04.11.1937
Neðri deild: 19. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

55. mál, möskvar fisknetja og lágmarkslengd á fiski

Pétur Ottesen:

Ég heyrði ekki, hvað hv. frsm. sjútvn. í þessu máli var að tala um, en hann sagði þó, að þetta mál væri friðun Faxaflóa óviðkomandi. Það nær engri átt, því að þetta er einn liður í því mikla verki, sem fyrir liggur, að fá aukna friðun á okkar fiskimiðum, þó að svo vilji til, að þetta mál, stækkun möskva, hafi ekki þýðingu fyrir okkur Íslendinga, eins og löggjöf er háttað hér hjá okkur.

Það er alveg rétt, að í þeirri þáltill., sem fyrir liggur um þetta efni, er gert ráð fyrir, að Íslendingar leiti upptöku í alþjóða hafrannsóknaráð, og er þess að vænta, að þær vísindalegu rannsóknir, sem framkvæmdar verða í þessu efni, feli í sér úrlausn fyrir okkur í þessu máli. Ég tek því fullkomlega undir það, sem þar er sagt um þessi atriði. Hinsvegar er fullkomin ástæða fyrir okkur, þegar við erum komnir inn á þessa braut, að gjalda varhuga við því hér á þingi og í öllum ráðstöfunum ríkisstj. og annara, að neitt það verði gert, er torveldað gæti fyrir okkur þessa leið, eins og því miður hefir verið gert, þó að víðsýni annara á þessu máli og þeirri nauðsyn, sem hér er fyrir hendi, hafi kannske verið meiri en svo, að verði til að leggja stein í götu þessa máls.