29.10.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2450)

34. mál, Vestmannaeyjahöfn

*Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti! Á fyrra þingi þessa árs flutti ég tillögu sama efnis, en hún komst þá ekki áfram vegna þingrofsins. Árið 1935 náðist samkomulag við ríkisstj. og Alþingi, að veittar yrðu fjögur næstu ár 30 þús. krónur til mannvirkja innan hafnarinnar í Vestmannaeyjum og til dýpkunar á höfninni. En þegar til framkvæmdanna kom, á árinu 1936, sýndi það sig, að þá þurfti alla fjárveitinguna til framkvæmda þess árs, en til þess var ætlazt, að hún entist öll árin 1936–1939. Þær stofnanir, sem lánað hafa fé til verksins, hafa gert það með þeim skilyrðum, að ríkissjóðstillagið gangi beint til þeirra, jafnóðum og það er greitt.

Til skýringar þessu vil ég drepa á það, hvað framkvæmt var fyrir fé það, er eytt var árið 1936 í þessu skyni. Ég hefi fengið yfirlit yfir þetta frá vitamálaskrifstofunni, og ætla að lesa það hér upp, með leyfi hæstv. forseta:

„vinna við bryggjugerðina stóð yfir frá miðjum júlí til ársloka 1936.

Þessi verk voru unnin:

1. Rekið niður 180 m. langt járnþil.

2. Járnþilið fest með boltum í blokkir úr járnbentri steinsteypu, sem lagðar voru í fyllingu bryggjunnar.

3. Að austurhlið uppfyllingarinnar var lagður steinveggur upp að Tangabryggju og veggurinn gerður sandþéttur með timburflekum og járnþili úr plötuafgöngum.

4. Dýpkun hafnarinnar kringum bryggjuna: Svæðið, sem dýpkað hefir verið, nær um 130 m. austur fyrir bryggjuna, um 160 m. í vestur frá bryggjunni, en 40–50 m. í norður.

Fyrir vestan bryggjuna hefir verið grafið í 2,5 m. dýpi, en fyrir norðan og austan bryggjuna í 4,0 m. dýpi miðað við lægstu fjöru.

Alls mun dýpkun kringum bryggjuna nema um 45000 m3, og af því munu um áramót hafa verið komin í bryggjutóttina um 37–38000 m3.

5. Sandfylling í bryggjuna: Bryggjutóttin hefir nú að mestu leyti verið fyllt sandi; en nokkuð mun þó enn vanta á, að sandfyllingin sé eins há og ætlað var, enda er eftir að festa bryggjuþekjuna og steypa stétt meðfram bryggjuveggjunum. Sömuleiðis er eftir að festa bruntré á bryggjuvegginn og steypa nokkur festahöld og ljósastaura.“

Svo sem hv. þm. sjá, er það ekkert smáræði, sem unnið hefir verið. En það, sem ég fyrst og fremst vildi gera hv. þm. ljóst, er þetta: Þó að standi í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir 1938 fjárveiting til Vestmannaeyjahafnar, og sé þar talin þriðja greiðsla af fjórum, þá er búið að nota þetta fé til þeirra framkvæmda, sem ég nú hefi lýst, þannig, að lán hefir verið tekið út á þetta ríkistillag. Og það varð ekki hjá því komizt að gera þetta allt á árinu 1936; með því fékk bryggjubyggingin á sig fast heildarform. Og verkið hefir að ýmsu leyti orðið langtum ódýrara vegna þessara vinnubragða; t. d. má geta þess, að járn það, er notað hefir verið til bryggjubyggingarinnar, fékkst þá við miklu vægara verði en hægt væri að fá það nú.

Ég flutti því, samkv. beiðni bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum, tillögu um fjárveitingu að nýju, svo að hægt væri að dýpka höfnina. Ég gerði ráð fyrir því, að fjárl. yrðu afgr. snemma á þessu ári, og var tilætlunin, að fjárhæðin fengist greidd þegar á árinu. En það fór eins og kunnugt er, að þingi var slitið án þess að fjárl. yrðu afgr. En ekki varð hjá því komizt að láta einna verkið samt. Það er lífsskilyrði fyrir aðalatvinnuveg Vestmannaeyjabúa, að höfnin sé nothæf, en stöðugt rísa erfiðleikar og jafnvel lífshætta af því, hve grunn hún er. Nú vildi svo vel til, að ráðizt hafði verið í að kaupa dýpkunarskip. Þetta skip hefir reynzt mjög vel, og er óhætt að segja, að það hafi orðið til mikils hagnaðar bæði fyrir bæ og land. Var það mikil heppni fyrir bæinn, að skipið var keypt einmitt á þessum tíma, því að það myndi kosta meira nú. Vinna var hafin við dýpkun hafnarinnar síðastl. sumar, þó að engin fjárveiting frá Alþingi lægi fyrir. Var verkið fólgið í því að soga upp sandinn og í öðru lagi að ná upp hinu svokallaða steinrifi, en það eru blágrýtissteinar, sem eru í innsiglingunni milli garðanna. Til þess, að þetta gæti tekizt, þurfti kafara, og varð verkið að haldast í hendur við það að ná upp sandinum. Voru miklir annmarkar á því að ná upp grjótinu, því að það var á kafi í sandi, svo að kafarar áttu örðugt með að koma böndum á hnullungana. En það má segja, að þetta hafi tekizt fyrir hugkvæmni manna þar austur frá, og einkum verkstjórans, Böðvars Ingvarssonar. Þeir notuðu dýpkunarskipið til að ryðja sandinum frá grjótinu á þann hátt, að í staðinn fyrir að láta skipið soga upp sandinn, létu þeir það blása honum frá steinunum, svo að þeir lágu eftir berir. Gekk verkið þannig miklu betur en áður. Með þessari aðferð er hægt að gera rifið skaðlaust.

Dýpkunarvinnan við Vestmannaeyjahöfn í sumar hefir borið ágætan árangur, og í skýrslu bæjarstj. er sagt, að dýpkunin á rifinn hafi numið 1½–2 fetum, en hún þarf að verða allt að 5 fetum, ef skipum á að vera hægt að sigla þarna enn hættulaust, þó að nokkur sjór sé. Þarf því að halda vinnunni áfram.

Kostnaður við þessa vinnu síðastl. sumar nam 40 þús. kr., eða allt að því. Má gera ráð fyrir, að kostnaðurinn næsta sumar verði nokkru lægri. En áætlunin um kostnaðinn síðastl. sumar var nokkru lægri en hann reyndist í raun og veru, svo gera má ráð fyrir, að líkt fari enn. Ég fer fram á það í þáltill., að þingið veiti bænum allt að 30 þús. kr. sem tillag úr ríkissjóði til dýpkunarinnar og frambaldsvinnu þar að lútandi. Skjöl og skilríki frá hafnarstjóra og bæjarstj. Vestmannaeyja mun ég leggja fyrir hv. fjvn., sem ég vona, að fái málið til meðferðar.

Vænti ég svo, að hv. þm. veiti málinu stuðning sinn, og legg til, að því verði vísað til fjvn.