08.12.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

1. mál, fjárlög 1938

*Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Þrátt fyrir það þótt ætla mætti, að störf fjvn. birtist að miklu eða öllu leyti í brtt. þeim, sem n. hefir lagt fram ásamt nál., þá er það nú ekki svo, því að mikið af þeim tíma, sem n. hefir varið til þess að yfirfara fjárlfrv., hefir farið í það, að tala við forstjóra ýmsra stofnana, og mun ég víkja nánar að því siðar. Fjvn. hefir haldið rúmlega 50 fundi, og sumir hafa staðið yfir margar klst. — Ég vil taka það fram, að nefndarmenn hafa, eftir því sem mér hefir virzt, verið einhuga í því að láta gott af sér leiða og að árangurinn gæti komið fram í myndarlegri afgreiðslu fjárl. Öllum hv. þm. er það ljóst, hversu erfitt það er að mæta til nokkurrar hlítar þeim útgjaldaþörfum, sem yfirleitt eru fyrir hendi, og hinsvegar að afla þeirra tekna, sem þarf til þess að standa straum af gjöldunum. Það hefir ekki verið ágreiningur um nein veruleg atriði í n., enda hafa hæstv. ráðh. unnið að því, annarsvegar með mér og hinsvegar í n. sjálfri, að reyna að miðla fjárlögunum þannig milli héraða, að sem réttast mætti vera, og svo framarlega sem hv. þm. hafa rætt við aðra hv. nm. um sín áhugamál, þá hefir verið gert allt, sem í valdi n. stendur, til þess að taka óskir þeirra til greina, að svo miklu leyti sem n. hefir álitið að þær snertu beint eða óbeint þarfir landsmanna, en það má að sjálfsögðu segja um allar þær óskir og till., sem hv. þm. bera fram. Þrátt fyrir það, að ekki hefir komið fram verulegur ágreiningur í n., hafa hv. sjálfstæðismenn samt sem áður ritað undir með fyrirvara. Ég skal játa, að mér þótti það töluvert miður, af því að ég átti þess tæplega von. Ég hafði t. d. lagt á mig nokkuð mikla vinnu til þess að reyna að mæta óskum manna, en þrátt fyrir óskir mínar til samnefndarmanna minna, hv. sjálfstæðismanna, um að gera grein fyrir fyrirvara sínum, hafa þeir ekki viljað gera það skriflega, en að sjálfsögðu kemur hann fram í umr. hér á eftir. Það, sem okkur sem meiri hl. skipum, þótti sérstaklega illt við þetta, er það, að við erum óvísari eftir en áður um það, hvernig sjálfstæðismenn kunna að greiða atkv. um einstakar till. hér í sjálfu þinginu. Hygg ég þó, að n. fylgist yfirleitt að um þær till., sem hún afgreiddi, og ég vantreysti hv. sjálfstæðismönnum, sem í fjvn. eru, ekki í því, að þeir reynist öðruvísi í hv. d. en í fjvn.

Fjárlfrv. kom frá ríkisstj. með 487100 kr. rekstrarafgang, og tekjurnar eru þannig áætlaðar, að ekki má telja varlegt að hækka þær neitt verulega, enda hefir n. ekki gert það enn sem komið er, aðeins lítilsháttar, um ca. 70 þús. kr., að frádregnum þeim lækkunum, sem hún hefir gert á einstökum tekjuliðum. Ég vil ekki fullyrða við þessa umr., hvort hækkunartill. kunna að koma fram við einstaka liði ennþá, en mér lízt þannig á að það muni ekki geta orðið neitt verulegt. Brtt. fjvn. bera þetta með sér, ef þær eru bornar saman við sjálft frv., og skal ég því ekki eyða fleiri orðum í þetta. Þó að ætla mætti að n. hefði ekki hækkað verulega útgjaldaliðina, þá er það þó hv. þm. ljóst, að slíkt er algerlega óhjákvæmilegt og er í fullu samræmi við óskir þeirra sjálfra. Hækkunartill. n. eru rúmlega ca. 800 þús. kr., og þegar tekið er tillit til tekjuafgangsins, sem var á frv. frá hendi ríkisstj., þá verður rekstrarhallinn nú 260 þús. kr. Ég mun í lok ræðu minnar gera nánari grein fyrir þessu á þann hátt að skýra frá hækkuninni á hverri einni gr., og loks vil ég gefa samandregið yfirlit. En eins og frv. lítur út nú, þá er greiðsluhallinn um 1½ millj. kr. Sá halli stafar ekki eingöngu, eins og áður er tekið fram, af hækkunum n., heldur var greiðsluhallinn á frv. ríkisstj. 726 þús. kr., eða rúmlega það. Til þess að mæta þeim hækkunum, sem þegar eru orðnar, benti n. á þau tekjuöflunarfrv., sem nú liggja fyrir þinginu og eru enn óafgreidd, og nema þau um 1350 þús. kr., eða um 130 þús. kr. lægri upphæð heldur en þarf til þess að mæta þeim halla, sem er án tillits til þessara frv., og þeir liðir, sem þá vantar, er sérstaklega fjárpestin og nokkrir liðir fleiri, sem ég mun víkja að síðar í ræðunni.

