17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (2485)

116. mál, strigaverksmiðja og rafveita á Eskifirði

*Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Ég skal verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að vera stuttorður, því að þess gerist ekki þörf að tala um þetta langt mál. Þessi till. var flutt á síðasta þingi af Jónasi Guðmundssyni, og í rauninni hefi ég ekki miklu við það að bæta, sem þá var sagt, eða við það, sem í grg. stendur og hinu ýtarlega bréfi frá oddvita Eskifjarðarhrepps, Arnfinni Jónssyni, sem fylgir, enda hefir ástandið í þessum bæ heldur ekki breytzt síðan. Það er þannig, að það eru engin skilyrði fyrir íbúa Eskifjarðarhrepps til þess að lifa þar eins og nú standa sakir, svo að það er í rauninni ekki nema um tvennt að gera fyrir íbúa hreppsins, annaðhvort að skapa einhver skilyrði til atvinnumöguleika, til þess að geta lifað þar, eða að flytja þaðan burt og skilja þar eftir þær fasteignir, sem þar eru, án þess að þær verði notaðar, en þetta vilja Eskfirðingar ekki fyrr en í fulla hnefana, enda er ekki í mörg hús að leita, eins og nú er ástatt í landinu með atvinnu. Skipulagsn. atvinnumála hefir gert áætlun um rekstur strigaverksmiðju og komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta myndi vera allálitlegt fyrirtæki. Um það munu samt vera nokkuð skiptar skoðanir. Sumir álíta þetta óhentugan stað fyrir slíka verksmiðju. Ég held, að þetta hafi ekki við mikil rök að styðjast, eins og reynt er að sýna fram á í bréfi oddvita hreppsins, sem hér fylgir með. Á þessum stað hagar vel til um raforku. Svo má gera ráð fyrir, að hægt verði að komast að hagkvæmum samningum um flutningsgjöld. Þá halda sumir því fram, að strigaverksmiðja hér á landi mundi ekki geta borið sig nema með verndartolli, og það þarf vitanlega að rannsaka til fulls, og yrði það vitaskuld gert, ef þessi heimild, sem hér er farið fram á, yrði veitt. Hér er sem sé aðeins um heimild að ræða, og tel ég nauðsynlegt, að þessi heimild verði veitt. Eitthvað verður að gera til þess að koma Eskifjarðarhrepp á réttan kjöl, og ef þessi leið reynist ekki fær, þá verður að reyna aðra leið.

Annar liður till. er um heimild til ríkisábyrgðar fyrir láni til rafveitu á Eskifirði, og þarf vitanlega að samþ. þennan lið, ef fyrri liðurinn yrði samþ., og í raun og veru tel ég rétt að gera það hvort sem er. Þarna hagar vel til um rafveitu, eins og ég hefi tekið fram, og ef til vill yrði haganlegast, að Neskaupstaður og fleiri staðir á Austfjörðum fengju raforku frá þessari rafveitu á Eskifirði, en það er órannsakað mál, sem þarf að rannsaka hið allra fyrsta.

Ég vil mælast til þess, að þessari þáltill. verði visað til síðari umr. og hv. fjvn. og að meðferð málsins verði hraðað eins og unnt er, til þess að hægt yrði að afgreiða þetta á þessu þingi.