30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Ef gert hefði verið ráð fyrir því í þessu frv. að afnema gjaldið af öllu nema því, sem sérstök lög eru um, þá hefði mátt segja, að gert væri það, sem hægt er, fyrir útgerðina. Þetta er ekki heldur nema 2. umr. málsins, og má taka til athugunar að breyta frv., þó að það verði samþ. nú til 3. umr. — Ég sagði frá störfum nefndar, sem er að kynna sér öll gögn um málin. Á fimmtudaginn munu aðiljar halda fund til þess að ræða um þau. Og ég vænti þess fastlega; að málið fái að bíða hér í deildinni þessa 2–3 daga.

Hvað ísfiskinn snertir þarf hv. frsm. meiri hl. ekki að líta með tortryggni á þær tölur, sem ég vitnaði í. Því að fyrst og fremst nær rannsóknin til allra eða svo að segja allra togara á ísfisksveiðum, og í öðru lagi er það vitanlegt, að öll togarafélögin hafa svo nákvæmt reikningshald, að hægt er að taka út úr liðina, sem tilheyra ísfisksveiðum, svo að varla muni um nokkurn eyri, og ná öllum póstum. Ég er sannfærður um, að þar er um tryggan grundvöll að ræða.

Þau ummæli hv. frsm. meiri hl., að ósamræmi sé mikið í till. okkar sjálfstæðismanna hér á Alþingi, er snerta mál útgerðarinnar, eru ekki takandi alvarlega. Hann veit það, hv. þm., þrátt fyrir þessi ummæli sín, að heill og óskiptur hugar okkar sjálfstæðismanna hefir jafnan staðið að þessum málum, eins og öllum þjóðþrifamálum, sem við höfum látið okkur skipta. Og enda þótt hv. þm. beri lítið skyn á útgerðarmál, þá veit hann vel, að útgerðin stendur mjög höllum fæti og að þörf fólksins knýr á um það, að málum hennar sá sinnt af hinni mestu alvöru.

Hitt er að sjálfsögðu misskilningur hjá hv. þm., að það sé ósamræmi í því, að leggja til, að útflutningsgjaldið sé fellt niður og látið ganga til skuldaskila fyrir útvegsmenn. Hvernig skuldamálum útgerðarinnar er nú komið, stafar mikið af of háum vöxtum og óhagstæðum innkaupum á hinum nauðsynlegustu útgerðarvörum. Vegna skulda á útgerðin mjög erfitt með að gera hagkvæm innkaup, og verður því oft að greiða mikið fé í of dýrum vörum vegna þess, að hún hefir ekki reiðufé með höndum. Það er því ekkert ósamræmi í því, þó að lagt sé til að létta af útflutningsgjaldinu til þess að létta undir með útgerðinni um áratugi, eins og gert var í frv. því, sem stjórnarflokkarnir eru alltaf að vitna í. Samkv. því áttu útgerðasmenn að geta fengið lán úr fiskiveiðasjóði með 4–4½% vöxtum í stað 7–7½% lána, sem flestir verða að sæta nú.

Um það atriði, að útflutningsgjaldið eigi að ganga til fiskimálanefndar og koma útgerðinni á þann hátt að liði, er það að segja, að útgerðarmenn hafa enga trú á þeirri nefnd, því að reynslan hefir sýnt, að hún hefir litið sem ekkert gert til hagsbóta fyrir þá, en verið ákaflega fjárfrek. Já, ákaflega fjárfrek. Það er því sameiginlegur dómur útvegsmanna, að allt fé, sem til hennar gengur, sé glatað fé, eins og það líka er.

Ég þykist vita, að hv. þm. Barð. meinar vel það, sem hann leggur til þessara mála, en sannleikurinn er hara þessi, að fiskimálanefnd getur ekki og gerir ekki neitt útgerðinni til hagsbóta, hvað þá að hún komi henni á heilbrigðan rekstrargrundvöll.