23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Flm. (Finnur Jónsson) :

Frv. þetta um breyt. á l. frá 12. des. 1935, um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o. fl., er flutt að tilhlutun ríkisstj., svo sem segir í grg. þess. Með frv. þessu er ætlazt til, að fiskimálasjóð verði séð fyrir auknum árlegum tekjum. Í núgildandi 1. um fiskimálanefnd er það svo, að ríkisstj. má greiða sjóðnum 400 þús. kr. á ári, og gert er ráð fyrir, að ríkisstj. hafi einnar millj. kr. lánsheimild handa sjóðnum, og ákveða má, að 1½1¾% af verðmæti útflutts fisks og fiskafurða renni í hann. Lánsheimild sú, sem ríkisstj. hafði fyrir fiskimálasjóð, er að mestu notuð, svo að auka verður sjóðnum tekjur, og það vissar tekjur, ef fiskimálanefnd á að geta haldið áfram störfum. Eftir frv. þessu er gert ráð fyrir, að fiskimálasjóður hafi árlega 500 þús. kr. tekjur. Er það fyrst og fremst framlag úr ríkissjóði, að upphæð 400 þús. kr. af útflutningsgjaldi sjávarafurða, og auk þess er til ætlazt, að renni í sjóðinn ½% af verðmæti útflutts fisks og fiskafurða, annara en síldarafurða. Tekjur sjóðsins verða því ekki undir 500 þús. kr. á ári. Úr sjóði þessum er ríkisstj. heimilt að veita stofnunum, félögum og einstaklingum lán til þess að koma á fót niðursuðuverksmiðjum fyrir sjávarafurðir eða styrkja niðursuðuverksmiðjur, sem fyrir eru, — ennfremur til að kaupa hraðfrystitæki í þau frystihús, sem samkv. áliti ráðh. og fiskimálanefndar eru vel sett og hæf til þess að frysta fisk til útflutnings, eða reisa hraðfrystihús á þeim stöðum, sem mest er þörfin, og má lána til þess allt að ¼ hluta kostnaðar, þó ekki yfir 25 þús. kr. á hvert hraðfrystihús. Fiskimálasjóði má einnig verja til að styrkja félög sjómanna, verkamanna og annara til að kaupa í tilraunaskyni togara með nýtízku vinnslutækjum, og má styrkur nema allt að 25% af kostnaðarverði, enda leggi eigendur fram 15–20% af verðinu. Þá má einnig verja fé úr sjóðnum til nýrra veiðiaðferða og til markaðsleitar.

Það þarf ekki að fjölyrða um nauðsynina á því, að rétta sjávarútveginum hjálparhönd. Saltfisksframleiðsla okkar hefir farið stórum minnkandi undanfarin ár. Þetta hefir gerzt svo snögglega, að frá 1930 hefir verðmæti útflutts saltfisks minnkað um 25 millj. kr., og frá 1933 um l6 millj. kr. Þessi stórkostlega lækkun á verðmæti útflutts fisks hefir orðið til mikilla vandræða fyrir landsmenn alla og ríkissjóðinn.