Þá ætla ég að víkja aðeins að ríkisstofnununum. Um þær er nokkuð mikið deilt út frá sjónarmiði stjórnmálafl., en ég mun ekki fara út í það hér. N. er algerlega sammála um viss atriði í sambandi við ríkisstofnanirnar; í fyrsta lagi, að það sé nauðsynlegt að hafa samræmi í launagreiðslum, en það er ekki svo sem skyldi; í öðru lagi, að ekki komi til mála, að forstjórar fjölgi skrifstofufólki né breyti launakjörum þess án þess að samþykki hlutaðeigandi ráðh. komi til. Í þriðja lagi er n. sammála um, að eftirvinna verði felld niður svo sem verða má. Ástæðan er sú, að það er ekki gott skipulag frá neinn sjónarmiði, að starfsmenn í skrifstofum eða við aðra vinnu þurfi að vinna fram yfir ákveðinn tíma, sem miðað er við. Án þess að fara frekar út í þetta skal ég þó geta þess, að sennilega er mjög illt að komast hjá eftirvinnu við eina ríkisstofnun, sem sé pósthúsið hér í Reykjavík, en n. hefir dottið í hug, hvort ekki væri hægt að hafa vaktaskipti við vinnuna, þannig að enginn maður ætti þá yfir höfði sér að vinna lengri tíma en laun hans eru miðuð við. Þá er það í fjórða lagi álit n., að það sé yfirleitt óviðkunnanlegt fyrirkomulag, að launa aukastörf við sömu stofnun, sem hlutaðelgandi starfsmaður er fastur hjá. Í fimmta lagi var n. sammála um að forðast útgjaldaliði, sem mögulegt er að komast hjá, og stendur það sérstaklega í sambandi við ríkjandi atvinnuleysi og fjárþröng. Það, sem sérstaklega hefir verið deilt um í sambandi við ríkisstofnanirnar, að því er mér virðist, er starfsmannafjöldinn og launaupphæðin. Hvað starfsmannafjöldann snertir, þá hygg ég, að það sé ekki rétt, að þessu sé meira ábótavant hjá ríkisstofnunum en hvar sem er. Ég býst við, að bæði atvinnurekendur einkafyrirtækja og forstjórar ríkisstofnana teygi sig eins langt og hægt er í því að veita fólki atvinnu. Um hitt atriðið, launaupphæðina, vil ég aðeins gefa ofurlitla skýrslu. Ég tek einstaka stofnanir, og hefi ég tekið meðallaunin til þess að gefa hv. þm. dálitla hugmynd um launaupphæðina. Laun forstjóra ríkisstofnananna eru ekki talin með, og ekki heldur þeirra, sem hafa undir 2000 kr. í laun, t. d. sendisveina og annara, sem ekki eru fastir starfsmenn með normölum launum. — Áfengisverzlun ríkisins greiðir til jafnaðar 3700 kr. í árslaun. Tóbakseinkasala ríkisins 3981 kr. raftækjaeinkasalan 4800 kr. og tryggingarstofnun ríkisins um 6233 kr. Þarna hefi ég eiginlega sannað tvennt af því, sem ég hefi þegar drepið á; í fyrsta lagi, að það er nokkurt ósamræmi í launagreiðslum þessara stofnana, og í öðru lagi, að það er ekki réttmæt ásökun, að launagreiðslurnar séu óhæfilega háar hjá þessum stofnunum. Þá tek ég menntaskólana í Reykjavík og á Akureyri. Kennarar við menntaskólann í Reykjavík hafa 4640 kr. í meðallaun, og eru rektorarnir meðtaldir í báðum tilfellunum, en ekki risnufé þeirra. Við menntaskólann á Akureyri eru meðallaun kennaranna 4515 kr. Þessi laun, sem greidd eru við menntaskólana, eru dálítið hærri en lægstu meðallaun hjá ríkisstofnununum, en töluvert lægri en þau hæstu. það má heita, að t. d. raftækjaeinkasalan launi sínum mönnum til jafnaðar heldur betur en menntaskólarnir kennurum sínum, þar sem raftækjaeinkasalan greiðir 4800 kr. á ári, en menntaskólarnir 4640 kr. annar, og hinn 45l5 kr. Í þessu sambandi vil ég aðeins geta þess, að það er ekki óeðlilegt, þó að menn, sem hafa varið löngum tíma til skólagöngu og gegna vandasömu starfi, sem þekkingu þarf til að inna af hendi, eins og kennarar verða að gera yfirleitt, séu óánægðir með að hafa ekki betri kjör en menn, sem gegna störfum, sem ekki útheimta sérþekkingu.

Þá hefi ég tekið barnakennarana, vegna þess að það hefir verið dálítið um þá deilt, og sérstaklega hefi ég persónulega orðið var við, að menn hafa álitið, að fræðslul. frá 1936 hafi valdið gífurlegri hækkun á launum kennara, og má vera, að þau hafi hækkað nokkuð, en aðalhækkunin stafar þó af því, að starfstími kennaranna hefir verið lengdur. Ég leyfi mér að fullyrða, að sú ósk sé mjög almenn nú, að börn séu sem lengst undir handarjaðri skóla og kennara, og ég verð að líta svo á, að það sé ráðlegt fyrir heimilin að krefjast þess, að kennarar og skólar séu teknir sem mest til samstarfs við heimilin um uppeldi barnanna, og með það fyrir augum barðist ég mikið fyrir frv. á þinginu 1936, sem síðar varð að l. Barnakennarar í Reykjavík hafa að meðaltali í laun 1745 kr., í kaupstöðum utan Reykjavíkur 1941 kr., utan kaupstaða 1816 kr., og farkennarar hafa að meðaltali 570 kr. Þess skal getið, að þessi laun kennara í kaupstöðum, sem eru framlag ríkisins, eru 1/3 af grunnlaunum ásamt þeim hluta dýrtíðaruppbótar, sem ríkið leggur til, og við það bætist svo 2/3 úr bæjarsjóði. En laun kennara utan kaupstaða, sem hér eru nefnd, eru framlag ríkis að viðbættri dýrtíðaruppbót ríkisins, eða helmingur grunnlauna, og kemur svo helmingur á móti úr sveitarsjóði. Hér eru þó farkennarar ekki taldir með.

Laun þau, sem Reykjavík greiðir sem nokkurn hluta dýrtíðaruppbótar, eru ekki talin hér með, þannig að kennarar í Reykjavík fá samtals 40% í dýrtíðaruppbót, svo að þeir verða þrátt fyrir allt hæst launaðir af öllum kennurum. Ef tekið er meðaltal af þessum 4 fl. barnakennara, þá verða árslaunin 1431 kr. Það hefir verið deilt töluvert um það, að þessi stétt þjóðfélagsins væri óhæfilega dýr, en það stafar af því, að vinnutíminn er langur og stéttin er mannmörg, og þeir mega sjálfum sér um kenna, sem börnin eiga og þurfa á kennurunum að halda.

Þá ætla ég næst að víkja að brtt. sjálfum, og skal ég stytta mál mitt í sambandi við þær. Í fyrsta lagi er engin ástæða til þess að hafa hér yfir aftur það, sem stendur í nál. Í öðru lagi er engin ástæða til að fara að tala um brtt., sem fela í sér sjálfum, ef þær eru lesnar yfir, hvað á bak við breyt. felst. Um 2. gr. er ekkert að segja umfram það, sem ég hefi áður sagt.

Í sambandi við 3. gr. vildi ég í fyrsta lagi minnast á póstflutningana. Það hefir verið sett sú kvöð á skip og báta, sem njóta styrks frá ríkinu, að þeir séu skyldugir til að flytja póst endurgjaldslaust, en þetta hefir þó alls ekki verið framkvæmt nema að litlu leyti. Stærstu skipin, eins og skip Eimskipafélags Íslands og ríkisskipin, munu taka gjöld fyrir sinn póstflutning, en smærri bátar, flóabátar, hafa flutt póst fyrir ekkert. Mér finnst rétt, og n. er sammála um, að það sé rétt, að slík skip og bátar flytji póst fyrir ekkert, en flutningurinn að og frá skipsfjöl kosti hlutaðeigandi útgerðarfélög peninga, og n. er sammála um, að skip, sem flytja póst endurgjaldslaust, séu ekki háð þeirri kvöð að greiða úr sínum sjóði fyrir póstflutning.

