30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Frsm. minni hl. (Sigurður E. Hlíðar): Eins og kunnugt er, hefir sjútvn. klofnað um þetta mál, eins og önnur mál, og hefir minni hl. gert grein fyrir sinni afstöðu til málsins á þskj. 206. Byggist okkar afstaða að miklu leyti á áliti þeirra manna, sem ég hygg. að beri mest skyn á fyrirkomulag þessara mála. Á ég þar við samband ísl. fiskframleiðenda, en þetta samband hefir látið skýrt og skorinort í ljós sitt álit á fiskimálanefnd, sem er aðalatriði þessa frv. Eins og tekið er fram í nál., þá hefir S. Í. F. samþ. till. á síðasta aðalfundi sínum,þar sem það kemur berlega fram, að sambandið álítur ekki mikið upp úr því leggjandi að leggja svo mikið fjármagn í hendur þessarar nefndar, og yfir höfuð að það sé illa farið, að henni skuli vera falin öll helztu sjávarútvegsmálin. Þessi till. var samþ. með 182:43½ atkv. Í raun og veru eru þetta sterk rök, þar sem þessum mönnum ætti að vera treystandi.

Það er um þetta frv. að segja, að við teljum, að það sé að ýmsu öðru leyti mjög varhugavert. Er það þó einkennilegt, þar sem ekki ætti að hafa verið kastað til þess höndunum að semja það. Það er kunnugt, að á bak við það liggur mánaðar starf beggja stjórnarflokkanna. En í þessu frv. eru eins og kunnugt er ýms af helztu atriðunum í málefnasamningi stjórnarflokkanna. Í þessu frv. eru talin hin helztu verkefni fiskimálanefndar. Þar eru talin öll hin helztu sjávarútvegsmál, sem nú eru á döfinni. Það skiptir því ekki svo litlu máli, hvernig framkvæmd þessara mála eigi að vera. Eins og ég gat um áðan, þá treystum við fiskimálanefnd ekki svo vel, að við viljum kasta í hana auknu fjármagni. Öllum þeim sjávarútvegsmálum, sem við höfum beitt okkur fyrir sjálfstæðismenn, hefir verið umsvifalaust kastað í þessa nefnd. Það virðist svo, sem fiskimálanefnd sé einhver allsherjarruslakista, sem stjórnarflokkarnir kasti öllum sjávarútvegsmálum í. Það virðist þó svo, að hér í landinu séu til stofnanir, sem væri miklu nær, að hefðu með höndum ýms þeirra mála, sem vísað hefir verið til fiskimálanefndar. Ein af þessum stofnunum er t. d. Fiskifélag Íslands. Fiskifélag Íslands virðist mér, að sé alveg hliðstæð stofnun hvað sjávarútveg snertir og Búnaðarfélag Íslands er gagnvart landbúnaði. Ég veit ekki betur en að fullt tillit hafi verið tekið til Búnaðarfélags Íslands um landbúnaðarmál, og því meira að segja falið að hafa með höndum ýmsar mikilsvarðandi framkvæmdir landbúnaðarins. Ég hélt satt að segja, að Fiskifélag Íslands væri þannig skipað, að það væri full ástæða til að taka meira tillit til þess og hliðstætt því, sem viðgengst í landbúnaðarmálum um Búnaðarfélag Íslands. Mér er sagt, að Fiskifélag Íslands muni fá um 60–70 þús. kr. árlegan styrk úr ríkissjóði. Ég sé þess vegna ekkert á móti því, að einmitt þetta félag sé látið vinna ýmislegt af þeim störfum, sem eru nú í höndum fiskimálanefndar. Ég sé enga ástæðu til að koma nánar inn á starfssvið Fiskifélagsins; það er öllum að svo góðu kunnugt.

Þá er það önnur stofnun, sem ég vil benda á sem heppilega til að taka að sér hinn þáttinn í starfi fiskimálanefndar; það er S. Í. F. Í því eru flestir fiskframleiðendur landsins, og það hefir með höndum margskonar starfsemi. Þessar 2 stofnanir virðast sem sagt vel til þess fallnar að taka að sér öll störf fiskimálanefndar, og verður þá að álíta, að þessi nefnd sé með öllu óþörf. En það er hér eins og víða annarsstaðar í þjóðlífinu, að það er verið hér að reyna að deila ábyrgðinni. Það eru skipaðir menn af öllum flokkum í hinar umsvifamestu nefndir, og afleiðingin verður sú, bæði með þessa nefnd og aðrar, að enginn þykist bera ábyrgð á neinu. Það er svo skammt síðan síldareinkasalan sálaða var á döfinni, að menn ættu að muna eftir, hvernig þetta fyrirkomulag gafst. Það er að vísu svo um fiskimálanefndina, að þar eru fulltrúarnir ekki kosnir af pólitískum flokkum, heldur af ýmsum félögum, sem hafa sérstakan áhuga fyrir sjávarútvegsmálum og hafa hagsmuna að gæta í sambandi við þau. Ég held, að ég muni það rétt, að fiskimálanefnd sé skipuð 7 mönnum. Bankarnir, Útvegsbankinn og Landsbankinn, skipa sinn manninn hvor, S. Í. S. skipar einn mann; Alþýðusambandið einn, Fiskifélagið einn, og ég man ekki, hvaða fleiri aðiljar skipa menn í þessu nefnd. En hér kemur fram sama hugsunin að reyna að deila ábyrgðinni. En þetta fyrirkomulag er þannig, að maður gæti látið sér detta í hug, að hvert hneykslismálið ræki annað án þess að nokkur hreyfði hönd eða fót. Það er látið svo heita, að þessu sé þannig skipað af sanngirni, en ég sé nú satt að segja ekki þá sanngirni; ég sé frekar þá hættu, sem af þessu getur stafað. Ég hefi hér fyrir framan mig skýrslu fiskimálanefndar. Af þessari skýrslu er bersýnilegt, að í nefndina hefir verið eytt miklu fé, en árangurinn kemur hinsvegar ekki eins berlega í ljós. Ég skal ekki breyta menn á að fara nánar út í þessa skýrslu, en hún talar sem sagt sínu máli um starf þessarar nefndar. Ég hefi ekki annað að fara eftir en niðurstöður n. sjálfrar, enda geri ég ekki ráð fyrir, að hún sé að draga fjöður yfir sína eigin verðleika. Þess vegna finnst mér það vera rík rök fyrir okkur, sem erum í minni hl., að við treystum öðrum betur til að fara með þessi mál heldur en fiskimálan., og þar að auki álítum við það heppilegra fyrir ríkissjóð, því að þá þarf ekki að kosta eins miklu fé til n., sem um þessi mál á að fjalla. Þess vegna erum við öruggir á því að vera á móti þessu aðalákvæði frv., sem hér liggur fyrir. Við erum þeirrar skoðunar, að heppilegra sé að fela þessi nauðsynlegu mál sjávarútvegsins öðrum aðiljum en fiskimálan., og ég er þeirrar skoðunar, að hún megi í raun og veru missa sig.