19.11.1937
Neðri deild: 30. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

95. mál, kaup á Reykhólum

Flm. (Bergur Jónsson):

Hér er um að ræða heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa jörðina Reykhóla í Reykhólasveit, og ef ekki takast samningar, að taka hana eignarnámi samkvæmt gildandi l.

Eins og kunnugt er, þá hefir þessi jörð verið eitt af aðalhöfuðbólum hér á landi frá því að land byggðist. Auk þess að þessi jörð er sérstaklega stór og ágæt til ræktunar, þá hefir hún að geyma óvenjumikinn jarðhita. Eins og kunnugt er, þá hefir töluvert verið gert að því, að hið opinbera reyndi að ná í sínar hendur þeim eignum í landinu, þar sem sérstaklega mikið er um jarðhita. Þarna eru 20 til 30 hverir og laugar, sem munu nægja til þess að hita upp þau hús, sem kunna að verða byggð á jörðinni, auk þess, sem reka má jarðyrkjuframkvæmdir í sambandi við jarðhitann og koma upp stórkostlegri garðrækt.

Það stendur svo illa á með jörðina, að hún hefir níðzt niður um langan tíma og er orðin húsalítil eða húsalaus, þar sem hún er ekki í sjálfsábúð og enginn hefir búið á henni, sem hefir haft nægilegan kraft til þess að gera jörðinni þau skil, sem nauðsynlegt er.

Því miður getur hreppsfélagið ekki keypt jörðina af eigin rammleik, og þess vegna er nauðsynlegt, að ríkissjóður geri þetta. Það er enginu vafi á því, að þarna er um óvenjugóð skilyrði að ræða til þess að koma upp samvinnubyggðum og nýbýlastofnun.

Ég vil einnig geta þess, sem tekið er fram í grg. frv., að til Alþ. hefir komið áskorun frá Ungmennasambandi Breiðfirðinga um að koma upp héraðsskóla á þessum stað. Ég vil ekki fara fram á það við Alþ. nú eins og stendur, að reistur sé þar skóli. En það er mjög heppilegur tími núna til þess að fá jörðina keypta, þar sem hún er í eigu dánarbús með fjölda af erfingjum, svo að hún sé opinber eign, þegar til þess kemur, að ríkið sér sér fært að reisa þar einhvern skóla, hvort sem það yrði héraðsskóli eða einhver annar skóli. Yfirleitt eru þar hin beztu skilyrði til alls mögulegs landbúnaðarrekstrar, og svo til þess að koma upp opinberri stofnun, svo sem t. d. skóla.

Ég votta, að málinu verði vel tekið af hv. d. og því verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og allshn.