Þá er það 2. liður við 3. gr., það er viðhald landssímans, 21. brtt. Þessi tala sýnir ekki alveg rétt, hvað ætlað er til viðhaldsins eins. Það má segja, að það sé líka endurbót símans, og vil ég geta um sem dæmi, að grafa verður símann í jörð sumstaðar, í stað þess að hafa bann á staurum; það er ekki annað en endurbót. Þetta er mikil endurbót og kostar mikið fé, og hefði átt að vera í öðrum lið, en móti því mælir það, að ekki er hægt að segja um, hve löng lina verður lögð í jörð. Ýmsir hafa rekið augun í þennan lið og þótt hann hár, og vildi ég því gefa þessa skýringu, að mikið af fénu fer í endurbætur. Ég vil geta þess viðvíkjandi 24. brtt., að búizt er við, að hægt verði að skipta þeirri upphæð niður á símalínur, sem lagðar verða á árinu, fyrir 3. umr.

Þá er hér nýr liður, 25. brtt., loftskeytastöðvar í skip og talstöð við Hvítárvatn. Loftskeytastöðvar í skip er krafa, sem nútíminn gerir og verður að teljast sjálfsögð. Um talstöðina við Hvítárvatn er það að segja, að nú þegar kominn er þangað bílfær vegur, er ferðamannastraumur einna mestur þangað, svo næstum má telja talstöð þar óhjákvæmlega.

Þá er 32. brtt., til útvarpsstöðva í lið 1, á að hækka um 50 þús. kr. Er það vegna stækkunar á útvarpsstöðinni í Reykjavík og endurvarpsstöðvar, sem reisa á á Austurlandi. Í þessu er enginn stofnkostnaður; hann er öðruvísi byggður upp, og hefir verið tekið til hans lán. Þessi hækkun er næstum eingöngu vegna aukinnar raforkueyðslu og vegna þess, að byrja á með tilraunaútvarp í apríl næstkomandi, og svo er ætlazt til, að stöðin hér í Reykjavík verði stækkuð fyrir næsta vor. Hefi ég það eftir fagmönnum útvarpsins, að líklegt sé, að þessi liður hækki í framtíðinni, þ. e. lampar eru dýrir, en kaup á þeim ekki nauðsynleg í þetta sinn.

Ég vil geta um 36. brtt., um landhelgisgæzlu. Þessi liður hækkar um 30 þús. kr.; þar eru innifaldar í landhelgisgæzlunni hafrannsóknir vegna friðunar Faxaflóa, og skal ég geta þess, að forstjóri skipaútgerðar ríkisins sagði, að þetta mundi ekki nægja til þess að senda varðskipin til rannsókna í Faxaflóa, — hver ferð kostar 5 þús. kr. og er gert ráð fyrir fjórum ferðum. Þar að auki þarf að setja tilraunaklefa í „Þór“, og gat hann ekki lofað n. að gera þetta nema að til kæmi sérstök fjárveiting.

Um næsta lið, hegningarhúsið í Reykjavík, er getið í nál., og um vinnuhælið er það að segja, að ekki hefir verið búið að því með fjárveitingu sem skyldi. Þess er krafizt af forstöðumanni þess, að hann taki við mönnum héðan, sem bíða dóms og ekki er rúm fyrir í hegningarhúsinu, eða ekki eiga þangað að koma. Ekki er heldur hægt að taka alla, sem óska að fara þangað. — Þá er vinna fanganna á hælinu. Menn hafa heyrt, hvað talað er um, að ala megi þá upp með vinnu, og verður hún að teljast líklegasta meðalið til að koma þeim upp úr þeirri niðurlægingu, sem þeir eru sokknir í. En að fara með þá út fyrir hælið er nokkuð kostnaðarsamt. Það verður að byggja yfir þá sæmileg skýli, og flytja þá heim að hælinu um hverja helgi, sem er afarmikill kostnaður að. Væri athugandi, hvort ekki er hægt að láta þá vinna þar heima við, bæði að landþurrkun o. fl., þeir hafa grafið stórt holræsi og byggt sjávargarð, og hefðu gert meira, ef fjárveiting hefði hrokkið til. Er því lagt til, að fé til verklegra framkvæmda verði hækkað í 20 þús. kr., enda þótt það muni varla hrökkva til.

Breyt. n. viðvíkjandi sjúkrahúsunum er byggð á reynslu ársins 1936, og þó sérstaklega ársins 1937, sem hægt er að sjá nokkurveginn. Hækkunin er aðallega falin í verðhækkun matvæla og upphitunar, kolin hafa stigið mikið og matvælin einnig, svo og nokkrar launahækkanir. N. sér sér ekki fært að mæta þessari sífelldu þenslu á kostnaði sjúkrahúsanna á annan hátt en að hækka daggjaldið, og hefir gert till. til hlutaðeigandi ráðh. um, að það væri athugað.

Ég vil aðeins leiðrétta í 55. brtt. um læknisbústaði og sjúkraskýli; þar stendur, að þar af skiptist l0000 kr. sem fyrri greiðsla milli þessara staða, o. s. frv. Það er ekki rétt; það er allur liðurinn, samtals 11 þús., sem á að skiptast milli þessara staða, sem hér eru taldir, og eru fyrri greiðslur.

Í sambandi við sjúkraskýlið á Eyrarbakka vil ég geta þess, að hreppurinn hefir keypt steinhús, sem stendur autt, í þessu skyni, en þessi fjárveiting er því skilyrði bundin, að hreppnum sé ljóst, að hann verður sjálfur að standa straum af rekstri sjúkraskýlisins, þegar búið er að koma því upp.

Þá vil ég geta um 56. og 57. brtt. Um þá fyrri er það að segja, að n. lagði hana fyrir landlækni, og lagði hann til þessa niðurfellingu aths. Hin greiðslan fellur niður af sjálfri sér, þar sem sr. Jakob Lárusson er dáinn.

