09.12.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1938

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Eins og vitað er, hefir Kommfl. engan mann í fjvn., svo þær brtt., sem við berum fram við 2. umr., verða að sjálfsögðu nokkuð margar, og geymum við þó nokkrar þeirra til 3. umr.

Við kommúnistar höfum áður á þessu þingi borið fram frv., sem miða að því að afla ríkissjóði tekna. Þessi frv. eru að vísu ekki enn komin úr n., en við höfum sannað með þeim, að möguleikar eru á að afla ríkissjóði tekna, sem nema um 1 millj. kr. Álít ég, að við höfum með þessum frv. réttlætt það, að af okkar hálfu komi brtt. við frv. til fjárl., er fari í þá átt að auka útgjöld ríkissjóðs allmikið, eða sem a. m. k. samsvara því, sem við leggjum til með frv. okkar, að hann fái í auknum tekjum. Við höfum með þeim frv., sem við höfum borið fram til tekjuöflunar, sýnt, hvernig mögulegt er að taka peningana þar, sem þeir eru fyrir hendi, þ. e. hjá þeim ríku í þessu landi, svo hægt er að komast hjá að auka tolla og skatta á alþýðunni svo, að hún sé látin borga aftur þær lítilfjörlegu hagsbætur, sem hún fær með öðrum samþykktum í fjárl. Ég álít, að brtt. okkar séu þannig réttlættar með tekjuöflunartill. okkar, og skal ég ekki fara lengra út í það, en sný mér að brtt. okkar, en tek þó aðeins hluta af þeim, — flokksbræður mínir munu tala fyrir hinum.

Aðaltill. okkar er við 16. gr., till. um auknar atvinnubætur. Til atvinnubóta er ætluð ½ millj. gegn tvöföldu framlagi frá kaupstöðunum. Við leggjum til, að þetta verði hækkað upp í 850 þús. kr. frá ríkinu, gegn tvöföldu framlagi frá bæjarfélögunum. Þetta mundi þýða það, að á móti þessari hálfu millj. hefði aðeins komið ein, samtals því varið 1½ millj. kr. til atvinnubóta, en þar sem við leggjum til, að tvöfalt framlag frá bæjarfélögunum komi á móti 850 þús., mundu samtals fást 2½ millj., svo yrði þetta að lögum, ykist framlag til atvinnubóta um eina millj. næsta ár frá því, sem nú er gert ráð fyrir í fjárlfrv.

Ég álít, að fyrsta og eðlilegasta krafan, sem hv. Alþ. þurfi að sinna gagnvart fólkinu í landinu, sé krafan um atvinnu, og ég býst við, að það viðurkenni þm. allra flokka, að það, sem ríkisvaldinu beri sérstaklega skylda til að gera, sé að sjá um atvinnu handa fólkinu. Ekkert ömurlegra er til en það, að mönnum, sem vilja fá að vinna og skapa þannig ný verðmæti fyrir land sitt og þjóð, skuli allar bjargir bannaðar nema að leita fátækraframfæris. Krafan um vinnu er sú krafa, sem hinar vinnandi stéttir í landinu, ekki einungis verkamenn, heldur og mikill hluti millistéttanna, gerir til ríkisvaldsins, svo að þær þurfi ekki að leita neins náðarbrauðs, það er aðalkrafan, sem alþýðan gerir til ríkisvaldsins og þessa þings. Það er ekkert eins fordæmanlegt í hinu ríkjandi skipulagi og það, að mönnum sé meinað að vinna, — banna mönnum að skapa ný verðmæti og dæma menn til þess að ganga atvinnulausa. Þegar verkamenn biðja um vinnu, eru þeir ekki að biðja um neitt náðarbrauð, heldur að heimta rétt sinn, þann rétt, sem hver maður á, sem er í heiminn borinn, réttinn til að vinna fyrir sér, og þeir biðja heldur ekki um meira en réttinn til að vinna fyrir sínu brauði í sveita síns andlits, og það er rangt skipulag, sem neitar mönnum um það. Það er ekki farið fram á af hálfu verkamanna að ríkissjóður úthluti þeim neinum bitlingum, heldur vilja þeir fá tækifæri til að vinna fyrir sér og sínum. — Nú er vitanlegt, að í skjótu bragði verður ekki séð fyrir þeirri vinnu, sem þarf, nema að auka verklegar framkvæmdir og atvinnubætur. Verkamenn fara fram á að fá að vinna fyrir sér og sinum, með því að leggja ný ja vegi, byggja ný hús og vinna önnur þörf verk fyrir landið.