Með stofnun fiskimálanefndar er byrjað á viðreisn sjávarútvegsins eftir þetta áfall. Störf nefndarinnar hafa beinzt að því, að hagnýttar yrðu aðrar og fleiri tegundir sjávarafla en hingað til, og einnig að nýjum verkunaraðferðum á þeim tegundum, sem þegar hafa verið notaðar. Ég hefi áður sagt frá því, hvern árangur þessi viðleitni hefir borið, — á yfirstandandi ári verða fluttar úr landi sjávarafurðir, Svo sem flakaður og hraðfrystur koli og aðrar fisktegundir, harðfiskur, rækjur, fyrir 2 millj. kr. Fiskimálanefnd hefir beitt sér fyrir öllum þessum nýjungum. Þetta er að vísu ekki mikil upphæð, borin saman við það, sem verðmæti saltfisksútflutningsins hefir minnkað, en þó munar um það, og framleiðsla þeirra afurða hefir skapað talsverða vinnu í landinu. Ekki er annað sýnilegt en að saltfisksmarkaðir okkar haldi áfram að þrengjast, enn geisar hin geigvænlega borgarastyrjöld á Spáni, og verður ekki séð, hvern enda tekur. Það er því ekki útlit fyrir, að atvinna í landinu aukist vegna saltfisksverkunar, né að markaðir rýmkist fyrir þá vöru. Það er því full þörf á að halda áfram með og auka þá starfsemi, sem hafin er með samvinnu núverandi stjórnarflokka og framkvæmdum fiskimálanefndar. Ef gert er ráð fyrir,. að af þeim 500 þús. kr., sem fiskimálanefnd fær til ráðstöfunar, verði 75 þús. kr. varið til byggingar niðursuðuverksmiðju, 75–100 þús. kr. til hraðfrystihúsa, 50 þús. kr. til veiðarfæratilrauna og markaðsleita, og rekstrarkostnaður við nefndina verði 60 þús. kr. árlega, þá eru alltaf eftir 215 þús. kr. til annara ráðstafana. Nú er það svo, að togaraflotinn hefir ekki verið endurnýjaður, og þarf ég ekki að rekja orsakirnar til þess. Þó má geta þess, að á góðu árunum, meðan togaraveiðarnar gáfu af sér verulegan arð, var mjög mikið fé dregið út úr atvinnurekstrinum og lagt í ýms fyrirtæki, er voru togaraveiðunum algerlega óskyld. Þegar svo fór að halla undan fæti fyrir þessum atvinnurekstri, varð ekkert fé afgangs til þess að endurnýja skipin. Það er ekki sýnilegt, að um fyrirsjáanlegan tíma verði einstaklingar þess megnugir að endurnýja togaraflotann, ef svipuðu fer fram um saltfisksafla og saltfisksmarkað og undanfarin ár. Þær þjóðir aðrar en Íslendingar, sem stunda togaraveiðar hér við land, nota nú mest nýtízku togara, sem eru svo útbúnir, að þeir geta hagnýtt vöruna miklu betur en hinir gömlu. Því hefir verið haldið fram, að togaraútgerð muni ekki bera sig hér við land nema með nýtízku togurum. Það hefir því orðið að samkomulagi milli stjórnarflokkanna, að ríkið styrkti félög sjómanna og verkamanna til að kaupa tvo nýtízku togara í tilraunaskyni, enda sé útgerðin sjálf laus við afskipti ríkisstj. Ef gert er ráð fyrir, að þessir tveir togarar fáist fyrir hálfa aðra millj. kr., verður 25% framlag ríkissjóðs 375 þús. kr. Mér sýnist það auðsætt, að fiskimálasjóður verður fullkomlega fær um að gegna því hlutverki, sem honum er ætlað á næstu árum. Um ýmsar þessar framkvæmdir, svo sem niðursuðuna, er það að segja, að hún gefur hlutfallslega meira í vinnulaun en mörg önnur atvinna. Svo er einnig um hraðfrystan og flakaðan fisk. Framleiðsla hans gefur einnig hlutfallslega mikil vinnulaun. Ég þarf ekki að fjölyrða um nauðsynina á því að endurnýja togaraflotann, eða rökstyðja það rækilega, hvort togaraveiðar hér við land geta borið sig með nýtízku togurum. Það er öllum kunnugt, að togaraútgerðin hefir fært mikið fé inn í landið, og það er þjóðarnauðsyn að fá úr því skorið, hvort togaraveiðar geti aftur orðið arðberandi atvinnuvegur fyrir Íslendinga. Það má segja, að heppilegt væri, að kaupin á þessum tveim togurum færu fram á þessu ári. Gert er ráð fyrir, að þessir togarar verði byggðir að nýju, og með þeim seinagangi, sem nú er á afgreiðslu slíkra skipa, þarf ekki að reikna með því, að það komi að sök, þó ekki yrði útborgað allt tillag fiskimálasjóðs á þessu ári. En verði féð tryggt, er hægt að byrja smíðið nú þegar, þó að öll greiðslan fari ekki fram fyrr en síðar. — Ég vil að lokum óska eftir, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.