Vega- og samgangnamálið mun vera það mál, sem hv. þm. hafa mestan áhuga fyrir, sérstaklega þeir, sem eru fulltrúar dreifbyggðanna, og till. um nýja vegi og fjárhæðir, sem veittar eru til hvers vegar, bæði í frv. og brtt., eru eftir samkomulagi milli hlutaðeigandi þm. og n. annarsvegar, og hinsvegar byggðar á till. vegamálastjóra. Ég skal geta þess, að fjárhæðirnar til hvers einstaks vegar eru í flestum tilfellum samkv. lágmarkstillögum vegamálastjóra, og sýnir það með öðru, að n. hefir verið gætin í sínum till., þar sem forstöðumaður veganna í landinu telur þetta lágmarkstillög. Hinsvegar ber að geta þess, að þm. ættu að líta á þessa hluti með sanngirni, og þeim hlýtur að vera ljóst, að ekki er hægt að veita neitt nálægt þeirri fjárhæð, sem æskilegt væri og veita þyrfti. En öllum er það ljóst, hversu mikla þýðingu samgöngurnar hafa fyrir þjóðarheildina, enda eru þessar upphæðir eftirsóttar, einnig vegna þess, að þetta er atvinnuaukning fyrir fólkið í landinu.

Um hafnirnar vildi ég geta þess, hv. þm. til athugunar síðar meir, að með ýmsum beiðnum, sem fyrir liggja um bryggjur, lendingarbætur eða hafnarbætur, eru umsóknirnar tæplega nógu vel undirbúnar, en fjvn. verður að gera kröfu til, að fyrir liggi áætlun frá vitamálastjóra um kostnað verksins; fyrr getur n. enga ákvörðun tekið.

Hafnirnar eru aðallega í þrem flokkum samkv. l., bryggjur og lendingarbætur gegn framlagi að 2/3 annarsstaðar frá og lendingarbætur gegn jafn háu framlagi annarsstaðar frá. Ég vil geta gamals kunningja hv. þm., brimbrjótsins í Bolungavík. Fjvn. hefir fengið þær upplýsingar, að hann sé í góðu lagi, en sé svo þungur baggi á hlutaðeigandi hreppi, að hann telur sig ekki geta staðið undir honum nema að fá þessa fjárveitingu, sem tekin er í brtt. n. Munu menn óska, að þetta verði síðasta greiðsla til þessa mannvirkis og að það fengi staðizt árásir brims og storma.

Þá kem ég að 14. gr. Svo sem ég hefi talað um áður, er allmikil hækkun á þessari gr. Er þar fyrst till. n. 90, sem er gerð samkv. reynslunni og má eiginlega skoða sem leiðréttingu. Sama er að segja um styrk til iðnaðarmannafélaganna á Siglufirði og Eyrarbakka til skólahalds.

Þá kem ég að launum kennara í föstum skólum, sem hafa farið mjög hækkandi ár frá ári og stafa vitanlega ekki af því, að þessir menn hafi tekið hver um sig svo gífurleg laun, eins og ég hefi þegar sýnt fram á, heldur af því, að skólaskyldualdurinn hefir verið lækkaður og starfstími kennara lengdur og laun hækkað í hlutfalli við það. Vil ég minnast þess í því sambandi, að langt er frá, að kennarar eigi hægt með að fá sér atvinnu yfir sumarið. Vona ég, að hv. þm. virði mér til vorkunnar, þótt ég tali dálítið um kennarana; bæði er mér málið skylt og vel kunnugt. Mér og öðrum nm. kom saman um, að æskilegt væri að grennslast eftir, hvernig gengi um framkvæmd kennaral. frá 1936, sérstaklega að því er snertir barnafjölda á kennara. Fræðslumálastjóri gaf n. upplýsingar í þessu efni, en ég skal geta þess, að þær voru sérstaklega miðaðar við framkvæmd laganna hér í Reykjavík, og ennfremur, að þær voru miðaðar við árið 1936. En í bréfi, sem fyrir framan mig liggur og er frá hæstv. kennslumálaráðh. segir hann, að í bréfaviðskiptum milli sín og fræðslumálastjóra láti fræðslumálastjóri þess getið, að ekki sé hægt að ætlazt til, að fleiri en 45 börn komi á kennara hér í Reykjavík. Hæstv. ráðh. lætur þess getið í bréfi til fræðslumálastj. að hann óski eftir, að viðkomandi skólanefndir athugi, hvort ekki sé hægt að framkvæma framvegis lögákvæðið um 50 börn á kennara, og tel ég, að þetta mál sé á réttri leið. Þó að skýrslur sýni ekki 50 börn á kennara, er ekki ástæða til að æðrast út af því um sinn, því lögin gera ekki ráð fyrir, að kennurum sé sagt upp, heldur ættu smátt og smátt að fást fleiri börn, en fjölgun kennara er stöðvuð í bili. Nú hefi ég látið þessa getið hér af því, að á mig hefir verið deilt persónulega vegna þess, að ég lagði töluvert kapp á að koma frv. fram, og mér væri því skylt að sjá um framkvæmd laganna. Enda er mér það mikið kappsmál, að fræðslumálastjóri reyni að sjá um, að bókstafur laganna verði framkvæmdur að svo miklu leyti, sem auðið er. N. sendi fyrirspurnir til allra barnaskóla á landinu og hefir fengið svör alstaðar að. Er niðurstaðan þessi:

Í Miðbæjarskólanum í Reykjavík eru 35 fastir kennarar, auk tveggja fastra kennara með 2 st. á dag og tíu stundakennarar, 46 börn á kennara. — Í Austurbæjarbarnask. í Reykjavík eru 42 fastir kennarar, auk 5 stundakennara, 42 börn á kennara. — Í barnakólanum í Skerjafirði eru 5 kennarar, auk 5 stundakennara, 53 börn á kennara. — Í barnaskólanum í Laugarneshverfi eru 7½ kennari, auk 4 stundakennara, 52 börn á kennara. — Í barnaskólanum á Ísafirði eru 10 kennarar, auk 70 st. á viku, 40 börn á kennara. — Í barnaskólanum á Siglufirði eru 8 kennarar, auk eins heimiliskennara og eins kennara fyrir vangæf börn, 45 á kennara. — Í barnaskólanum á Akureyri 15 kennarar, auk tveggja stundakennara, 41 barn á kennara. — Í Seyðisfjarðarskóla eru 4 kennarar auk tveggja stundakennara, 36 börn á kennara. — Í Vestmannaeyjaskóla eru 13 kennarar, auk 1 stundakennara, 1 aðventistakennara, 44 börn á kennara. — Í Hafnarfjarðarskóla eru 14 kennarar, auk 1 stundakennara og 3 kennara við katólska skólann, 42 börn á kennara.

