11.11.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (2438)

23. mál, alþýðutryggingar

*Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Þegar rætt var um frv. mitt um breyt. á l. um alþýðutryggingar í hv. Ed., dróst efni þessarar þáltill., sem hér liggur fyrir, mjög inn í umr., sem urðu allýtarlegar, og — eins og kunnugt er — nokkuð á við og dreif. Ég tel því óþarft að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. —

Þáltill. þessi fer fram á það, að l. um alþýðutryggingar verði endurskoðuð í heild, en þó er sérstaklega til tekið, að gera þurfi gagngerðar breyt. á köflunum um elli- og örorkutryggingar, þannig að allar tekjur, sem ætlaðar eru til gamalmenna og öryrkja, verði jafnharðan notaðar þeim til styrktar. Ennfremur að breyta skuli á gagngerðan hátt kaflanum um atvinnuleysistryggingar, þannig að þær komi að fullu gagni.

Mér er ljóst, að það þarf að breyta ýmsu fleiru í 1. Slysatryggingarnar eru að vísu — að mínum dómi — ágallaminnsti kaflinn í löggjöfinni, en samt sem áður hafa ýmsar breyt., sem gerðar hafa verið á slysatryggingarlögunum um leið og þær voru felldar inn í alþýðutryggingarlöggjöfina, valdið mikilli óánægju, og þarf þar lagfæringa við.

Hvað breyt. á ellitryggingunum snertir, þá hefir þeirri röksemd verið haldið mjög á lofti, að þetta fyrirkomulag, sem farið er fram á í till., mundi verða afardýrt. Það er því rétt að athuga þetta ofurlítið. — Ef tala gamalmenna er reiknuð eftir manntalinu 1930 og lagt til grundvallar skattaframtal ársins 1932, þá fáum við út eftirfarandi: Ef allar tekjur lífeyrissjóðs koma til útgjalda og gert er ráð fyrir, að bæjar- og sveitarfélög leggi fram jafnháa upphæð á móti, og ennfremur að gert sé ráð fyrir, að helmingur gamalmenna þurfi á styrk að halda, þá yrði meðallífeyrir með þessum útreikningi tæpar 450 kr. á ári á gamalmenni, ef reiknað er með því, að þau njóti styrks eftir 67 ára aldur. En nú er gert ráð fyrir, að meðallífeyrir verði aðeins 420 kr. eftir 50 ár, þegar fullur lífeyrir kemur til greina. Ef öryrkjarnir eru teknir með, yrði meðallífeyrir um 400 kr. En nú er gert ráð fyrir, að ellilaunagreiðslur hefjist við 60 ára aldur, og þá þarf náttúrlega meira fé, enda er því ekki að leyna, að svo er til ætlazt með þessari þáltill., að reynt verði að finna leiðir til þess að auka tekjur lifeyrissjóðs, jafnframt sem iðgjöld verði höfð stighækkandi eftir tekjum.

Það leikur ekki á tveim tungum, að allur almenningur er sammála þessum breyt., sem hér er farið fram á, og eru þær í samræmi við kröfur þeirra 5200 Reykvíkinga, sem sendu Alþingi í fyrra áskorun um þetta efni, og í samræmi við kröfur flestra verklýðsfélaga á landinu.

Ég leyfi mér að mælast til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr., og að hæstv. ráðh. og hv. þm. athugi það milli umr.