17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

10. mál, fasteignamat

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það hefir ekki unnizt tími til þess fyrir fjhn. að athuga brtt. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 121, og einstakir nm. hafa þar að sjálfsögðu óbundnar hendur. Frá mínu sjónarmiði get ég tekið fram, að ég álít þær a. m. k. óþarfar og að frv. batnaði ekki við það, ef þær yrðu samþ. Þó að yfirfasteignamatsnefnd leggi grundvöllinn að matinu með því að meta nokkrar fasteignir fyrst, sé ég alls enga hættu í því, og varla hægt að neita hinu, að með því fáist aukið öryggi fyrir því, að samræmi náist um allt land. Hv. 1. þm. Reykv. taldi nú þegar fenginn góðan grundvöll undir vel samræmt mat, en það er því miður ekki rétt. Mér er kunnugt um það, að enn er mesta misræmi milli fasteignamatsgerða, ekki aðeins milli héraða, heldur innbyrðis milli sveita og í sama héraði og einstakra jarða. — Um leið og ég mótmæli þeirri fjarstæðu, að ákvæðið verði til þess, að yfirmatsnefnd ráði matinu algerlega, verð ég að segja, að það er nauðsyn, að hún fái betri tök á því en nú að leiðbeina undirnefndunum um það, hvernig þær eiga að haga sínu starfi.

Síðari brtt. felur í sér rétta hugsun. En ég álít auðvelt að ná því, sem þar er aðalatriðið, án þess að breyta frv., — en það er að sami maður sitji ekki bæði í undirnefnd og yfirnefnd til að fjalla um sama matið. Mér finnst sjálfgefið, að þegar yfirmats er krafizt á fasteign í Reykjavík, sé varamaður til kallaður í stað formanns yfirfasteignamatsnefndar. Til þess þarf enga breyting á frv., og þá er langtum betra að komast hjá að gera hana vegna þeirra fáu tilfella, þegar starf formanns í yfirnefnd rekst á þátttöku hans í undirnefnd Reykjavíkur. Og það er nauðsynlegt, að 3 menn framkvæmi mat hér í Reykjavík, en ekki 2, eins og yrði samkv. síðari brtt. Ég legg ekki áherzlu á það, hvort þessi brtt. verður felld eða ekki, en ég mun greiða atkv. móti því að fella niður þennan greinarhluta úr frumv.

Þá vil ég leyfa mér f. h. n. að bera fram skrifl. brtt. um að lagfæra orðalag á 2. brtt. á þskj. 122, um það, að síðustu orðin „eða ekki“ falli burt. Þau virðast óþörf.