23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

*Einar Olgeirsson:

Það er ekki nema gott eitt að segja um þetta frv., og ætla ég ekki að orðlengja um það, enda býst ég við, að hv. þm. geti verið sammála um að afnema þetta gjald.

En mér hefir skilizt það á umr., sem fram hafa farið, að Sjálfstæðismenn hafi verið að tala um það, að þeir hefðu sérstaklega verið á móti því að leggja útflutningsgjald á saltfisk og að þeir hefðu barizt fyrir því að fá það afnumið. Í þessu sambandi datt mér í hug að koma með smáfyrirspurn. Það, sem ég man bezt eftir afstöðu Sjálfstfl. viðvíkjandi útflutningsgjaldi af fiski, er það, sem gerðist fyrir 3 árum, þegar lagður var sérstakur tollur á saltfisk til viðbótar við það, sem fyrir var. Og það voru sérstakir ágætismenn, að dómi sjálfstæðismanna, sem stóðu fyrir þessu. Þetta gjald, sem af útgerðarmönnum gekk undir nafninu „fimmkallinn“, var sérstaklega á lagt til þess að útvega Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda peninga, sem það þurfti að nota í ákveðnu skyni undir umsjón ríkisstj. Var það eitt af hinum þörfu verkum núv. ríkisstj. að afnema þetta gjald, en áður en það var gert mun hafa verið búið að taka meira en 1 millj. kr. af útvegsmönnum og fiskimönnum, og var það þungur skattur. — Ég minnist þess ekki, að sjálfstæðismenn hafi talað mikið um þetta útflutningsgjald af saltfiski, og þegar við kommúnistar höfum verið að inna eftir því á þingmálafundum, hvað hafi eiginlega orðið af þessu fé, þá höfum við aðeins fengið við því loðin svör. Þó að þetta útflutningsgjald, sem hér er til umr., hafi verið bölvað, þá hefir það þó verið á fjárl., og maður hefir getað séð, hvað gert hefir verið við það. En hvað snertir hitt útflutningsgjaldið — „fimmkallinn“ —, þá hefir maður aldrei fengið að vita, hvað orðið hefir af þessari rúmu milljón. Ég held, að það væri skemmtilegt í sambandi við þessar umr., úr því að þær hafa nú farið dálítið á við og dreif, að reynt yrði að upplýsa um það, hvað orðið hafi af þessu útflutningsgjaldi.