18.11.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (2472)

91. mál, síldarmjöl til fóðurbætis

*Finnur Jónsson:

Ég skal ekki lengja umr., enda virðist þess ekki þurfa, því að hv. 11. landsk. fer nú svo mikið gegnum sjálfan sig í þessu máli, að ef ég ýti eitthvað á hann, þá myndi það auka hringsnúninginn enn meir, án þess að koma honum á nokkurn hátt inn á réttar rökræður. Hann sagði t. d., að sér finnist eðlilegt, að ríkið hlypi jöfnum höndum undir bagga, hvort sem síldarmjölið væri frá ríkisverksmiðjunum eða verksmiðjum einstakra manna. Þetta er ekki í rauninni hægt að skilja öðruvísi en svo, að hann telji rétt, að ríkið borgi uppbót hvort heldur mjölið er keypt hjá verksmiðjum einstakra manna eða verksmiðjum ríkisins. En í till. stendur beinum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Að því leyti, sem mjölið er keypt af öðrum en síldarverksmiðjum ríkisins, greiðir ríkissjóður þann hluta verðsins, sem fram yfir er það verð, er bændur njóta samkvæmt ofanskráðu, enda sé þá miðað við sanngjarnt söluverð.“ Nú sagði hv. flm., að þessi styrkur verði að „afballanserast“ milli ríkissjóðs og síldarverksmiðja ríkisins. Hvernig á það að gerast? Á það að gerast af sjálfu sér eða á að koma með sérstakar fjárveitingar í þessu skyni? Hann á eftir að upplýsa þetta. Ég hefi aldrei vitað, að slíkt „afballanseraðist“ af sjálfu sér; það verður að koma með einhverjar till. um fjárveitingar á móti. En þær liggja ekki fyrir, og lítur ekki út fyrir, að hv. flm. álíti, að þess þurfi, heldur gerist þetta af sjálfu sér.

Hann sagði líka, að þeir flm. beindu þessum till. fyrst og fremst að ríkissjóði. Ég hefi sýnt fram á, að þeim er fyrst og fremst beint að síldarverksmiðjum ríkisins, en ekki ríkissjóði, nema hv. flm. vilji taka sig til og breyta till. þannig, að ríkissjóður borgi mismuninn, hvort sem mjölið er keypt af ríkisverksmiðjunum eða verksmiðjum einstakra manna.

Ég beindi þeirri fyrirspurn til hv. 11. landsk., hvort Sjálfstfl. stæði að þessari till. sem heild. Ég vildi fá að vita, hvort Sjálfstfl. vildi sérstaklega skattleggja sjómenn og útgerðarmenn, sem verzluðu við verksmiðjurnar, til þess að greiða óþurrkastyrk til bænda. Hv. 11. landsk. segir, að þetta komi ekki málinu við. Það kemur einmitt málinu mjög mikið við, hvort einn stærsti stjórnmálaflokkurinn ætlar að taka upp það „princip“ að skattleggja eina fátæka stétt í þjóðfélaginu sérstaklega til þess að greiða hallærisstyrk til annarar fátækrar stéttar. Hv. 11. landsk. vildi svara þessu með því, að það væri nóg, að það sýndi sig á Alþ., hvort málið væri réttmætt og ætti erindi þangað inn. En það geta verið mörg góð mál, sem eiga erindi inn í þingsalina, en geta þó skipt flokkum hjá þjóðinni. Og það er því full ástæða til að ítreka það við hv. 11. landsk., að hann svari því afdráttarlaust, hvort Sjálfstfl. standi að þessari till. eða ekki.