24.11.1937
Neðri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Einar Olgeirsson:

Í deilunum um frv. þetta hafa komið fram tvær andstæðar skoðanir um það, hver afskipti hið opinbera eigi að hafa af sjávarútveginum. Sjálfstæðismenn hafa haldið því fram, að þegar vinstri stjórn sé við völd í landinu, eigi hið opinbera alls ekki að seilast inn á þetta svið. Sjálfstæðismenn virðast halda, að sjávarútvegsmál séu einskonar sérgrein þeirra, þeir einir geti stjórnað sjávarútvegsmálum svo að vit sé í, og þessum atvinnuvegi verði aldrei almennilega stjórnað nema undir þeirra yfirumsjá. — Hv. þm. Snæf. sagði áðan, að þar, sem sósíalistar kæmust til valda, lentu allir atvinnuvegir í öngþveiti, en þar, sem einkaframtakið fengi að njóta sín óhindrað, væri allt gott og blessað. Helzt var að skilja á þessum hv. þm., að sjávarútvegurinn væri í eitt skipti fyrir öll leystur úr vanda, ef framlag ríkissjóðs yrði látið ganga til Sölusambands. íslenzkra fiskframleiðenda, en ekki til fiskimálanefndar. Ég held, að það sé í þessu sambandi nauðsynlegt að athuga nokkuð þá reynslu, sem við Íslendingar höfum af einkaframtakinu og stjórn sjálfstæðismanna á sjávarútvegsmálum. Um einkaframtakið á þessu sviði er það að segja, að þegar það hefir fengið að njóta sín óhindrað um nokkurn tíma, þá sér það sér ekki annað fært en að mynda hringa stórútgerðarmanna. Hringarnir fá svo meginið af því fé, sem bankarnir hafa til umráða, því er eytt, og síðan verður ríkið, þ. e. a. s. almenningur að borga fyrir þessa ágætu stjórn sjálfstæðismanna á útvegsmálunum. Íhaldsmenn telja fólki trú um, að sjávarútvegurinn sé þeirra sérgrein, aðrir séu þar ekki færir um að stjórna, það sé hreint og beint óviðkunnanlegt, að vinstri flokkarnir séu að seilast inn á þetta svið. En hver er reynslan af stjórn sjálfstæðismanna á sjávarútvegsmálum okkar síðustu áratugina? Á árunum 1920–1930, þegar íhaldsmenn máttu heita einráðir um þessi mál, stofnuðu þeir Coplands-hringinn, er sölsaði undir sig veltufé bankanna og endaði með því að setja annan aðalbankann á hausinn með töpum sínum, — töpum, sem þessir sérfræðingar í sjávarútvegsmálum höfðu leitt yfir þjóðina. Enn verður almenningur hér á Íslandi að borga fyrir töp Íslandsbanka, töp þessara sérfræðinga í sjávarútvegsmálum, íhaldsmannanna. Og ég fæ ekki betur séð en að sama sagan sé að endurtaka sig nú, þó að hringurinn sé kenndur við Kvöldúlf í stað Coplands. Ég sé ekki ástæðu til þess fyrir sjálfstæðismenn að vera stoltir af þeim gífurlegu skuldum, sem hringur þessi er kominn í við Landsbankann. Nei, reynslan af stjórn sjálfstæðismanna á sjávarútveginum er ekki svo glæsileg, að ástæða sé til að óska þess, að þeir hafi þar áfram óskoraðan yfirráðarétt. Þeir virðast halda það, þessir háu herrar, að nóg sé að tala fagurt, og fólkið muni þá gleyma gerðum þeirra. Þeir halda, að ef þeir tala nóg um 11 þús. kr., sem fiskimálanefnd hafi varið í ómerkilega filmtöku, þá gleymist sex millj. skuld Kvöldúlfs. En menn gleyma ekki aðgerðum sjálfstaðismanna í þessum málum. Það er svo langt frá því, að einstaklingsframtak hv. þm. Snæf. og flokksbræðra hans hafi verið til bjargar sjávarútveginum, þvert á móti, þetta einstaklingsframtak hefir leitt frá hruni til hruns. Togaraflotinn hefir ekki verið endurnýjaður, bankarnir hafa orðið að afskrifa milljón eftir milljón vegna tapanna. Svo koma sjálfstæðismennirnir og amast við því, að aðrir skipti sér nokkuð af þessum atvinnuvegi, enginn geti stjórnað honum nema einmitt þeir!

