24.11.1937
Neðri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Bergur Jónason:

Eins og sést á frv., er ég 2. flm. þess. Mér finnst þessar umr. að mestu leyti algerlega óþarfar, því að það virðist ekki vera neinn skoðanamunur um það, hve nauðsynlegt er að styrkja yfirleitt þær framkvæmdir, sem ætlazt er til að styrkja samkv. ákvæðum frv. Ég vil geta þess um afstöðu okkar framsóknarmanna, að þær framkvæmdir eru allar í fullu samræmi við flokkssamþykktir á flokksþinginu í febrúar s. l. Í fyrsta lið 5. gr., sem er breyt. á l4. gr. laganna, er talað um að styðja að því að koma á fót niðursuðuverksmiðju fyrir sjávarafurðir. Í 2. lið að styðja að .því að reisa hraðfrystihús, að styðja að því að koma upp nýjum vélum í þeim, sem fyrir eru, og að lokum að veita þeim hraðfrystihúsum, sem eru reist á síðustu tveim árum, þau hin sömu hlunnindi. Í 4. lið er talað um að gera tilraunir að veiða með nýjum veiðarfærum og leita nýrra markaða. Og síðasti liðurinn er yfirleitt um það, að verka fisk eða aðrar sjávarafurðir með nýjum aðferðum, leita nýrra markaða og reyna að auka sölu. Þetta er allt nákvæmlega í samræmi við ályktanir, sem flokksþing framsóknarmanna gerði í febrúar s. l. Og þess vegna er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að við framsóknarmenn stöndum að því að flytja frv. um að styðja þessar framkvæmdir.

Einn liður í frv. er sá, að styrkja félög sjómanna, verkamanna og annara til kaupa á ný- tízku togara. Þetta mál er vitanlega nokkuð annars eðlis en aðrar framkvæmdir, sem rætt er um í frv. Það er skoðun mín, að það beri fyrst og fremst á þeim erfiðleikatímum, sem nú eru fyrir sjávarútveginn, að leggja aðaláherzluna á það, að gera hagnýtingu sjávarafurða sem fjölbreyttasta og að reyna að finna nýja markaði fyrir þær sjávarafurðir yfirleitt, sem núv. fiskifloti landsmanna getur aflað sér. Hinsvegar er það líka viðurkennt mál af öllum, að togaraflotinn sé orðinn yfirleitt það úr sér genginn, að ekki sé við því að búast, að til lengdar verði við unað, án þess að gera sem fyrst tilraun til þess að endurnýja hann með nýjum skipum í stað hinna eldri. Í sambandi við það er ákveðið í 3. lið 5. gr., að styrkja félag sjómanna og verkamanna og annara til kaupa á togara í tilraunaskyni. Hv. þm. Snæf. spurði að því í gær og vék að því í dag, hvort meiningin væri að hafa samvinnurekstur eða bæjarrekstur, og svaraði hæstv. atvmrh. því. En nú virtist mér hann einnig spyrja, hvort hér ætti að vera ríkisrekstur. Eins og hv. þm. sér á þessum lið, er gert ráð fyrir félagsskap, og er því augljóst, að ekki er um ríkisrekstur að ræða. Í þessum tölul. er ekki gengið frá því nánar, hvort vera skuli samvinnufélag eða hlutafélag.

Hv. 6. þm. Reykv. og þm. Snæf. hafa fundið þessum framkvæmdum til foráttu, að þær verði settar undir fiskimálanefnd, undir sósíalistíska stjórn. Ég tek undir með hv. 3. þm. Reykv. (HV), að það er mjög ólíklegt, að hann geti ráðið öllu í nefndinni, enda þótt hann sé nú formaður hennar, og álít hreina móðgun við aðra nefndarmenn að segja, að þessi maður geti ráðið þar lögum og lofum. Ég vil benda hv. þm. Snæf. á það, að nú á að skipa nýja menn í nefndina, svo að það er ekki einu sinni víst, að hv. 3. þm. Reykv. komist í hana. En þó að hann yrði settur í hann aftur, þá eru aðrir, sem eiga að tilnefna menn, sem ekki er hætt við, að mundu velja tóma sósíalista, enda er það ekki reynslan hingað til. Bankarnir hafa þar hvor sinn manninn, og ég held það sé Félag botnvörpuskipaeigenda, sem hefir nefnt þar forseta bæjarstjórnar Reykjavíkur, einn af þekktustu sjálfstæðismönnum þessa bæjar. Enn fremur hefir Fiskifélagið haft forseta sinn í nefndinni. S. Í. S. hefir haft forstjóra skipaútgerðarinnar þar, og loks hefir Alþýðusambandið haft þar sinn fulltrúa. Af þessum sjö mönnum í nefndinni eru aðeins tveir alþýðuflokksmenn. Og mér finnst ekki hægt að líta á þessar sífelldu árásir á fiskimálanefnd og gerðir hennar öðruvísi en sem vantraust til þeirra manna yfirleitt, sem í nefndinni sitja. Því að annaðhvort eru þeir hinir samþykkir hv. 3. þm. Reykv., ef hans vilji ávallt kemst fram, eða þeir standa ekki á verði gagnvart honum og eru ekki færir til að starfa í nefndinni. Ég vil, að þeir, sem ráðast mest á fiskimálanefnd og telja óhæfu að hafa þetta í höndum hennar, geri grein fyrir því, hvort það sé ástæða til að vantreysta svo mjög þeim mönnum, sem hingað til hafa verið í fiskimálanefnd, að undanteknum hv. 3. þm. Reykv., sem þeir virðast ekki sérlega hrifnir af, — og ég fyrir mitt leyti er nú ekki heldur.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist, að gefnu tilefni frá hv. þm. Snæf., á rækjuverksmiðjuna, sem sett var á stofn á Ísafirði, og sagði, að ekki hefði komið fram beiðni til fiskimálanefndar um neina aðra rækjuverksmiðju. Formaður fiskimálanefndar hefir gleymt því, að Bílddælingar hafa sótt fyrir nokkru síðan um styrk til nefndarinnar, til þess að koma upp verksmiðju í Bíldudal, en ekki fengið því framgengt ennþá. En ég vona, ef þetta frv. gengur fram og nefndin starfar í framtíðinni, þá muni hún verða einnig við þeirri beiðni.

Af því, sem ég hefi tekið fram, álít ég ekki neina hættu, að nefndin, sem yfirleitt er skipuð af þeim aðiljum, sem allir eiga talsvert mikið undir því, að sjávarútveginum farnist vel, verði eins skipuð framvegis og hingað til, og tel að hún muni halda þannig á málum, að fullkominnar óhlutdrægni verði gætt í framkvæmdum hennar. Mér finnst mjög skrítið, sem kom fram í ræðum hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf., að þeir vildu einna helzt, að atvmrh. réði, hvernig styrkur væri veittur. Hann er sem stendur sósíalisti, og mér hefir ekki virzt þeir sýna sérstakt traust til hans í þessum umræðum. Ég held það sé mikils virði fyrir alla aðilja, hvaða flokks sem er, sem vilja velfarnað sjávarútvegsins, að fyrir framkvæmdum við stuðning sjávarútvegsins standi nefnd, sem er skipuð 3 mönnum frá stofnunum, sem eiga mikið undir því, að þar sé óhlutdrægt og með viti unnið.