Barnafjöldi á fasta kennara er að meðaltali 43. Ef hver kennari hefði 50 börn, yrðu þeir samtals 138, í stað 158, auk allrar aukakennslu, eða 20 færri en nú eru starfandi, og virðist vera hægt að framkvæma 50 barna ákvæðið að mestu leyti, þótt 20 kennarar séu til að mæta væntanlegri barnafjölgun í skólunum, auk þess, að kennarar ganga úr starfi. Laun hafa hækkað í samræmi við lengingu starfstímans; auk þess hafa laun hækkað við kennslu umfram fastakennara.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að fræðslumálastjóri hefir tjáð n., að nokkur vinna sé unnin í skrifstofu hans við að vinna úr prófgögnum utan af landi. Ég er því sammála, að eitthvert eftirlit þurfi að hafa með prófunum, og nokkur hluti þess geti vel farið fram í skrifstofu fræðslumálastj., en ég álít óþarfa að eyða svo miklu fé í það sem gert hefir verið. Mér er sagt, að það hafi farið allt upp í 5 þús. Ég álít, að vinna mætti þetta verk fyrir einar 1500 kr.; það eru hálf kennaralaun eða þar um bil.

Ég býst við, að fræðslumálastjóri gæti fengið tvo eða þrjá kennara til að vinna að þessu yfir sumartímann, þó þeir fengju ekki meira til samans en 10–15 hundr. kr., og ég held, að þeir geti lokið verkinu á þeim tíma.

93. brtt. er um byggingarstyrk barnaskóla utan kaupstaðanna. Það er mikil eftirsókn í það alstaðar á landinu að fá tillag frá ríkinu til að koma upp heimavistarbarnaskólum, sem um leið séu einskonar menningarmiðstöð fyrir sveitina og samkomuhús. Ég vil ekki eyða tíma í það að fara hér að ræða þann meiningamun, sem er manna á milli um það, hvort barnaskólinn og samkomuhúsið eigi að vera sama hús; mér finnst svo mikil fjarstæða, að börn á skólaskyldualdri og foreldrar þeirra og eldri systkini ættu ekki að geta notazt við sama hús til kennslu og skemmtana. Ég hefi heyrt marga segja, að skemmtisamkomur séu svo blæljótar, þá einkum vegna drykkjuskapar, að ekki sé mögulegt að hafa þær í sama húsi og barnaskólann. En mér finnst það vera að beygja kné fyrir ósómanum, ef það á að standa í veginum; það er einmitt sjálfsagt að berjast á móti slíku ófremdarástandi, svo að börn og foreldrar geti einnig verið saman að skemmta sér.

Út frá þessa sjónarmiði er það veruleg bót að fá þessi skólahús út um sveitirnar til að mynda þar einskonar menningarmiðstöð fyrir hvert skólahverfi, og á undanförnum árum hefir ekki verið hægt að fullnægja til nokkurrar hlítar þeim óskum, sem fyrir hafa legið, og held ég, að hv. fræðslumálastjóri hafi gengið of langt í því að lofa greiðslum til þessa, án þess að fjárveiting hafi verið til. Fjvn. hefir lagt til, að þessi liður væri hækkaður um 20 þús. kr. vegna þess, að nú þegar hafa verið byggðir 20 skólar, sem ekki hafa fengið nema hluta af þeim ríkisstyrk, sem þeim hefir verið lofaður, og er sú upphæð áætluð af fræðslumálastjóra 53 þús. kr. Virðist mér því, að þrátt fyrir þessa hækkun geti ekki neinir nýir skólar komið til greina á næsta ári, eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, og er það illa farið. Ég verð því að játa vanmátt minn í því, frá ýmsum sjónarmiðum, að leggja til, að þessi liður verði hærri, í fyrsta lagi vegna þeirra erfiðleika á að fá nægilegt fé í allar þarfirnar, og ennfremur vegna þess, að ég býst við, að menn sjái yfirleitt, að þetta sé þó nokkur bót.

Þá vildi ég beina því mjög alvarlega til þeirra aðilja, sem mest hafa að segja um það, hvaða staðir eru valdir í hverju skólahéraði fyrir skólasetur, að ekki sé veittur styrkur í skóla- byggingar á öðrum stöðum heldur en þar, sem jarðhiti er eða virkjunarskilyrði, ef þess er kostur í nærliggjandi umhverfi. Því að öllum má vera ljóst, hve gífurlega þýðingu það hefir fyrir rekstur slíks skóla í framtíðinni, að þessi skilyrði séu fyrir hendi. En ég þekki dæmi þess, að menn vilja byggja sína skóla á köldum stöðum, þar sem ekki eru virkjunarskilyrði, þrátt fyrir það, þó að nærri liggi heitir staðir og virkjunarskilyrði og jafnvel rafstöðvar.

Þá er 94. brtt. (stofnkostnaður héraðsskóla). Það er gerð allnákvæm grein fyrir þessari brtt. í nál. á þskj. 252. Sé ég ekki ástæðu til að eyða mörgum orðum að þeim brtt. fram yfir það, að vitanlega er sjálfsagt fyrir alla menntunarfúsa og framsýna menn að hlynna að því svo sem verða má, að skólarnir í sveitum landsins geti tekið á móti því fólki, sem í þá vill komast, því að mismunurinn á kostnaði þar og á kostnaði við dvöl í bæjaskólunum er svo gífurlegur. Það er því mikil ástæða til að hlynna að því, að skólar verði reistir á jarðhitasvæðum.

Fyrir liggja nokkrar beiðnir frá héraðsskólum um styrki til stækkunar á þeim og endurbóta á húsakosti þeirra. N. leggur til, að liðurinn til héraðsskóla hækki um 9 þús. kr., úr 19 þús. upp í 28 þús. kr., sem skiptist á milli fjögra héraðsskóla þó að n. sé ljóst, að styrkurinn til Reykjanesskóla í Norður-Ísafjarðarsýslu sé of lítill.

Um skólann á Reykjum í Hrútafirði er það að segja, að hann er aðeins hálfbyggður, og slíkur skóli þarf vitanlega fjárveitingu til þess að verða fullbyggður.

Endurbætur á Núpsskólanum munu einnig vera mjög nauðsynlegar; og þessi fjárveiting til hans mun aðallega vera gerð í því skyni að bæta úr húsakosti skólans, þannig að kvennemendur þurfi ekki að sofa í einu og sama svefnhýsi sem karlnemendur, sem þar að auki er orðið gamalt.

Reykholtsskóli þarf að stækka sitt kennslupláss vegna vaxtar skólans.