Það er langt frá því, að sjálfstæðismenn vilji ekki, að hið opinbera leggi fram fé til sjávarútvegsins; þeim nægir ekki að Alþ. geri það á fjárl., heldur eiga bankarnir að leggja fram milljón á milljón ofan, smáútvegsmenn eiga að leggja fé í hendur herranna, sem ráða, svo hundruðum þúsunda króna skiptir. — Hv. sjálfstæðismenn eru síður en svo á móti þesskonar ríkisrekstri, að hið opinbera, að bankarnir leggi fram allt áhættuféð, og gangi framleiðslan vel, hirða einstaklingarnir arðinn, en ef allt fer illa, þá skella töpin á ríkinu, á bönkunum. — Hv. 3. þm. Reykv. talaði um, að upphæðin, sem til er tekin í þessu frv., 500 þús. kr., væri sú mesta fjárveiting, sem hið opinbera hefði veitt til sjávarútvegsins. Þetta er ekki rétt. Þó að hærri upphæðir hafi ekki verið veittar á fjárl., þá ætti það engan að blekkja. Með verðjöfnunarsjóðsgjaldinu fræga var rúm milljón króna tekin af smáútvegsmönnum. Sjálfstæðismenn höfðu sérstaka aðstöðu til að hafa áhrif á það, hvernig því gjaldi var varið. Þeir hefðu getað sýnt það með meðferðinni á þeirri milljón, hvað þeir vilji gera til styrktar sjávarútveginum. og fróðlegt væri að fá vitneskju um það, hvernig þessu fé var varið, hvort það fór í mútur til Spánar, eins og sagt hefir verið, eða hvort sjálfstæðismenn hafi á annan hátt varið því svo, að það sýni ótvírætt, hvernig þeir fara með fé almennings. Sjálfstæðismenn standa ekki vel að vígi, er þeir nú koma fram hér á hv. Alþ. og lýsa því yfir, að vandræði sjávarútvegsins yrðu leyst með því, að einstaklingsframtakið fengi óskorað að njóta sín og vinstri flokkarnir hættu öllum afskiptum af þessum málum. Tuttugu ára reynsla af stjórn íhaldsmanna á sjávarútveginum sannar hið gagnstæða. í Úr vandræðum sjávarútvegsins verður ekki bætt meðan menn þora ekki að taka fyrir sjálft átumeinið: Yfirráð einstakra stórútgerðarhringa á þessum atvinnuvegi.

Ég skal aðeins drepa á eitt atriði viðvíkjandi því, hvort hægt væri að láta togaraflotann bera sig. Eins og nú er, er íslenzka togaraflotanum stjórnað af mörgum félögum, sem sum eiga aðeins einn einasta togara. Íslenzku togararnir eru ekki fleiri en það, að vel mætti stjórna þeim af einu félagi, og myndi við það sparast stórmikið fé. Annars þarf ekki að búast við, að smáútvegurinn beri sig meðan hringavaldið er óbeizlað. Samkv. skýrslu nefndar þeirrar, er rannsakaði hag útvegsmanna árið 1932, námu töp smáútvegsmanna á útgerðinni það ár um tveimur millj. króna. En það mun láta nærri, að á sama tíma hafi gróði þess hluta verzlunarauðvaldsins, sem einkum selur til smáútvegsmanna, grætt sömu upphæð. Hið opinbera verður að taka valdið af hringunum, Kveldúlfshringnum, olíuhringunum og öðrum, sem eru að sliga sjávarútveginn. Annars er það kynlegt að heyra sjálfstæðismenn kvarta undan afskiptum hins opinbera af sjávarútveginum. Ég veit ekki betur en að aldrei hafi verið settar skarpari skorður í sambandi við sjávarútveginn hér á landi en einmitt þegar formaður Sjálfstfl. var ráðherra, — hann gaf þá út bráðabirgðal., sem bönnuðu öllum að flytja saltfisk út úr landinu nema einu félagi, sem bróðir ráðh. var formaður fyrir. Slík afskipti hins opinbera eru sjálfstæðismönnum velþóknanleg. Eftir að hafa kynnzt stjórn sjálfstæðismanna á sjávarútvegsmálum, þá finnst manni, að hver sú tilraun, sem gerð er til þess að fara aðrar leiðir, eigi fullan rétt á sér. Fiskimálanefndin er ein slík tilraun. Ég viðurkenni það fúslega, að fiskimálanefnd hefir gert ýms afglöp og á gagnrýni skilið. En það er algerlega rangt ályktað, að leggja eigi fiskimálanefnd niður, þó að henni hafi mistekizt eitthvað. Það dugir ekki að hætta við að reyna að finna aðrar aðferðir en sjálfstæðismenn notuðu og reyndust svo herfilega illa. Gagnvart þeirri löngu keðju af reginmistökum, sem sjálfstæðismenn, sérfræðingarnir í sjávarútvegsmálum, hafa á samvizkunni, er það skiljanlegt, að þeir menn, sem sjálfstæðismenn telja fullkomna viðvaninga í þessum efnum, geti gert glappaskot. Ég álít, að það sé rétt að halda áfram með fiskimálanefnd, halda áfram í leit að nýjum aðferðum, en taka ekki að nýju upp aðferðir Coplands og Kveldúlfs. — Viðvíkjandi fiskimálanefnd vildi ég taka það fram, að mér finnst ófært, að smáútvegsmenn skuli engan fulltrúa eiga í nefndinni. — Frv. það, sem hér er til umr., stefnir í rétta átt. Hitt ætti að vera óþarft að taka fram, að með starfi fiskimálanefndar er engin reynsla fengin um það, hvernig vinnandi stéttir landsins mundu skipa þessum málum, ef þær væru einráðar, — framkvæmdir þessarar nefndar eiga ekkert skylt við sósíalisma. Það er aðeins verið að reyna, hvort hið opinbera getur ekki haft einhver þægilegri afskipti af sjávarútveginum en að borga milljón eftir milljón í töp einkaframtaksins í þessum atvinnurekstri.