Ég álít, að eins og nú standa sakir, beri ríkinu alveg sérstaklega að sjá fyrir því, að árið 1938 sé meiri atvinna en áður, því eins og við kommúnistar höfum bent á, er vafalaust ný kreppa í aðsigi í heiminum, og það má mikið vera, ef langt verður þar til við Íslendingar fáum að kenna á því. Þeim, sem vilja hafa fyrirhyggju um fjárstjórn landsins, ber nú þegar að gera ráðstafanir við samþykkt fjárl. fyrir næsta ár, svo fé sé til að auka atvinnuna í landinu.

Í öðru lagi er allt útlit fyrir, að útgerð stöðvist að miklu leyti, og enn er mjög í tvísýnu, hve mikið verður gert í vetur í verstöðvunum. Ríkinu ber því í útliti sem þessu að sjá um, að eitthvað sé gert í þá átt að auka atvinnu, ef útgerðin skyldi stöðvast.

Í þriðja lagi er vitanlegt, að fátækraframfærsla er svo þung fyrir bæjar- og sveitarfélög, að hún er að sliga þau, og heilbrigðasta ráðið til að vinna á móti þessa er að auka atvinna, vegna þess, að þessi mikla fátækraframfærsla stafar fyrst og fremst af atvinnuleysi. Verkalýðsfélögin í landinu hafa opin augun fyrir þessu og fara fram á, að yfirstandandi Alþ. auki að mun framlög til verklegra framkvæmda og atvinnubóta; m. a. hefir verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík samþ. einróma samþykkt um hækkun fjár til atvinnubóta, sem við þm. Kommfl. berum fram frv. um.

Ég vil minna alla þingfl., sérstaklega þó Framsfl., á það, þegar þeir taka sínar ákvarðanir í sambandi við þetta mál, að í vor fyrir kosningar, þegar hæstv. forsrh. talaði við kjósendur í landinu, þá komst hann svo að orði, að það væri ekki verkamannanna að heimta atvinnu, það væri okkar, þ. e. þingmanna, að koma til verkamannana til að biðja þá um að vinna. Þannig var talað fyrir kosningar, og ég vona, að ekki sé svo langt síðan, eða breytingar hafi orðið svo miklar, að þessi orð séu liðin mönnum úr minni.

Nú eru verkamenn komnir til að biðja um vinnu; þeir eru ekki einu sinni svo kröfuharðir, að þurfi að koma til þeirra og biðja þá að vinna, og við búumst við, að orðið verði við þessari beiðni okkar. Ég þykist hafa sýnt í upphafi minnar ræðu, að nógir peningar séu til, og gegn því hafa engin rök komið, og við höfum bent á færa leið til að afla þeirra, þannig, að sú mótbára, að peningar séu ekki til, hefir við engin rök að styðjast. Spurningin er þá, hvort viljinn sé fyrir hendi til að tryggja mönnum atvinnu.

Ég ætla ekki að fara út í einstaka liði verklegu framkvæmdanna eða undirbúning þeirra, það munu aðrir flokksbræður mínir gera. En ég ætla þá að geta um fyrstu brtt. okkar, við 3. gr. a., 4. lið, um að sá liður falli niður. Þessi liður er um tekjur af tóbakseinkasölunni, og hefir áður verið borin fram till. um, að 3. liður félli bart. Ég vil, til að rifja upp fyrir hv. þm., hvað þarna er um að ræða, minna á, hvernig l. um tóbakseinkasöluna voru upphaflega samþ. Mér leikur granar á, að sumir hv. þm. séu farnir að gleyma, hvernig 1. voru, þegar þan voru samþ., og vildi ég því, með leyfi hæstv. forseta, lesa eina gr. úr þeim eins og þau voru samþ. 1931; það er 14. gr. og hljóðar þannig: „Tekjum ríkissjóðs samkv. lögum þessum skal verja þannig: Helmingur teknanna skal renna til byggingarsjóða samkv. 1. nr. 65 1929, um verkamannabústaði, og skiptist sá helmingur milli byggingarsjóðanna að tiltölu við ríkissjóðstillagið til þeirra. Hinn helmingurinn rennur til byggingar- og landnámssjóðs samkv. l. nr. 35 1928“.

