17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

10. mál, fasteignamat

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég vil aðeins segja nokkur orð út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. Það verður hann að aðgæta, að það gagna engin svigurmæli um, að matið sé á góðum grundvelli, þó að fyrri brtt. hans gangi fram. Því að hann veit, að svo misjafnt varð matið síðast (1930), að í einni sýslu varð að lækka það um 35% til að fá samræmi í fasteignamat á öllu landinu, og þó mun sú lækkun hafa verið of lítil. Hvaða trygging hefir hv. flm. brtt. fyrir því, að þetta endurtakist ekki 1940, ef ekki er séð ráð við því? — Ég er ekki viss um, að tími vinnist til þessa undirbúningsmats, áður en aðalmat hefst, en ég vil láta það komast í lögin nú. Það má einu gilda, hvaða ráðh. það verður, sem fyrstur á að framkvæma þetta, ef lögin ákveða það.

Það er tilgangslaust fyrir hv. þm. (MJ) að tala um þá hættulegu braut, ef yfirmasteignamatsnefnd, skipuð af fjmrh., eigi að leggja grundvöllinn að matinu um allt land, því að niðurstaðan verður hin sama, þó að undirnefndum sé lofað að setja sér grundvöll 35% ofan eða neðan við önnur héruð og yfirnefndin samræmi svo á eftir. Yfirnefndin verður að ráða hæð matsins hvort sem er.

Hv. þm. var sannfærður um, að það þyrfti 3 menn til að framkvæma mat hér í Reykjavík, og þess vegna skildist mér hann leggja svo fast að hv. þdm.samþ. sína síðari till., sem leiðir af sé:, að 2 menn yrðu að framkvæma hér mat. Hvort vill hann þá í rauninni heldur, brtt. sína eða ákvæði frv. um 3 menn? — Eftir því sem ég hefi kynnt mér, þá eru málskot til yfirfasteignamatsnefndar sárfá hér í Reykjavík, ég held ein 12 eftir síðasta mat. Það yrði enginn óskaplegur kostnaður, þó að varamaður þurfi að koma í formanns stað í þeim tilfellum, þó að hann fengi kannske 10 kr. fyrir fundinn. — Þó að nægjast megi með 2 menn við millimöt úti um landsbyggðina, þá er það ófært hér, þar sem svo mikið er um að vera — svo mikið byggt á ári hverju.