23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

Sigurður Kristjánsson:

Ég held, að það sé af talsverðum vanefnum gert, þegar hv. þm. Ísaf. er að gorta af minni sinu. Hann sagði m. a., að Sjálfstfl. hefði verið í stjórnaraðstöðu þangað til 1934 án þess að hreyfa legg eða lið útveginum til hjálpar. Allir vita, hversu rétt þetta er mælt, svo að ég þarf ekki að svara slíkum firrum. En nú ætla ég að reyna að lækna dálítið minni hans.

1931 var það augljóst, að útvegurinn var kominn í hallarekstur. 1932 báru sjálfstæðismenn fram till. um það, að ríkisstj. yrði falið eða fyrirskipað að láta rannsaka allan hag sjávarútvegsins. Stj. skipaði síðan nefnd til þess að framkvæma þessa rannsókn. En áður en ríkisstj. gæti unnið úr tillögum nefndarinnar og farið eftir þeim, var skipt um stjórn og sósialistinn Haraldur Guðmundsson seztur í ráðherrasætið. Því fór svo, að tillögur nefndarinnar voru ekki aðeins að engu hafðar, heldur hreint og beint ráðizt á þá menn, sem að þeim stóðu, og var hv. þm. Ísaf. þar einna frakkastur. Undir eins og sást, að sjávarútvegurinn var rekinn með tapi, hófust sjálfstæðismenn handa um að láta rannsaka hag hans, en allar viðreisnartillögurnar voru drepnar með öruggri hjálp Alþfl. Hitt er rétt, að á tveim þingum höfum við borið fram till. um það, að útflutningsgjaldið rynni til sjávarútvegsins sjálfs, í stað ríkissjóðs, en slík breyting var líka næsta mikilsverð.

Alveg er það rangt, eins og flest annað hjá hv. þm. Ísaf., að við höfum borið þessi frv. fram vegna togaraútgerðarinnar í Rvík, því að þar átti hið sama að gilda um alla útgerð. Annað mál er það, að meiri hluta þess fisks, sem gjaldið leggst á, er aflað á togara. Það er ennfremur misskilningur hjá hv. þm., að ég sé nokkra vitund afbrýðisamur í þessu máli. Ég hlyti þá að öfunda flesta, ef ég öfundaði hv. þm. Ísaf. af framkomu hans í sjávarútvegsmálunum. En ég get ekki látið hjá líða að benda á það, hve hjákátlegt það er að geyma frv. okkar um þetta efni í 5 vikur og bera það síðan fram afskræmt, til þess að gera þó tilraun til að skreyta sig með annara fjöðrum, því að það er öllum kunnugt, að það eru sjálfstæðismenn, sem hafa barizt fyrir réttum skilningi á hinum erfiðu aðstæðum sjávarútvegsins og fyrir því, að þessi mikilsverði atvinnurekstur yrði ekki lagður í rústir. Hitt er mönnum og jafnkunnugt, að gegn þessu hafa staðið stjfl., einkum Alþfl., sem hefir brotið upp á margháttuðum ráðum til þess að gera reksturinn erfiðari og koma í veg fyrir, að hann geti staðið á eigin fótum. — Þetta er landslýð öllum of kunnugt til þess að nokkuð þýði að vera að leika þennan skrípaleik í málinu.