12.11.1937
Efri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

68. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

*Magnús Jónsson:

Það er aðeins örstutt. — Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um bæjarsjóð Reykjavíkur og um ríkissjóð, þá er það rétt, en þar er sá stóri munur, að lög bankans setja ekkert mark fyrir því, hvað bæjarsjóður Reykjavíkur geti fengið að láni. Getur vel verið, að það sé ekki sanngjarnt, sér í lagi fyrir ríkissjóð, en það bara er svona. En svo vil ég minna hæstv. ráðh. á, að þótt ríkissjóði sé mikil þörf á yfirdrætti á vissum tímum ársins, þá hefir bæjarsjóður ennþá meiri þörf fyrir það, því að ríkissjóður hefir þó ýmsar tekjur, og það miklar tekjur, sem koma inn jafnt allan ársins hring, en megintekjustofn bæjarins, sem sé útsvörin, kemur ekki fyrr en seinni part ársins. Það er því eðlilegt, að bæjarsjóður Reykjavíkur þurfi meiri yfirdráttarlán part af árinu. Annars hefi ég skýrslu um lausaskuldir hans, og það er satt, að þær eru á því tímabili hlutfallslega meiri en ríkisins, en það er af þessari ástæðu, hvað hann fær margfalt meiri part af tekjunum seinni part ársins.

Hæstv. ráðh. segir, að ekki megi segja, að eignir ríkisins standi á bak við skuldirnar, heldur sé það þjóðin sjálf. Ef maður tekur einstaklinginn, sem ég talaði um áðan, sem á hús í skuld, þá er það ekki aðeins húsið, sem stendur á bak við skuldina, heldur líka maðurinn sjálfur. En ef hann tekur lán, sem stendur í stað, þá er hann að verða fátækari en áður. (Fjmrh.: En ef hann eignast nú aðra eign?). Þá kemur það ekki þessu máli við. því að hann tapar á hinni eigninni fyrir því. — eða ætlar hæstv. ráðh. að bera á móti því, að sá maður, sem á fasteign í skuld, hann sé að tapa, eftir því sem eignin rýrnar, ef skuldin stendur í stað? Hann getur auðvitað verið t. d. kaupmaður og grætt á sama tíma, en ef skuldin, sem fasteignin stendur á bak við, er jöfn, þá er hann að tapa þar, og það var þetta, sem ég átti við, þegar ég sagði, að ríkið væri að tapa, þegar það ætti fasteignir, sem stæðu á bak við skuldir, sem væru alltaf jafnháar, og alveg er eins með einstaklinginn í dæminu, sem ég tók.

Hæstv. ráðh. sagði, að þjóðarauðurinn færi vaxandi. Það er gleðilegt að heyra þetta. Við höfum þetta ekki gert upp, en því miður verð ég að draga þetta í efa. Þetta kann að vera, en það hefir þó virzt á þessum síðari árum, að t. d. skuldir við útlönd hafa farið stórkostlega vaxandi. Ákaflega margt af verðmætum þjóðarinnar. t. d. .skipaflotinn, hefir gengið úr sér, vörubirgðir miklu minni en áður, og ég er alls ekki farinn að sjá, að bak við þetta séu svo mikil ný verðmæti, að þjóðarauðurinn hafi vaxið. Ég er hræddur um, að hann hafi ekki vaxið, heldur minnkað. a. m. k. hefir þetta ekki verið gert svo upp, að menn viti það með neinni vissu. Hæstv. ráðh. gat um, að verksmiðjur hefðu verið reistar, — en standa ekki útlend lán meira og minna þar á bak við? Og ekki er það auðsældarlegt frv., sem nú er fram komið á Alþingi um að menn séu ófrjálsir að því að fara úr landi nema eftir nákvæma skoðun. Annars er sannleikurinn sá um þjóðarauðinn, að hann hefir aldrei verið gerður upp með neinni vissu, og því síður að menn viti, hvort hann minnkar eða vex ár frá ári, og er því ekkert hægt að segja um, hvort hann fer vaxandi eða ekki.

Þetta er aðeins stutt aths., og ég verð því að fara að hætta. Ég er sammála hæstv. ráðh. og hv. 9. landsk., að fjárl. á að afgr. tekjuhallalaus. En ég vil bæta við, að það er bara ekki nóg, heldur verður að afgr. þau svo, að ríkisreikningarnir á sínum tíma sýni ekki tekjuhalla, og ég efast um, að eins og nú er komið verði fjárl. afgr. á forsvaranlegan hátt með því að auka skatta. Ég efast líka um, að hægt sé lengur að afgr. fjárl. þannig, að árið á eftir komi út tekjuhallalaust, nema með því að láta mætast frá báðum endum, lækka útgjöldin og bæta eitthvað upp með sköttum. Það er ákaflega stórt atriði, hvernig þessum jöfnuði er náð, og hvort honum er náð á þann hátt, að hægt sé að rísa undir.