20.10.1937
Neðri deild: 6. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (2405)

6. mál, Þjóðabandalagið

Thor Thors:

Þessi till. hljóðar um það, að athugað sé, hvort Ísland eigi að ganga í Þjóðabandalagið. Málflutningur hv. flm. er að vísu á þann hátt, að hann virðist vilja ganga í Þjóðabandalagið rannsóknarlaust. Af mikilli ákefð og hita talar hann nú fyrir þessari stofnun, sem hann 1930 átti engin nægilega sterk orð til að þess að svívirða. Það verður samt sem áður að ræða þessa till. eins og hún liggur fyrir. Það er ekkert nýtt mál, að rannsakað sé, hvort Ísland eigi að ganga í Þjóðabandalagið. Það mál hefir verið í rannsókn síðan 1930, og verður að teljast rétt, að það sé áfram rannsóknarefni. Það er rétt að vega það nákvæmlega, hvort öryggið, sem þetta kann að veita okkur er þyngra á metunum en áhættan og kostnaðurinn, sem af þessu leiðir. Enginn, sem eitthvað fylgist með í heimspólitíkinni, getur neitað því, að Þjóðabandalagið er að ýmsu leyti veikara nú í dag en það nokkru sinni hefir verið áður. Álitsspjöll þau, sem Þjóðabandalagið beið við Abessiníuófriðinn, benda greinilega til þess. Og hví skyldum við vera að rjúka til og ganga í þessa stofnun áður en hún hefir að fullu sýnt, til hvers hún dugir í heiminum? Komandi ár verða að vera prófsteinninn á dug Þjóðabandalagsins til framkvæmdar þeirri hugsjón, sem það hefir sett sér. Við þurfum ekki að flýta okkur svo mjög í þessu máli, að við getum ekki beðið eftir þeirri prófun. — Það er líka rétt að sjá, hver verður niðurstaðan af þeim tilraunum, sem nú er verið að gera til þess að breyta sáttmála Þjóðabandalagsins, hvort smáþjóðirnar fá meiri íhlutunar- og áhrifarétt en verið hefir til þessa. Allt þetta er rannsóknarefni, og er engin ástæða til að rasa hér um ráð fram. Það er ennfremur alveg augljóst, að hér innanlands eru mörg verkefni, sem eru meira aðkallandi og nauðsynlegri heldur en þetta spor, sem hv. flm. beinlínis ætlast til, að stigið sé. Það hefir oft heyrzt, að vel færi á því, að þegar Ísland tæki í sínar hendur öll sín mál, gengi það í Þjóðabandalagið, til þess að undirstrika fullkomið sjálfstæði sitt. Þetta er einnig rannsóknarefni og getur beðið síns tíma. Það kynni vel að fara á því, að þetta spor yrði stigið á sinum tíma, ef þá hefði sýnt sig, að við hljótum aukið öryggi fyrir sjálfstæði þjóðarinnar með því að ganga í Þjóðabandalagið. Annars hygg ég, eftir því sem fram hefir komið um veldi og mátt Þjóðabandalagsins á undanförnum árum, að sú eina vernd, sem við eigum fyrir okkar sjálfstæði út á við, á næstu árum a. m. k., sé réttarvitund þjóðanna og mannkynsins í heild. — En þegar rætt er um sjálfstæði þjóða, má líka minnast á það, að þetta mál á sér annan þátt og ekki veigaminni hér innan lands, og hv. flm. ætti að íhuga það, hvort ekki veltur talsvert á því, hvernig fer í innanlandsbaráttunni, og hvort við verðum nokkurn tíma færir um að hafa okkar mál með höndum. Þetta er líka íhugunarefni, a. m. k. fyrir þennan hv. þm. En ég tel, sem sagt, að þetta mál eigi að vera áfram rannsóknarefni hjá ríkisstj. og stjórnmálaflokkunum, og í sjálfu sér verður aldrei gert neitt í því nema fyrst komi til afskipta og ákvörðunar Alþingis.