30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) :

Mér skildist á hv. frsm. minni hl., að nauðsynlegt væri að bíða með afgreiðslu þessa máls, af því að nefnd útgerðarmanna ætlaði að tala við Alþingi. Ef það á við þetta frv., á það ekki síður við frv. sjálfstæðismann, sem hv. þm. ber fyrir sig, þegar hann vill þetta frv. feigt.

En mér finnst, að úr því að þessir háu herrar gátu ekki talað um þetta við okkur í tíma, þá verði að afgr. þetta nú. En ráð þeirra má alltaf taka til greina á næsta þingi, ef þau verða svo á rökum reist.

Hv. frsm. minni hl. þótti skammt gengið í frv. og nefndi sérstaklega ísfiskinn. Ég játa, að það hefði verið gott, ef hægt hefði verið að fella niður gjald af fleiri útflutningsvörum. En nú hafa sumir þm. tekið upp þá stefnu, að í stað þess að fella niður útflutningsgjald skuli því varið til hagsbóta sjávarútveginum. Mér finnst sízt ástæða til þess fyrir sjálfstæðismenn að vera á móti því. Þeir telja álögur ríkisins háar og mundu sízt þola viljugir þær álögur, sem þyrfti, ef féð til að styrkja sjávarútveginn væri tekið á annan hátt. Og þeir hafa sjálfir borið fram frumvörp um að binda útflutningsgjaldið um langt árabil. Á Alþingi 1934 fluttu þeir tvö frv. um það. Annað var um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, hitt um fiskimálasjóð. Samkv. fyrra frv. átti að binda útflutningsgjaldið, sem þá var áætlað 850 þús. kr. árlega, og leggja það í 6 ár, 1935–40, í skuldaskil, sem að mestu leyti hefðu orðið fyrir togaraútgerðina. Samkv. síðara frv. átti fiskimálasjóður Íslands að fá útflutningsgjaldið a. m. k. í 10 ár, 1941–50. M. ö. o.: Allur Sjálfstfl. vildi þá binda allt útflutningsgjaldið næstu 16 árin a. m. k. — Það er rétt, að flokkurinn hefir einnig borið fram frv. um afnám útflutningsgjaldsins. Þegar við tökum yfirlit yfir stefnu Sjálfstfl. í þessu máli, get ég ekki séð það samræmi í henni, að við þurfum að taka það alvarlega, þó að hv. 6. þm. Reykv. brýni deildina með því, að þetta sé gagnslaust, nema að meira sé fellt niður. Ég játa, að það hefði verið gott að geta afnumið útflutningsgjald af ísfiski. En ég tel hinsvegar meira virði, ef hægt er að nota það til að framkvæma margt, sem mjög ríður á fyrir endurreisn sjávarútvegsins, svo sem hraðfrysting, niðursuðu og annað, sem horfir til fjölbreytni, og að víkka markaðina. Í framtíðinni munar það seljandann meiru en afnám gjaldsins. Því það, sem mestu munar á ísfiski, er innflutningstollurinn á Englandi.

Hv. frsm. minni hl. var með útreikninga um tap á ísfisksveiðum 1936 og 1937. Ég skal ekki rengja tölurnar sjálfar. En ég trúi þeim ekki nákvæmlega, og það af þeim ástæðum, að þetta eru bráðabirgðatölur að nokkru leyti, og auk þess ekki rétt að taka stuttan tíma af árinu út úr; það verður að leggja fram ársreikningana í heild, þar sem m. a. kemur fram gróðinn af síldveiðunum.

Það kemur úr hörðustu átt, þegar hv. 6. þm. Reykv. andmælir frv. Hann og flokkur hans vildu fyrir fáum árum binda í 16 ár þetta gjald, sem Íhaldsfl. kom á árið 1921 og aðrir flokkar vilja nú afnema að nokkru leyti, en nota að nokkru leyti til að bæta — þrátt fyrir mótmæli íhaldsins — framtíðarskilyrði útvegsins.