95. brtt., sem er um aukna fjárveitingu til gagnfræðaskóla, er aðeins samkv. reynslu, þ. e. a. s. a-liður. En svo er til. um byggingarstyrk til gagnfræðaskólans á Ísafirði (b-liður). Á Ísafirði er verið að hyggja nýtt hús fyrir gagnfræðaskóla. Og Alþ. hefir tekið upp þá stefnu að taka bæina hvern af öðrum til að styrkja þá til að reisa hús fyrir gagnfræðaskóla. Eitt slíkt hús var reist í Hafnarfirði í haust. Ísafjörður byggir nú nýtt hús til gagnfræðaskólahalds. Allt framlag ríkisins í þetta hús mun nema nálægt 30 þús. kr. Þá eru fleiri slík hús ýmist í byggingu eða í aðsigi um byggingu, og dálítil fjárhæð er t. d. á fjárl. 1937 ætluð til byrjunarbyggingar á Akureyri fyrir slíkan skóla.

Þá er 96. brtt., um unglingafræðslu utan kaupstaða. Þetta er liður, sem væri vel þess vert að hækka meira en gert hefir verið. N. hækkaði hann úr 15 þús. kr. upp í 20 þús. kr. Reynsla áranna 1936 og 1937 sýndi, að þau ár hefði verið þörf á dálítið hærri styrk til þessa. Þetta ætti hverjum hv. þm. að vera ljúft að styðja, þar sem reynt er (fyrir m. a. þetta fé) að halda uppi kvöldskólum eða smáskólum fyrir þá unglinga, sem hvorki eru í barnaskólum né hafa átt kost á að fara á aðra skóla. Það er getið um það í nál. á þskj. 252, hvernig þessir skólar eru styrktir.

Þá kemur loks húsmæðrafræðslan. Laugalandsskólinn tók til starfa í haust. Hann virðist þurfa 10 þús. kr. í stofnstyrk. N. ætlar honum 11 þús. kr. í rekstrarstyrk. En ekki er víst, að þessi liður (21 þús.) standist alveg, þ. e. a. s. ef miðað er við það, sem gert er ráð fyrir, að þörf sé á að veita til húsmæðrafræðslu samkv. frv., sem fyrir liggur um það efni.

Í 99. brtt. er lagt til, að til Staðarfellsskólans verði veittur styrkur til rafstöðvarbyggingar; svo og rekstrarstyrkur, alls 55000 kr. Þá er eitt þús. kr. styrkur til heimavistaríþróttaskólans að Sauðhúsvelli undir Eyjafjöllum. Þetta er e. t. v. vafasamt fordæmi. En þessi skóli mun vera einstæður um fyrirkomulag, eins og sakir standa. Ennfremur er hér smástyrkur til húsmæðrafræðslu Árnýjar Filippusdóttur, sem hún heldur uppi í Hveragerði í Ölfusi, þar sem hún á hús í þessu skyni.

Styrkir til þess að byggja steinsteyptar sundlaugar voru ákveðnir í fjárlagafrv. 5 þús. kr., og undanfarin ár hefir sú upphæð verið veitt í þessu skyni. En þetta er langt of lítið. Eftirsókn eftir slíkum styrkjum er gífurleg. Fjvn. hefir því lagt til, að þessir styrkir yrðu hækkaðir um 5 þús., upp í 10 þús. kr. En mér er alveg fyllilega ljóst, að þessi upphæð er ekki til þess að mæta nema litlum hluta af þeim óskum, sem fyrir liggja um sundlaugastyrki; og þetta mál er eitt af hinum þörfustu málum og þeim málum, sem unga fólkið í landinu og raunar allir hafa mikinn áhuga fyrir. Og ég hygg, að sundíþróttin sjálf og þetta, að áhugi unga fólksins skapast um að mynda sér svona löguð skilyrði, gæti orðið aðallyftistöngin í því að veita hugsunarhætti fólksins úr þeim farvegi, sem hann er allt of mjög kominn í nú, að fólk fari á íþróttamót og skemmtanir til þess að gleðja sig við Bakkus. Að greiða fyrir sundíþróttinni gæti orðið til þess að greiða fyrir slíkri breytingu á hugsunarhættinum.

Þá eru hér tvær smábrtt. Í fyrsta lagi framlag til menningar- og fræðslusambands alþýðu, 2 þús. kr., nýr liður. Ég býst við, að sumir líti hornauga til þessa liðs. En ég verð að segja það sem mína persónulegu skoðun, að hverri kr., sem látin er af hendi til þess að hafa af fyrir atvinnulítilli alþýðu og fólki, sem heldur ekki efna sinna vegna getur farið á skóla, sé vel varið. Og mér er kunnugt um, að erlendar fyrirmyndir eru fyrir þessu, að halda saman svona einskonar leshringum til þess að hafa af fyrir atvinnulausu fólki, sem ekki getur farið á skóla.

Svo er lítil till. til íþróttavallar á Laugarvatni. Þessi liður var í öðru formi í fjárlagafrv. Allt land, sem þarna kemur til greina til að gera að íþróttavelli, er hallandi mýri, sem kostar talsvert að gera að íþróttavelli. Um þetta tillag mætti ég fullkomnum skilningi í fjvn.

104. brtt. er um sandgræðslu. Sandgræðslan er stórmál. Fjárveiting til þeirra hluta hefir verið lægri að undanförnu en þurft hefði að vera. Eftir því sem sandgræðslugirðingunum fjölgar og svæðin stækka, sem þessi umbótastarfsemi nær yfir, eftir því verður viðhaldið vitanlega meira. Og ennfremur er stöðugt óskað eftir nýjum sandgræðslugirðingum, sem hyggist á þeim mjög góða árangri, sem hefir orðið af sandgræðslustarfseminni. Og auk þess sem því fé almennt er vel varið, sem fer til sandgræðslu, þá er sérstaklega gott að fá fé þessum manni í hendur, Gunnlaugi Kristmundssyni, sem farið hefir með það fé, sem varið hefir verið til sandgræðslu, vegna þess, hve vel hann hefir á því haldið, svo að það hefir ekki verið hægt að gera betur. Þessi maður bað um 3500 kr. hækkun á tillaginu, en fjvn. hækkaði liðinn aðeins um 3000 krónur.

Þá er framræsla á löndum ríkisins á Eyrarbakka alveg óhjákvæmileg. En búast má við, að þetta verði nokkuð dýrt verk, vegna þess að það verður að setja ræsi alveg fram í sjó úr mýrunum og hefir þarna nú þegar verið hafin allmikil ræktun. En vegna þess að þurrkun er þarna ekki í eins góðu lagi og skyldi, er aftur farinn að myndast þarna mýrargróður í túnum manna. En ef þurrkun þarna tekst, þá kemur þarna sannarlegt gósenland fyrir þorpsbúa til ræktunar. Ef vel er hlynnt að því ríkislandi, sem þorpið stendur á, þá mun þetta pláss eiga framtið fyrir sér með þeim öðrum atvinnumöguleikum, sem þarna eru fyrir hendi.

