27.10.1937
Neðri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (2419)

40. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég held, að það sé hreinasta „utopia“, svo að maður noti orð hv. flm., að láta sér detta í hug, að með samþykkt þessarar till. væri hægt að spara ó millj. kr. fyrir þjóðarbúið og 1½ millj. kr. fyrir útgerðarmenn. Hinsvegar neita ég því ekki, að till. gefur tilefni til athugunar. — að vísu er það svo, eftir því sem ég bezt veit, að úthlutun gjaldeyrisleyfa er ekki þannig bundin eins og hv. flm. taldi. Ég veit ekki betur en að smákaupmennirnir fái nokkuð af gjaldeyrisleyfum, þó að ýms leyfi séu bundin við heildsalana. En ég tel fulla ástæðu til að athuga, hvort ekki sé hægt að veita smákaupmönnunum meira af gjaldeyrisleyfum. En rétt er að benda á það, að þá þarf að setja rammar skorður við því, að hægt sé að braska með gjaldeyrisleyfin, þannig að þau gangi kaupum og sölum.

Að því er snertir leyfin til útgerðarmanna og iðnaðarmanna, þá veit ég ekki betur en að þeirri reglu hafi verið fylgt, að þeir fengju viðstöðulaust innflutningsleyfi fyrir sínum þörfum, að undanskildum veiðarfærum, sem búin eru til í landinu, og jafnan hefir verið reynt að taka nokkurt tillit til þess, að sú iðngrein þyrfti ekki að falla niður. En mér er ekki kunnugt um það, að þeim hafi verið neitað um innflutning fyrir salti, kolum og olíu. — Ég hygg því, að það sé fjarri öllum sanni að láta sér detta í hug, að með framkvæmd þessarar till. fengist 1½ millj. kr. sparnaður fyrir útgerðarmenn. En ég hygg, að með viðtækari leyfum til smákaupmanna mætti í mörgum tilfellum losna við óhæfilega álagningu heildsalanna, og er ég að því leyti sammála hv. flm.

Ég vil því, að þessu öllu athuguðu, leggja til, að umr. verði frestað að sinni og málinu vísað til fjhn., þar sem m. a. á sæti maður, sem um tíma hefir verið form. gjaldeyrisnefndar og er því þessum málum kunnugastur, að því er snertir úthlutun leyfa.