23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég get verið ánægður með þær viðurkenningar, sem fram hafa komið í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Hann viðurkenndi það, að Sjálfstfl. hefði verið í stjórnaraðstöðu frá því sumarið 1932 og þangað til 1934, einmitt fyrstu árin, sem saltfisksveiðarnar voru reknar með tapi, og að Sjálfstfl. hefði horft upp á það þá, án þess að gera aðra ráðstöfun en þá að leggja fram till. um að skipa milliþinganefnd í málið. Eins og hv. 6. þm. Reykv. geti talið nokkrum manni trú um það, að Sjálfstfl. hafi ekki vitað það á árinu 1932, að saltfisksútgerðin var rekin með tapi. En einu aðgerðirnar, sem sjálfstæðismenn lögðu þá til, að gerðar yrðu, voru ekki þær réttu — að afnema útflutningsgjald á saltfiski —, heldur að skipa milliþinganefnd, líklega til þess að sannfæra sjálfa sig um það, sem þeir hlutu að vita fyrirfram, að sjávarútvegurinn var. þá rekinn með tapi.

Þá viðurkenndi hv. 6. þm. Reykv., að það væri rétt, sem ég sagði, að sjálfstæðismenn hefðu, ekki borið fram till. um afnám útflutningsgjaldsins nema á tveim þingum, en áður var hann búinn að segja, að þeir hefðu borið þær fram á fjórum þingum, og nú bætti hann því líka við, sem ég hafði bent á, að sjálfstæðismenn hefðu gert ráð fyrir því, að útflutningsgjaldinu yrði að vísu aflétt, en varið til annara þarfa til viðreisnar sjávarútveginum.

Hv. 6. þm. Reykv. bætti því við, sem ég get verið mjög ánægður með, að það yrði að leggja á útflutningsgjald, sem rynni beint í ríkissjóð, eða útflutningsgjald, sem varið yrði til viðreisnar sjávarútveginum. Nú hefir það orðið samkomulag milli stj.flokkanna, að verja því útflutningsgjaldi, sem eftir verður í l., þegar útflutningsgjald af saltfiski er afnumið, til þess að rétta við sjávarútveginn. Og þar sem hv. 6. þm. Reykv. nú telur, að útflutningsgjald af sjávarafurðum eigi fullan rétt á sér, ef því er varið til þess að rétta við sjávarútveginn, þá vænti ég, að hann geti einnig fallizt á það frv., sem kemur til umr. næst á eftir þessu og einmitt stefnir í þá átt.

Ég benti á það, að sjálfstæðismenn hefðu flutt till. um það, að útflutningsgjaldi af sjávarafurðum skyldi um langan tíma verða varið til skuldaskila sjávarútvegsins, og þá sérstaklega togaranna. Þessar till. sjálfstæðismanna voru fluttar á þingi 1935 af hv. 6. þm. Reykv. sjálfum, svo að hann ætti að vera þessa minnugur. Var þar gert ráð fyrir, að stofnaður yrði skuldaskilasjóður, og skyldi útflutningsgjaldið renna þangað óskert, þangað til tekjur sjóðsins næmu 4750 þús. kr. Nú hygg ég, að útflutningsgjald af sjávarafurðum á þessum tíma hafi verið sem næst 800 þús. kr., þannig að eftir till. hv. 6. þm. Reykv. á Alþ. 1935 ætti útflutningsgjald af sjávarafurðum til ársins 1940, að því ári meðtöldu, að renna í skuldaskilasjóð. M. ö. o., að ef þessi hv. þm. hefði mátt ráða á þingi 1935, þá væri nú búið að festa þetta útflutningsgjald, sem nú er verið að afnema, til ársins 1940.

Ég gat þess, að þetta skuldaskilafrv. hefði einkum verið flutt til viðreisnar og skuldaskila togaraútgerðinni. Og á það er hægt að færa fullar sannanir, því til viðreisnar og skuldaskila mótorbátaútgerðarinnar og línubátagufuskipanna hefir ekki verið varið nema 1½ millj. kr., og það hefir sýnt sig vera nægjanlegt. Til skuldaskila togaranna átti þannig eftir frv. að ganga 3½ millj. kr., sem samsvarar því, að allt útflutningsgjald af sjávarafurðum, eins og það var þá, 800 þús. kr., hefði farið til skuldaskila togarauna í rúm 4 ár. Hv. þm. má vel mín vegna státa af þessum till., sem hann telur, að hafi átt að vera til almennrar viðreisnar sjávarútvegsins, en vissulega hefði að tveim þriðju hlutum orðið til þess að reisa við hina margskuldugu togaraútgerð, sem að ýmsu leyti hefir varið sinu fé þannig, að ekkert réttlæti er í að taka það almenna útflutningsgjald til þess að reisa hana við, á þeim grundvelli, sem hún hefir verið rekin.