Þá er hafin landþurrkun í Ölfusi, í svo kölluðum Ölfusforum, sem allir þekkja, sem er eitt hið mesta uppgripaslægjuland. Kostnaður við flutning á skurðgröfu úr Safamýri vestur í Ölfus er hér tilgreindur 13 þús. kr., vegna þess að taka þurfti hana sundur og gera við hana. En til framræslunnar sjálfrar eru áætlaðar 6 þús. kr., samkv. V. kafla jarðræktarlaga. Samskonar verki er nú lokið í Safamýri í Rangárvallasýslu, og með ágætum árangri, þó því aðeins, að áveiturnar komi á eftir. Í þeim tilgangi að hlynna að áveitum í Safamýri eftir þurrkun eru veittar 4500 kr. í þetta sinn, til þess að gera flóðgátt við Rangá. En veittur verður sennilega 1/3 kostnaðar þessa verks eftir skurðgröfulögum.

Þá er hér 50 þús. kr. fjárhæð ætluð til fyrirhleðslu á Markarfljótsaurum. Vötn Markarfljóts, Álar og Þverá valda og hafa valdið landbroti þarna eystra. Og til þess að koma í veg fyrir skemmdir af þessum vötnum er þessi fyrirhleðsla ætluð. Hin fagra sveit Fljótshlíðin er í allmikilli hættu fyrir þessu landbroti. Hér er að vísu farið fram á talsvert mikla fjárveitingu. En þegar til þess kemur, að hv. þm. ákveða, hvort þeir vilja fylgja þessu, verða þeir að gera upp við sig, hvort þeir vilja láta skeika að sköpuðu um það, hvernig fara muni um örlög þessarar fögru sveitar, eða hvort eigi að reyna að tryggja hana gegn árásum þessara eyðileggingarafla.

106. brtt. er ný, þ. e. a. s. sundurliðunin á framlaginu til rannsóknarstofu atvinnuveganna við atvinnudeild háskólans. En þess skal getið um tekjuliðina, að ekki er gott að fullyrða, hvort fást muni 30 þús. kr. tekjur af matvælaeftirliti, að frádregnum kostnaði. Þetta er í fyrsta sinn, sem þetta hefir verið sett upp, og nokkur óvissa mun vera um tilkostnaðinn.

Í sambandi við þessa gr. vil ég minnast á eitt stórmál, sem er friðun Þjórsárdals í Árnessýslu. Mörgum er það kunnugt, að þessi fagri dalur er nú að mestu orðinn uppblásin auðn. En sérfróðir menn fullyrða, að með friðun einni saman mundi hann gróa upp á fáum áratugum. Í sambandi við þessa friðun kæmi aðeins einn bær til greina, Skriðufell. Og til þess að slík friðun gæti orðið framkvæmd, yrði ríkið að kaupa Skriðufell og girða síðan dalinn af. En á tvær hendur er þegar girðing, annarsvegar Þjórsá og sennilega afréttargirðing Flóahreppanna hinsvegar. Jörðin Skriðufell mun kosta 13–14 þús. kr. eftir fasteignamati. Lántaka þyrfti ekki að vera nein í sambandi við þau kaup, heldur ábyrgð vegna áhvílandi skulda. Svo kemur til greina girðingarkostnaður, sem telja má lítinn í samanburði við það landflæmi, sem þarna mundi afgirðast. Og ef litið er á aðgerðir vegna fjárpestarinnar, þá mundi sparast með friðun Þjórsárdals 20 km. varzla með Þjórsá fram af dalnum, ef þetta land væri girt af. Sjá þá allir menn, hversu miklu viturlegra er að nota girðinguna þessa 20 km. leið til þessa tvenns í einu, heldur en að láta dalinn vera ófriðaðan. Ég geri ráð fyrir, að í sambandi við fjárvörzluna gangi þetta mál fram. Fjvn. hefir lagt til, að jarðakaupasjóði verði heimilað að kaupa þessa jörð og afhenda hana forstjóra skógræktarmálanna. Má vera, að annað form verði haganlegra á þessu. En svona horfir málið við í augnablikinu.

Þá eru ræktunarvegirnir. Um það er deilt, hvernig eigi að styrkja þá. Þarna hafa komizt tveir vegir inn í brtt. fjvn., sem báðir eru um ríkislönd. En það liggja einnig fyrir óskir frá mönnum um framlag til ræktunarvega í löndum bæjar- og hreppsfélaga, og jafnvel í einstakra manna löndum. En á þetta þarf að koma skipulagi. Mér finnst, að ríkið ætti ekki að leggja fram fé til styrktar ræktunarvegum nema á sinu eigin landi. Væri þá vitanlega sanngjarnt, að leiga eftir þau lönd, sem ríkið legði þannig ræktunarvegi um, væri dálítið hærri, með tilliti til þessa.

Þá er loks 109. brtt., sem er um 20 þús. kr. styrk til stórstúku Íslands. Þar af er ætlað til bindindisfélaga í skólum landsins 3500 kr. Ég vil ætlast til, að allir, sem unna bindindisstarfsemi, líti hýru auga til þess fjár, sem til þeirrar starfsemi fer í landinu. Og ég get upplýst það hér — og ýmsir hv. þm þekkja þetta betur en ég —, að bindindisstarfsemi í skólum landsins fer mjög í vöxt og áhugi fyrir því máli. Eitt af því, sem ljósast ber þess vott, er það, að haldið var nú fyrir fáum dögum sambandsþing bindindisfélaga í skólum, þar sem mættu á annað hundrað nemendur úr ýmsum skólum landsins. Ég get tæplega hugsað mér félagsskap, sem eigi meiri rétt á sér heldur en bindindissamtök unga fólksins í landinu. Þeir menn, sem komið hafa á bindindissamtökum í skólum, þar sem drykkjumenn hafa ráðið lögum og lofum áður, sýna, að þeir vilja gera eitthvað til þess að skapa almenningsálit á móti drykkjuskapnum; og slíkir menn eiga sannarlega heiður skilið. Að því þarf að vinna, að drykkjumenn þrifist hvergi í félagsskap sem slíkir. En er það ekki svo enn í dag, að þeir menn séu mjög illa séðir, sem að því vilja vinna? Ég treysti engum betur til þess en skólunum að tortíma þeim ósið og því almenningsáliti, sem þann ósið líður, að drykkjumenn sem slíkir vaði uppi á mannfundum og í félagsskap yfirleitt.

Síðasta brtt. þarf ekki skýringar við. Hennar er líka getið í nál.

