27.11.1937
Efri deild: 37. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (2510)

74. mál, mæðiveiki

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það gefur að skilja, að það kemur ekki beiðni frá héruðunum um þetta, vegna þess, eins og ég skýrði í upphafi máls míns, að héruðin vilja miklu fremur fara þá leið að fá lán úr sjóðnum. hærri upphæð en þau geta fengið til styrkútbýtingar, til þess að koma upp nýjum atvinnugreinum, og ég veit, að fyrirspyrjanda er ljóst, eins og kom fram af seinnstu orðum hans, að þessar upphæðir, sem eru litlar, 2000–3000 og upp í 5000 kr. á hvert hérað, hrökkva alls ekki til styrkveitinga. Hitt er annað mál, sem hv. þm. spyr um. hvort ríkisstj. sjái sér ekki fært að veita fé úr ríkissjóði í þessu skyni. Það kemur fyrirspurninni ekki við í sjálfu sér; það kemur ekki við þeim styrk, sem bjargráðasjóður hefir yfir að ráða, og séreign hinna einstöku héraða, heldur eru það ráðstafanir alveg út af fyrir sig, sem kæmu, eins og ég minntist á, frá landbn. og hún er að undirbúa. Hitt er allt annað mál, sem ég fer ekki inn á hér, en verður farið inn á siðar, hvort nokkurntíma sé ástæða til að láta greiðslur til bjargráðasjóðs falla niður. En ég vænti þess, að það sé nægilega upplýst, að sú leið, að veita styrk úr bjargráðasjóði, er undir engum kringumstæðum fær og bændum til sama sem engrar hjálpar, og þess vegna verður hún að sjálfsögðu ekki farin.