Með þessum l. er ákveðið, að allar tekjur af tóbakseinkasölunni skuli renna til byggingarsjóða í landinu, annar helmingurinn til sveitanna og hinn til kaupstaðanna. Þessi lög gengu í gegn með samkomulagi milli flokkanna, þar sem þetta var aðalatriðið af hendi Alþfl., að þessar tekjur rynnu til þess að bæta húsnæði alþýðunnar og skapa um leið atvinnu. Þessi lög eru einhver þau róttækustu, sem samþ. hata verið á Alþ., og enginn vafi á, að ef þeim hefði verið beitt samkv. þessu ákvæði þau 6 ár, sem liðin eru síðan þau voru sett, hefði orðið mikil atvinna að því og stórkostlega bætt húsakynni um mikinn hluta landsins. En svo hefir farið með þessi róttæku lög, að ár eftir ár er framkvæmd þeirra frestað með sérstökum l., og tekjur tóbakseinkasölunnar hafa mestallar farið í ríkissjóð, en ekki nema 80 þús. kr. til byggingarsjóða. Tekjur tóbakseinkasölunnar eru nú áætlaðar 600 þús. Það gengur ekki, að þótt alþýðan fái samþ. einhver róttæk lög og góð, þá sé framkvæmd þeirra frestað. Það skapar vantrú hjá fólkinu á lýðræðið og þingræðið. Ef árangurinn er þannig af þeim lögum, sem bezt eru fyrir alþýðuna, hlýtur það að skapa vantraust á ríkjandi fyrirkomulagi og menn fara að álíta, að því eigi að breyta til og byggja á grundvelli, sem uppfylli hefur kröfur manna.

Enn sem komið er, er sú bráðab. breyt. nokkurra laga, sem eiga við þessi lög fyrir árið 1938, ekki komin í gegnum þingið, og gildir því nú sem stendur ekki annað fyrir árið 1928 en lögin, sem sett voru 1931, og mér finnst við hafa gert rétt í að koma með þessa till. á þessu stigi málsins, og ég sé ekki hvað alþýðuflokksmenn í þinginu geta annað gert en styðja till. um, að þessar tekjur renni þangað, sem til var ætlazt í upphafi.

Þá höfum við lagt til, að minnkað sé borðfé konungs. Við álitum, að hann sé nægilega ríkur sjálfur til að sjá fyrir sér, og ekki sé þörf á, að við greiðum honum meira en þetta, fyrst það nú er í lögum, að hann fái þessa greiðslu frá Íslandi, enda sízt ástæða til, að við séum rausnarlegri en Danir; en þeir borga honum eina millj., sem samsvarar 30 aur. á mann, en við hér greiðum honum 60 þús., eða 60 aur. á mann. Nú munu menn segja, að það sé óviðkunnanlegt, að þessi æðsti embættismaður landsins hafi ekki hærri laun en t. d. bankastjórar við Landsbankann, en þeir virðast bæði hafa ólíkt meiri völd hér á landi en konungurinn og þar að auki höfum við hreyft því, að laun þeirra manna mættu líka lækka nokkuð. Þar að auki sleppur konungurinn við að greiða tekjuskatt og útsvar, sem hann mundi fá að gera, væri hann búsettur hér, og yfirleitt nýtur hann margra fríðinda. Tel ég því þessa till. hafa við rök að styðjast, þar sem þetta er þar að auki maður, sem enga ábyrgð ber á gerðum sínum.

Þá koma till. okkar viðvíkjandi lögreglunni í Reykjavík. Við leggjum til, að 8. liður 11. gr. a. falli niður. Álít ég fulla þörf á, að lögreglumálum sé hér öðruvísi skipað en nú er; sérstaklega er nauðsynlegt, að lögreglan sé vel trygg lýðræðinu, en það mun varla hægt að segja um lögregluna í Reykjavík, svo lengi sem það viðgengst, að menn, sem vitað er, að eru fjandsamlegir lýðræðinu, geta haft úrslitavald um, hvernig lögreglan er skipuð. Þess vegna vorum við á móti því, þegar lögreglan var aukin hér í Reykjavík.

Þá berum við fram till. um, að styrkurinn til Eimskipafélags Íslands sé felldur niður. Það hefir verið styrkt af ríkissjóði með 180 þús. Við leggjum til, að þetta verði fellt niður vegna þess, að Eimskipafélagið er nú orðið gróðafyrirtæki einstakra manna. Ríkissjóður hefir styrkt þetta félag með fleiri millj. kr. framlögum, en það er æ meir að komast undir áhrif nokkurra auðmanna hér í Reykjavík. Ég álít, að Eimskipafélagið hafi nú þegar notið það mikilla hlunninda, að nóg sé komið af því. Menn muna e. t. v., hvernig það hefir skorið niður eignir sínar, svo að „Gullfoss“ er nú ekki metinn nema á 10 þús., enda er félagið mjög ríkt. Sé ég ekki ástæðu til, að ríkið haldi áfram að veita því stórfé, án þess að fá einhvern arð.

