17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (2490)

125. mál, berklavarnagjöld 1936

*Flm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti! Að vísu væri æskilegra, að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur, því að það er ekki viðkunnanlegt að tala um fjármál að honum fjarstöddum. En ég vil samt geta þess, að till. þessi hefir legið hér fyrir áður og hefir þá dagað uppi af sérstökum ástæðum. Auk þess hefir hún sætt andróðri af hálfu hæstv. fjmrh.

Till. er borin fram í trausti þess, að hv. þm. viti, að þessi gjöld eru ranglát. Önnur ástæða er sú, að nú, þegar búið er að afnema þau, að heita má, er enn allmikið ógoldið hjá ýmsum héruðum, eitthvað á annað hundrað þús. kr., sem ekki eru líkur til, að innheimtist nokkurn tíma. Veldur þetta misrétti gagnvart þeim héruðum, sem búin eru að greiða sitt og mörg hver hafa greitt þessi gjöld umfram getu sína. Flm. líta því svo á, að sanngjarnt sé, að gjöld þessa síðasta árs séu eftir gefin og að endurgreitt sé til þeirra, sem staðið hafa í skilum, það, sem þessu nemur. Þessi héruð þarfnast þess fyllilega, að fá endurgreitt það, sem þau hafa greitt umfram önnur.

Ég ætlast til, að till. gangi til hv. fjvn. eftir þessa umr.