Ég vil a. m. k. gera það, sem ég get, til þess, að svo verði ekki, og ég skora á hv. þm. að athuga þetta mál rækilega áður en þeir grípa til þess að fresta því í það endalausa eða hundsa það.