29.10.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2444)

19. mál, Bolungavíkurhöfn

*Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Ég þarf ekki miklu að bæta við mína fyrri ræðu. — Hv. þm. N.- Ísf. sagðist vera hræddur um, að framkvæmdir í þessu máli drægjust. Ég er enn hræddari um það, að svo yrði, ef nú yrði farið að gera einhverjar smáendurbætur; þá er hættan sú, að við það yrði látið sitja. En þessu stendur svo á, að búið er að leggja í hafnarmannvirkin svo mikið fé, að ekki er annað gerlegt en að láta verða úr því góða höfn. Þorpinu verður ekki bjargað með því einu saman, að bátar geti legið þar. Síðustu fjögur ár hefir t. d. orðið aflabrestur á þorskveiðunum, og þegar svo er, verður þorpið illa statt, ef það getur ekki notið hagnaðarins af síldveiðunum. En til þess að geta haft söltun og bræðslu að nokkru ráði, verður höfnin að batna mikið. Bátar allt að 60 tonnum þyrftu að geta gengið frá staðnum, en þar þurfa líka að vera þau hafnarskilyrði, að hægt sé að ferma og afferma stór skip. Það væri ómetanlegur kostur að geta komið afurðum þorpsins beint, í stað þess að nú verður að kjótla afurðunum á smábátum til Ísafjarðar, og verður auðvitað af þessu margfaldur kostnaður. — Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um málið að sinni.