12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Einar Olgeirsson:

Að því er snertir leyfi manna til að fara af landi burt, þykir mér ekki líklegt, að menn kæri sig yfirleitt um að vera gefnir undir geðþótta gjaldeyris- og innflutningsn., jafnvel þótt hún lofi því að beita valdi sínu með vægð. Ég held, að engar slíkar hömlur við því að menn fari í ferðalög, nái tilgangi sinum. Það á aftur á móti að gera strangar ráðstafanir við gjaldeyrismissi af þessum ástæðum og fjárflótta. Mætti t. d. setja strangari reglur um það, að þegar menn flytja út vörur, þá skuli allur gjaldeyririnn koma til skila. Ég veit til þess, að eftirlit bankanna í þessu efni er lélegt. Það ætti þess vegna að fara lengra í eftirliti með verzluninni, í stað þess að grípa inn á svið persónufrelsis manna, eins og hér er ætlazt til. Yfirlýsing gjaldeyrisn. um, að hún muni ekki beita valdi sínu óvægilega, er ekki treystandi, því að reynslan hefir sýnt, að sjúklingar, sem orðið hafa að leita til útlanda, af því að þeir hafa ekki getað fengið bót meina sinna hér, hafa oft orðið að biða mánuðum saman eftir lítilli gjaldeyrisupphæð frá n.

Þá vil ég snúa mér að hv. þm. G.-K út af því, sem hann sagði í sambandi við Landsbankann. Hann vildi láta líta svo út, sem 1ýsing mín á bankanum og gjaldeyrisástandinu ætti ekki við rök að styðjast og að þar kæmi einungis fram sérskoðun Kommfl. Ég get samt upplýst hann um það, sem hv. þm. þurfa yfirleitt að vita, að reiði almennings út af þessu ástandi er allt annað en lítil, og eru fylgjendur Sjálfstfl. þar enganveginn undanskildir. Bankarnir, og þá einkum Landsbankinn, bera höfuðábyrgðina á því ófremdarástandi, sem nú ríkir í þessum málum, og vil ég, til að sanna það, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp ofurlítinn kafla úr ræðu, sem samflokksmaður hv. þm. hélt hér í byrjun verzlunarþingsins. Ræðumaður var nú ekki bolsevistískari maður en Björn Ólafsson heildsali, og orð hans eru prentuð í Morgunblaðinu 26. okt. þ. á.:

„En gjaldeyrisástandið er nú verra en nokkru sinni fyrr. Daglega er synjað um yfirfærslur fyrir vörur, sem fluttar hafa verið inn samkv. leyfi nefndarinnar.

Fjöldi innflytjenda stendur nú í óbættri sök við erlenda viðskiptamenn, vegna þess, að vörurnar hafa verið fluttar inn og fengnar að láni í trausti þess, að þær fengjust greiddar. Víxlar á stofnanir ríkisins hafa umvörpum verið afsagðir og endursendir með þeim skilaboðum, að ekki sé unnt að greiða þá. Það þarf ekki að lýsa því, hvaða álit þetta skapar erlendis. Gagnvart útlöndum er þetta ríkisgjaldþrot í lítilli mynd, en af verstu tegund og sem fréttist fljótt.

Þetta ástand verður að gerbreytast nú þegar, því að öðrum kosti fá Íslendingar á sig stimpil skrælingja í fjármálum í augum erlendra þjóða“.

Svona hljóða þá orð þessa samflokksmanns form. Sjálfstfl. Og ég verð að segja, að þetta er álit fjöldans af kaupsýslumönnum hér og einnig margra, er starfa að samvinnumálum, því að oft eru kaupfélögin látin sæta sömu kjörum af hálfu Landsbankans og einstakir kaupsýslumenn. En þessar aðfarir bankastjórnarinnar eru óverjandi, og er ekki rétt að bera af henni blak í þessu efni. Hinsvegar veit ég, að hv. þm. G.-K. hefir sínar ástæður til að vilja hlífa stjórn Landsbankans. En þar er hann þó í andstöðu við meginhluta landsmanna og einnig margt sjálfstæðisflokksmanna. Það eru hans sérástæður, sem hér koma til greina.