Þá hefi ég gert grein fyrir þeim brtt., sem fyrir liggja. Og þó að mál mitt sé e. t. v. orðið nokkuð langt, hefi ég samt ekki tekið nema lítinn hluta af þeim brtt. til umr., sem fyrir liggja, með því að ekki var ástæða til að tala fyrir þeim öllum. Skal ég loks gefa stutt yfirlit yfir áætlanir á hverri gr., sem annars hefir orðið fyrir nokkrum breyt., og svo loks heildaryfirlit.

Þá eru fyrst tekjurnar:

2. gr.

Aukatekjur, hækkun

10000

kr.

Stimpilgj. af áv. og kvittunum

5000

-

Benzínskattur

15000

-

Kaffi- og sykurtollur

25000

Alls

55000

kr.

Lækkun:

Aðflutningsgjald.

15000 kr

Veitingaskattur

10000 —

25000

kr.

Mismunur, hækkun 30000 kr.

3. gr. A. 1.

Póstsjóður:

Hækkun á tekjum

38000

kr.

— á gjöldum

38860

Rekstrarhagnaður lækkar því um

860

kr.

3. gr. A. 2.

Landssíminn:

Hækkun á tekjum

130000

kr.

— á gjöldum

95000

-

Mismunur, tekjuhækkun

35000

kr.

Eignabreytingar, út.

Hækkun

27000

kr.

3. gr. A. 3.

Áfengiaverzlunin:

Lækkun á gjöldum

10000

kr.

3. gr. Á. 5.

Ríkisútvarpið:

Hækkun á tekjum

50000

kr.

— á gjöldum

53000

Mism., rekstrarhagnaður lækkar um

3000

kr.

3. gr. Á. 7.

Landssmiðjan:

Hækkun á gjöldum

900

kr.

Samandregið:

3. gr. A.

Tekjur af rekstri ríkisstofnana hækka

um

40240

kr.

Gjöld:

7. gr.

Vextir hækka um

154368

kr.

11. gr.

Hækkanir:

Skrifstofukostn. lögreglustj. Rvík.

8900

kr.

Landhelgisgæzla

50000

Hegningarhúsið Rvík

2500

Kostn. við framkv. á vinnuhæli

10000

Fasteignamat

10000

Hækkun alls

81400

kr.

12. gr. Hækkanir:

Læknisvitjanastyrkur

500

kr.

Holdsveikraspítalinn

3000

Gamli Kleppur

4500

Nýi Kleppur

7000

-

Vífilsstaðir

17500

Reykir í Ölfusi

3900

Læknisbúst. og sjúkraskýli

1000

Alls

37400

kr.

-Lækkun (Jakob Ó. Lárusson) .

550

Hækkun því alls

36850

kr.

13. gr. Hækkanir:

Til aðstoðarmanna og mælinga

6000

kr.

— nýrra akvega

115500

- vega af benzinskatti

15000

- ferjuhalds

1850

— að halda uppi byggð og gistingu

300

- strandferða

50000

— hafnargerða

31000

- bryggjugerða og lendingarbóta

20500

- lendingarbóta, gegn jafnntiklu

framlagi annarsstaðar að

15000

- hafnargerðar á Ólafsvík

5000

- brimbrjótsins í Bolungavík

10000

Alls

270150.

kr

Lækkun á stjórn og undirbúningi

vitamála

150

Hækkanir því alls

270000

kr.

14. gr. A. Hækkun á framlagi til

prestlaunasjóðs

15000

kr.

14. gr. B. (Kennslumál). Hækkanir:

Til iðnskóla

1500

Laun barnakennara

40000

Byggingarstyrkur barnaskóla

20000

Stofnkostnaður héraðsskóla

9000

Til gagnfræðaskóla

20000

— — (byggingarstyrkur)

9000

— unglingafræðslu utan kaupstaða

5000

— alþýðuskólans í Rvík

2000

— húsmæðraskólans á Laugalandi

21000

— rafveitu á Staðarfelli

2500

— íþróttaskóla á Sauðhúsvelli

1000

— Árnýjar Filippusdóttur

2000

— sundlaugabygginga

5000

— menningar- og fræðslusambands

alþýðu

2000

Samtals

140000 kr.

15. gr. Hækkun.

Til lesstofu á Siglufirði

1000 kr.

16. gr. Hækkanir:

Til sandgræðslu

3000

— framræslu við Eyrarbakka

5000

— — í Ölfusi

19000

— fyrirhleðslu viðMarkarfljót

50000

— flóðgáttar við Rangá

4500

— rannsóknar á námum

1500

— rannsóknarstofu atvinnuveganna

19700

— ræktunarvegar

11000

Samtals

113700.

kr

17. gr. Hækkanir:

Til bindindisstarfsemi

5000

kr.

— gamalmennahælis í Hafnarfirði

1000

Samtals

6000

kr.

Yfirlitið verður þá svo eins og fjárlfrv. kemur

frá fjvn.:

Tekjur samkv. frv.

15826040

kr.

Hækkun samkv. till. n.

70000

Samtals

15896280

kr.

Gjöld samkv. frv.

15338940

kr.

Hækkun samkv. til n.

818318

Samtals

16157258.

kr

Rekstrarafgangur samkv. frv.

487100

kr

+ Tekjuhækkun

70240

Samtals

557340

kr

- Gjaldahækkun

818318

Tekjuhalli

260978

kr

Greiðsluhalli samkv. frv.

726067

kr

Hækkun á gjöldum = tekjur

748078

Hækkun á eignum landssímans

27000

Samtals

1501145

kr

Ég gat þess í upphafi ræðu minnar, að þessi útgjöld, sem eru aukin, eru bætt upp með þeim tekjuöflunarfrv., sem liggja óafgr. í þinginu, en auk þess eru útgjöld, sem vofa yfir. Þar á meðal er fyrst sýningin í New York, sem n. hefir þegar samþ. að veita fé til, til endurbygginga á sveitabýlum, jarðakaupasjóðs og bændaskóla. Þessar upphæðir munu nema samtals um 155 þús. kr. Þá er enn einn stór útgjaldaliður, en það er sauðfjárpestin. Samkvæmt áætlun, sem n. hefir í höndum frá Hákoni Bjarnasyni og Niels P. Dungal, þá mun þessi kostnaður verða um 180 þús. kr., að frádregnu framlagi annarsstaðar frá. Þá hefir einnig verið gert ráð fyrir einhverskonar þátttöku í erfiðleikum bænda vegna pestarinnar. Er helzt gert ráð fyrir vaxtagreiðslum fyrir þá, sem verst eru stæðir.

Ég get svo látið máli mínu lokið, en vil að lokum geta þess, að fjvn. mun vera einhuga um að skila frv. tekjuhallalausu. — Ég vil svo mælast til, að frv. verði vísað til 3. umr. að þessari umr. lokinni.