Þá er ég meðflm. að nokkrum smærri till. Í sambandi við 17. gr. leggjum við til, að bætt sé inn í gr. 10 þús. kr. fyrir dagheimilum handa börnum, og að viðkomandi ráðh. hafi yfirráð yfir þessum peningum og geti úthlutað þeim til þeirra félaga, sem mundu sækja um að fá þá til að starfrækja barnaheimili, og gætu fært sönnur á, að þau gerðu það eða gætu gert það. Það hefir vaxið mjög áhugi manna fyrir því að gera fátækum foreldrum og umráðamönnum barna mögulegt að koma börnunum burt úr bænum að sumrinu, og ennfremur fyrir því, að koma upp dagheimilum, þar sem hægt er að koma börnum fyrir meðan t. d. mæður þeirra stunda vinnu. Það mun nú vera veittur styrkur til tveggja félaga eða svo í þessu samhandi sérstaklega. En nú liggja fyrir þinginu umsóknir um slíka styrki. Og ég veit, að það mundi auka áhuga ýmissa félaga og einstaklinga og jafnvel bæjarfélaga fyrir því að koma upp slíkum barnaheimilum, ef þessir aðiljar ættu nokkra von þess, að ráðuneytið gæti hjálpað þeim í því efni. Ég vona, að ég fari rétt með það, að á síðasta ári veitti atvmrh. styrki til barnaheimila, sem verkakvennafélagið Framsókn í Rvík ásamt A. S. V. og fleiri félögum höfðu komið upp, og það án þess að þessir styrkir væru veittir í fjárl. Og á grundvelli þessara styrkja frá atvmrh. fengust líka styrkir frá Reykjavíkurbæ til þessara hluta. Þetta yrði heppilegt til þess að auka áhuga slíkra líknarfélaga og annara til að koma upp svona barnaheimilum. Hér er farið fram á aðeins 10 þús. kr. upphæð til þessa.

Þá er till. um styrk til sjúkrasjóðs verkamannafélags Akureyrar, 300 kr., og til sjúkrasjóðs verkakvennafélagsins Einingin á Akureyri, 300 kr. Það er ekki nýtt, að till. komi um að taka slíka styrki upp í fjárl. Í 5 ár voru veittir styrkir til þessara félaga í fjárl. Alþ., ég held árin 1929–1933. Verkakvennafélagið hefir 10 þús. kr. í sjúkrasjóði. En 1934 eða 1935 var þetta tillag fellt út af fjárl. af pólitískum ástæðum. En mér finnst réttlátt, að þetta verði tekið upp nú. Það standa þó nokkrir hliðstæðir styrkir enn frá þeim tíma, og mér finnst rétt að bæta þessu inn í líka.

Þá berum við kommúnistar fram till. um styrk til sundlaugarbyggingar á Siglufirði. Það væri sérstaklega mikil þörf á að leggja eitthvað til þessara framkvæmda, sérstaklega með tilliti til þess geysimikla fjölda aðkomumanna, sem á hverju sumri er á Siglufirði. Þar er sérstaklega tilfinnanleg vöntun á sundlaugum.

Þær brtt. frá okkur kommúnistum, sem við leggjum mest upp úr í sambandi við fjárl., verða náttúrlega í sambandi við atvinnuaukninguna, hvernig okkar till. um atvinnubætur og verklegar framkvæmdir reiðir af. Ég vonast til þess, að hv. þm. athugi vel þá ábyrgð, sem hvílir á þessum fjárráðamönnum þjóðarinnar, sem hér eiga sæti á Alþ., um það, hvernig afkoma almennings verður á næsta ári. Nú er útlit fyrir, að þyngdar verði byrðar á fátæku fólki þessa lands með auknum tollaálögum, sem Alþýðan verður að borga. Má þá ekki minna vera en það, að hinum vinnandi stéttum sé gert mögulegt að borga þetta, með því að stuðla að því, að þær hafi möguleika til þess að vinna fyrir sér. Alstaðar blasir við vaxandi atvinnuleysi. Er þá ómögulegt annað en að fulltrúar þjóðarinnar á Alþ. finni til þeirrar skyldu sinnar að auka atvinnuna í landinu, með því m. a. að auka framlag til atvinnubóta frá því, sem verið hefir meðan ástandið hefir verið tiltölulega skárst í atvinnulegu tilliti, sem ég býst við, að það hafi verið þessi ár, sem nú eru að líða, af því, sem það hefir verið nú í nokkur ár. En atvinnuútlitið er að versna, og er því ástæða til að gera ráðstafanir til þess að auka atvinnuna svo um muni.