09.12.1937
Efri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

95. mál, kaup á Reykhólum

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta mál hefir legið fyrir allshn. í þessari d., en það tókst svo til, að það voru ekki mættir á fundi n. nema 2. hv. 11. landsk. var ekki mættur, svo að það er aðeins meiri hl., sem mælir með þessu frv., en

hann mun gera grein fyrir sinni afstöðu til málsins. Þetta mál er komið frá Nd., og eins og í grg. frv. segir, er tilætlunin, að ríkið kaupi þessa jörð. Ég hygg, að í raun og veru sé ekki mikill ágreiningur um þetta. Till. sem þessi hefir legið fyrir þingum hér áður, og virtist mér þá nokkurnveginn almenn skoðun, að þetta gamla óðalssetur, sem því miður mun ekki vera setið eins og því sæmdi, komi nú í eign ríkisins. Hafa komið fram ýmsar till., til hvers skuli nota það. En í byggðarlaginu sjálfu mun efst sú stefna, að þarna sé vegna ýmissa landkosta tilvalinn staður fyrir samvinnubyggð. Ég hefi að vísu ekki með eigin augum séð þessa jörð, en það hafa ýmsir sagt mér af henni. Ég hefi einnig leitað upplýsinga í fasteignamatinu, og skal ég gera grein fyrir því, sem segir í matinu frá 1930: 15 ha. tún, og töðufengur 800 hestar, útheysfengur 450 hestar, garðávextir munu vera um 15 tunnur, hlöðurúm 750 hestar. — Á jörðinni hafa þá verið 7 kýr, 550 fjár og 25 hross. — Þetta mun nú vera á höfuðbólinu sjálfu, en því fylgja ýmsar hjáleigur, sem ekki eru taldar með. Þessari jörð fylgja ýms mikil hlunnindi, eins og dúntekja, silungsveiðar, skógarhögg og fuglatekja, og að síðustu er þarna heitur hver í túnjaðrinum, sem er talið nú ekki sízt til kosta á mati landverðsins, sem er talið 33 þús. kr., en húsaverð þarna er metið 2200 kr. Mér hefir verið sagt, að öll bæjarhús séu þar mjög í niðurníðslu. Nú fer þetta frv. fram á að veita heimild til að kaupa þessa jörð, ef samningar takast um kaupin. Og mér er kunnugt um það meðal annars, að þar reki nokkuð á eftir, að margir eru þarna erfingjarnir á þessu óðalssetri og sé því erfitt að skipta á milli þeirra verðmæti þessu. Þetta er náttúrlega aukaástæða. Ég fyrir mitt leyti mæli með því, að þetta frv. verði samþ. á allt öðrum grundvelli. Ég tel, að það sé um svo mikið kostaland hér að ræða, og möguleikar fyrir þá, sem hafa getu, að reisa þarna stórbú, og jörðinni verði sýndur sá stóri sómi, sem henni hefir borið frá ómunatíð.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv., og meiri hl. mælir með því, að það verði samþykkt.