29.10.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (2428)

20. mál, landhelgisgæzla

*Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Þessi till. er svo að segja shlj. till., sem ég ásamt þm. V.-Sk. og þáv. 11. landsk. flutti á síðasta þingi. Hér eru nú flestir sömu menn viðstaddir og voru þá, og ég sé þess vegna ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég sagði við framsögu málsins þá, né heldur bæta nýju við á þessu stigi. Því að að sjálfsögðu gefst tækifæri til þess við síðari umr. að ræða þetta mál nánar, ef ástæða er til. Ég ætla þess vegna ekki að hafa þessa framsögu lengri, né auka umr. um hana, nema sérstakt tilefni gefist til. En ég óska, að till. verði vísað áfram til síðari umr. Ég hefi ekki athugað nákvæmlega, hvort ástæða sé til þess að till. gangi til nefndar, en ef það þykir betur viðeigandi, þá sé ég ekki, að það geti verið önnur nefnd en fjvn., því að aðrar nefndir höfum við ekki til að vísa slíku máli til. En annars er að sönnu ekki farið fram á sérstaka fjárveitingu með þessari till. Hirði ég því ekki um að eiga frumkvæði að því að vísa till. til neinnar nefndar, en mundi ekki verða á móti því, að svo yrði gert.